Brandarahreyfingin

Þingmenn (Borgara)hreyfingarinnar halda áfram að skemmta landanum með fáránlegum hugmyndum og almennu rugli, nú síðast með að biðja lagadeild HÍ að gefa álit hvort ákæra ríkissaksóknara á hendur mótmælendum væri viðeigandi. Það er vel brosandi að svona bulli en er það ekki verulegt áhyggjuefni þegar þingmenn landsins eru farnir að lýsa því sem „borgaralegri skyldu“ þegnanna að ráðast að öðru fólki?

Þingmenn Hreyfingarinnar halda áfram að skemmta landanum með fáránlegum hugmyndum og almennu rugli, nú síðast með að biðja lagadeild HÍ að gefa álit hvort ákæra ríkissaksóknara á hendur mótmælendum væri viðeigandi. Það er vel brosandi að svona bulli en er það ekki verulegt áhyggjuefni þegar þingmenn landsins eru farnir að lýsa því sem „borgaralegri skyldu“ þegnanna að ráðast að öðru fólki?

Fyrr í mánuðinum gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur nokkrum mótmælendum fyrir að hafa ruðst inn í Alþingishúsið í desember 2008 með þeim afleiðingum að lögreglumenn, þingverðir og fleiri meiddust. Ákæran vakti upp þó nokkur viðbrögð en fáránlegustu viðbrögðin voru hjá þingmönnum Hreyfingarinnar. Þeir sendu frá sér yfirlýsingu um að þeir vildu að skrifstofustjóri Alþingis drægi ákærurnar til baka þar sem mótmælendur hafi verið að sinna því sem þau vilja kalla „borgaralegri skyldu“ sinni.

Í fyrsta lagi þá er það ríkissaksóknari sem gefur út ákærur en ekki skrifstofustjóri Alþingis og lágmarks krafa að þingmenn hafi örlítinn skilning á íslensku réttarfari. Í öðru lagi er það ótrúlegt að þingmenn geti leyft sér það að kalla það borgaralega skyldu einhvers manns að ráðast að öðru fólki og meiða það. Samkvæmt háttvirtum þingmönnum er það því ekki einungis réttur minn heldur skylda mín að ráðast að lögreglumönnum og saklausum starfsmönnum Alþingis telji ég að á rétti mínum sé brotið.

Það verður að gera skýran greinarmun á því fólki sem kýs að nýta sér rétt sinn til að mótmæla og sýna þannig andstöðu sína við menn og málefni, og á því fólki sem ræðst gegn friðhelgi Alþingis, beitir annað fólk ofbeldi og brýtur þannig lög. Í stjórnarskrá Íslands segir í 36.grein: Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi. Í 100.gr. almennra hegningarlaga segir: „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“

Það þarf að vera algjörlega á hreinu að þennan dag gengu ákveðnir aðilar úr hópi mótmælenda of langt með því að ráðast inn í Alþingishúsið og verða þess valdandi að starfsmenn slösuðust, þar af einn sem hlaut af varanlega örorku vegna áverkanna. Slík hegðun á ekkert skylt við friðsamleg mótmæli og er langt frá því að vera einhver „borgaraleg skylda“. Það mætti hins vegar hugsa sér að kalla hana „borgarahreyfingarlega skyldu“ þar sem þingmenn Hreyfingarinnar (áður Borgarahreyfingarinnar) hvetja til slíks ofbeldis.

En umræddir þingmenn létu ekki þar við sitja og óskuðu eftir áliti frá lagadeild HÍ hvort ákæran á hendur mótmælendunum væri viðeigandi. Svar Ragnheiðar Bragadóttur, prófessors við lagadeild var nokkuð einfalt, að það væri ekki hlutverk fræðimanna að skera úr um hvort einstök mál í réttarkerfinu væru viðeigandi eða ekki. Eðlilega ekki! Að biðja lagadeild um slíkt álit er út í hött.

Það má vel hlæja að vitleysunni í þingmönnum Hreyfingarinnar. Það er hins vegar grafalvarlegt mál að kjörnir þingmenn Alþingis leggi blessun sína yfir ofbeldi og kalli það skyldu borgaranna. Maður spyr sig í hvernig samfélagi við búum þar sem þingmenn halda fram öðru eins. Það var kannski fyndið á sínum tíma að kjósa Borgarahreyfingunna (sem ætti frekar að kallast Brandarahreyfingin), en sá brandari er löngu hættur að vera fyndinn

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.