Norrænt velferðarsamfélag?

Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna hefur ráðherrum og stjórnarliðum orðið tíðrætt um hið norræna velferðarsamfélag sem þeir vilja byggja hér upp. Mörgum líst eflaust vel á og þar með talið undirritaðri sem lengi hefur verið ákaflega hrifin af velferðarsamfélögum Norðurlandanna. Í vikunni fóru þó að renna á mig tvær grímur og ég velti því fyrir mér hvort ég hafi allan tímann misskilið hugtakið „norrænt velferðarsamfélag“. Aðgerðir stjórnvalda virðast nefnilega ekki hafa það að augnamiði að ná þessu göfuga markmiði nema síður sé.

Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna hefur ráðherrum og stjórnarliðum orðið tíðrætt um hið norræna velferðarsamfélag sem þeir vilja byggja hér upp. Mörgum líst eflaust vel á og þar með talið undirritaðri sem lengi hefur verið ákaflega hrifin af velferðarsamfélögum Norðurlandanna. Í vikunni fóru þó að renna á mig tvær grímur og ég velti því fyrir mér hvort ég hafi allan tímann misskilið hugtakið „norrænt velferðarsamfélag“. Aðgerðir stjórnvalda virðast nefnilega ekki hafa það að augnamiði að ná þessu göfuga markmiði nema síður sé.

Í útópíu norræna velferðarsamfélagsins felast ýmis eftirsóknarverð lífsgæði. Þar er félagslegt kerfi byggt á traustum grunni með tiltölulega háum tekjuskatti, námsmenn fá styrki til að mennta sig og barnafjölskyldum gæti hvergi liðið betur. Einhverra hluta vegna er þessi lýsing í hrópandi mótsögn við stöðuna á Íslandi í dag og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst leggjast í á komandi mánuðum, eða hefur hún í raun aðrar hugmyndir um hið norræna velferðarsamfélag?

Hennar lýsing á útópíunni er þá kannski svona: Í útópíu norræna velferðarsamfélagsins felast fá eftirsóknarverð lífsgæði. Þar er skorið niður í félagslega kerfinu, bætur öryrkja og ellilífeyrisþega skertar og námsmönnum kaldranalega sagt að éta það sem úti frýs; ef þeir kæra sig ekki um að lifa undir fátækramörkum geta þeir bara hætt í skóla og farið á atvinnuleysisbætur. Á meðan eru skattar hækkaðir og vörugjöld sömuleiðis því samfélagið er stórskuldugt vegna hruns efnahagslífsins.

Ef til vill er þetta ekki það sem ríkisstjórnin hefur í huga þegar hún talar um norræna velferðarsamfélagið sitt enda engar draumaaðgerðir sem hún stendur frammi fyrir. Hins vegar kostar það ekkert að vera heiðarlegur og koma til dyranna eins og maður er klæddur: ætlun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna er ekki að byggja hér upp norræna velferðarútópíu, hitt þó heldur, eitthvað sem hver heilvita maður sér.

Því er tímabært að ríkisstjórnin hætti þessu kjaftæði og viðurkenni að á innan við hálfu ári hefur henni tekist að snúa baki við öllum sínum hugsjónum, nema þá ef vera skyldi þeirri hugsjón að ávallt sé að gott að hækka skatta og að lífsnauðsynlegt sé að eyða tíma og peningum í að sækja um aðild að ESB.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.