Stjörnur framtíðarinnar

Enski boltinn er loksins byrjaður að nýju eftir sumarfrí, til mikillar gleði fyrir marga knattspyrnuunnendur. Mörg ný andlit eru komin í þessa sterkustu deild í heimi og áhugavert að skoða nánar þá nýju leikmenn sem munu hafa mikil áhrif á enska boltann á næstu árum.

Umræðan um enska boltann hefur að mestu leiti verið á neikvæðu nótunum undanfarnar vikur. Miklar deilur spruttu upp um verðlagningu Sýnar á nýju sjónvarpstöðinni Sýn2 og nú er deilt um þær kröfur 365 hf. um að fá einkarétt á útsendingu á enska boltanum. Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að líta fram hjá því að veisla er hafin fyrir hvern knattspyrnuunnanda. Framundan er spennandi tímabil í enska boltanum með mikið breyttum liðum og mörgum nýjum andlitum.

Hér að neðan ætla ég mér að kynna til leiks nokkra af þeim nýju leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni sem ég tel að það sé vert að hafa auga með á komandi vetri.

Eduardo Da Silva (Arsenal) er 24 ára brasílskur framherji með króatískt ríkisfang. Honum er ætlað að gera hið ómögulega; að koma í stað Thierry Henrys sem fór frá Arsenal til Barcelona í sumar. Silva er eldsnöggur, teknískur framherji sem kom frá Dinamo Zagreb í Króatíu þar sem hann skoraði 73 mörk í 104 leikjum fyrir lið sitt. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir vaska frammistöðu með landsliðiðinu en hann hefur skorað níu mörk í 15 leikjum fyrir landsliðið.

Ryan Babel (Liverpool) er einn af efnilegustu leikmönnum Evrópu. Hann er leikmaður sem getur bæði spilað á kantinum og sem framherji. Hann var einn af stjörnum U-21 landsliðs Hollendinga í sumar sem unnu Evrópumót landsliða. Þar var hann meðal annars valinn maður leiksins í úrslitaleiknum gegn Serbíu sem vannst 4-1. Liverpool vann kapphlaupið um þennan bráðsnjalla fótboltamann sem kom frá Ajax í Hollandi.

Valeri Bojinov (Man. City) er búlgarskur framherji á 21. aldursári. Hann var snemma uppgötvaður sem mikið efni og gerði atvinnumannasamning við ítalska liðið Lecce á sínu fimmtánda aldursári. Hann spilaði sinn fyrsta leik einum mánuði fyrir 16 ára afmælið sitt og var þá yngsti útlenski leikmaðurinn til að spila í efstu deild á Ítalíu. Bojinov varð fyrir því óláni að meiðast í sínum fyrsta leik í byrjunarliði fyrir Man. City og verður frá í nokkra mánuði. Það er þó ljóst að hann mun reynast mikill liðsstyrkur fyrir Man. City þegar hann kemur til baka.

Luis Nani (Man. Utd.) er gríðarlega efnilegur portúgalskur vængmaður sem er jafnframt dýrasti leikmaðurinn af þeim sem nefndir eru hér. Hann var keyptur frá Sporting Lisabon í Portúgal fyrir tæpa tvo milljarða íslenskra króna. Hann er mjög teknískur leikmaður og svipar um margt til Cristiano Ronaldo. Hann var einn af burðarásunum í liði Sporting síðasta vetur og það varð til þess að hann var valinn í portúgalska landsliðið. Það verður þó mikil pressa á Nani að standa sig og binda áhagendur ensku meistaranna miklar vonir við hann.

Craig Gordon (Sunderland) er dýrasti markmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, keyptur fyrir rúman milljarð frá skoska liðinu Hearts. Frammistaða Gordons með Hearts og skoska landsliðinu vakti áhuga stærstu liða Bretlandseyja en það var Sunderland sem hreppti hnossið. Hann er stór og stæðilegur markmaður sem hefur sýnt mikið öryggi í fyrstu leikjum sínum með Sunderland. Gordon er búinn að spila 24 leiki fyrir skoska landsliðið þrátt fyrir ungan aldur og stefnir allt í að hann verði einn af bestu markmönnum í heimi.

Youness Kaboul (Tottenham) er eitt af stóru spurningarmerkjunum fyrir komandi leiktíð. Hann var keyptur fyrir tæpan milljarð króna frá franska liðinu Auxerre. Hann er fyrirliði franska U-21 árs landsliðsins og getur spilað á miðju og í vörninni. Það er enginn sem deilir um þá hæfileika sem Kaboul hefur til þess að ná langt og spennandi verður að sjá hvernig hann mun standa sig í einni erfiðustu deild í heimi.

Hér er þó ekki öll sagan sögð því það eru mun fleiri af spennandi nýjum leikmönnum sem hafa komið í ensku úrvalsdeildina í sumar. Enska deildin hefur sjaldan eða aldrei verið jafn vel skipuð góðum leikmönnum og í ár. Því hvet ég alla fótboltaunnendur að fylgjast vel með enska boltanum í vetur. Hvort sem það er með því að kaupa Sýn2 eða fara reglulega á pöbbann.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)