Truntusól og tungl

Íslensku lyfjalögin myndu sóma sér vel í sósíalískum kennslubókum, svo uppfull af boðum og bönnum eru þau. Það er fyrir löngu kominn tími á að stokka upp þetta flókna kerfi sem kæfir niður samkeppni og markaðshugsun. Lyfjalögin banna t.d. ekki einasta allar auglýsingar með lyf, heldur gera þau opnun lyfjaverslana erfiða og háða duttlungum sveitarstjórna. Þessu þarf að breyta.

Það er kominn tími á að stokka upp þann forneskjulega frumskóg reglugerða og stofnana sem sjá um að koma lyfjum í hendur landsmanna. Fréttir af niðurstöðu Lyfjastofnunar, sem hefur krafist þess að síðunni Mínlyf.net verði lokað, fyrir þær grafalvarlegu sakir að þar var stunduð póstverslun með lyf – í þokkabót af lækni, sýna vel að þegar reglurnar eru sem flestar og flóknastar verður niðurstaða einstakra mála yfirleitt langt frá allri eðlilegri skynsemi.

Það þarf ekki annað en að fletta upp í lagasafninu og skoða lyfjalögin til þess að sjá hve umfangsmikið og flókið kerfið er. Þarf virkilega löggjöf upp á 50 lagagreinar í 17 köflum til að setja rammann um lyfsölu á Íslandi? Auðvitað ekki. Þessi lög mætti einfalda og skera niður.

Ríkið ætlar að tryggja hagkvæmni
Ef við stiklum á stóru í lyfjalögunum, má sjá í upphafi svonefnda markmiðslýsingu en slíka yfirlýsingu er gjarnan að finna í löngum lagabálkum. Þar segir: „Markmið laga þessara er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði.“

Það er ágætis þumalputtaregla að þegar löggjafinn ætlar að tryggja nægilegt framboð af einhverju verður niðurstaðan venjulega kolöfug. Þegar framboðið er bjagað verður verðmyndunin óeðlileg. Niðurstaðan er svo eitt hæsta lyfjaverð í heimi, miklu hærra en hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það eitt að læknir opni heimasíðu þar sem boðið er upp á þá þjónustu að versla lyf skv. lyfseðli fyrir íslenska sjúklinga í Svíþjóð og senda þau heim þannig að það borgar sig, hlýtur að vera ágætis vísbending um verðmuninn.

Nánast allar auglýsingar bannaðar nema í tímaritum lækna
Lyfjastofnun ákvað eins og áður segir að stöðva þennan illgjarna lækni, þar sem hann hafði brotið gegn 6. kafla lyfjalaganna um auglýsingu og kynningu lyfja. Sá kafli hefst á eftirfarandi orðum: „Bannaðar eru hvers konar lyfjaauglýsingar með þeim undantekningum sem um getur í kafla þessum.“ Að vísu er gerð sú undantekning að auglýsa megi lyf á íslensku í tímaritum eða blöðum þeirra heilbrigðisstétta sem ávísa og dreifa lyfjum. Maður veltir því fyrir sér hvaða kæruleysi þetta sé hjá löggjafanum – hvað ef ólærður einstaklingur myndi komast yfir slík tímarit sem ætluð eru læknum?

Þar sem lyfjalögin banna nokkurn veginn allar auglýsingar er ef til ekki furða að vesalings læknirinn hafi gerst brotlegur í viðleitni sinni við að lækka lyfjakostnað hjá íslenskum lyfjanotendum. Ætli það eitt að setja upp vefsíðu um lyf hafi ekki farið nálægt því að brjóta gegn útsævi bannákvæða lyfjalaganna.

Verslanaleyfi háð duttlungum sveitarstjórna
En þetta er ekki allt saman. Lyfjalögin láta sér vitaskuld ekki nægja að hafa skoðun á auglýsingum um lyf, heldur að sjálfsögðu um verslanir sem selja lyfin. Um það fjallar 7. kafli laganna þar sem fram kemur að leyfi til lyfjasölu hafi þeir aðilar einir sem hlotið hafi leyfi ráðherra. Ekki nóg með það, heldur skal ráðherra senda viðkomandi sveitarstjórn umsóknina til umsagnar. Í lögunum segir svo: „Við mat umsóknar skal m.a. stuðst við íbúafjölda að baki lyfjabúðinni og fjarlægð hennar frá næstu lyfjabúð. Leggist umsagnaraðili gegn veitingu nýs leyfis er ráðherra heimilt að hafna umsókninni. Umsóknir um lyfjaútibú skal með sama hætti senda sveitarstjórn til umsagnar.“

Á mannamáli þýðir þetta að sveitarstjórnir geta nánast að geðþótta hafnað þeim sem vill opna lyfjabúð í sveitarfélaginu um leyfi, ef þeim finnst íbúarnir ekki nógu margir til að standa undir tveimur lyfjabúðum eða fjarlægðin milli lyfjabúða ekki næg. Hvers konar rugl er þetta? Hvað vita bæjarfulltrúar um skilyrði til þess að reka lyfjaverslun og hvað kemur það þeim við hvort ein eða tvær eða þrjár lyfjaverslanir séu í bænum? Dæmi eru um að þetta ákvæði hafi verið nýtt og sveitarstjórnir lagst gegn slíkri leyfisveitingu.

Í stuttu máli er ekki nóg með að ákveðið sé með lögum að flestar auglýsingar séu bannaðar. Víðast hvar á landinu er það miklum erfiðleikum bundið að fá að opna lyfjaverslanir, ef fyrir er á fleti ein slík. Allt ber þetta að sama brunni. Skriffinnskan og reglugerðarfarganið aflagar þennan markað og veldur því að háleitar hugsjónir um hagkvæmni fara veg allrar veraldrar. Enda er besta leiðin fyrir löggjafann til þess að tryggja hagkvæmni í rekstri einföld – með því að skipta sér sem minnst af.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.