Vinsamlegast, einn gíróseðil í viðbót!

Innheimtuaðferðir ríkisins eru einstakar. Ekkert fyrirtæki eða stofnun tekur sér það bersaleyfi að senda launagreiðanda okkar reikninginn fyrir þeirri þjónustu eða vöru sem við kaupum. Ríkið ákveður hins vegar að senda reikninginn á launagreiðandann, þriðja aðila, og lætur hann sjá til þess að við greiðum svokallaða staðgreiðslu sem ríkið ákveður að sé sú álagning sem beri að draga af tekjum okkar.

Innheimtuaðferðir ríkisins eru einstakar. Ekkert fyrirtæki eða stofnun tekur sér það bersaleyfi að senda launagreiðanda okkar reikninginn fyrir þeirri þjónustu eða vöru sem við kaupum. Ríkið ákveður hins vegar að senda reikninginn á launagreiðandann, þriðja aðila, og lætur hann sjá til þess að við greiðum svokallaða staðgreiðslu sem ríkið ákveður að sé sú álagning sem beri að draga af tekjum okkar.

Er einhver munur á því að greiða til ríkisins og að greiða símreikninginn? Við veljum að eiga viðskipti við ákveðið símafyrirtæki en ekki ríkið. Reikningsfjárhæðin stýrist líka af öðru en okkar eigin gjörðum, sama hversu oft við förum á spítala eða hversu marga hringi við keyrum á þjóðvegi 1 þá borgum við alltaf fasta skilgreinda fjárhæð, upphæðin á símreikningnum er hins vegar háð því hversu mikið við notum símann. Í flestum tilfellum vitum við betur hversu há fjárhæð fór til símafyrirtækisins heldur en til ríksins, þrátt fyrir mikinn krónumun. Ástæðan er sú að ríkisgíróseðillinn kemur aldrei inn um lúguna.

Hverjar skyldu þá ástæðurnar vera fyrir því að ríkið treystir okkur ekki til að greiða okkar hluta á sama hátt og við greiðum fyrir aðra þjónustu? Auðvitað er það miklu ódýrara að sleppa því að prenta út gíróseðlana og koma því svo fyrir að einhver annar beri kostnaðinn af innheimtunni, eða hvað? Ríkið á ekki að velta kostnaðnum við sína eigin innheimtu yfir á launagreiðendur. Það er í raun ekkert annað en meiri skattlagning. Það á ekki að vera munur á innheimtuaðferðum ríkis og fyrirtækja.

Ekki er hægt að sjá að á nokkurn hátt sé fyrirkomulagið í dag valið með hag skattborgaranna í fyrirrúmi. Það er hins vegar m.a. verið að gera þennan ríkisgíróseðil fjarlægan okkur og þar með draga úr líkunum á því að við kynnum okkur fjárhæðina og að við getum metið hvort upphæðin sé sanngjörn eða ekki. Þegar símreikningurinn birtist getum við gert okkur í fljótu bragði grein fyrir því hvort hann sé sanngjarn eða ekki. Vinsamlegast sendið mér einn gíróseðil í viðbót.

Latest posts by Berglind Hallgrímsdóttir (see all)