Að byrgja brunninn!

Árið 2002 var gerð skýrsla um málefni Byrgisins, sem þá hafði notið opinberra fjárframlaga úr ríkissjóði frá árinu 1999. Skýrslan leiddi meðal annars í ljós að framganga forstöðumanns, ásamt bókhaldi og fjármálum, væru gagnrýnisverð

Árið 2002 var gerð skýrsla um málefni Byrgisins, sem þá hafði notið opinberra fjárframlaga úr ríkissjóði frá árinu 1999. Skýrslan leiddi meðal annars í ljós að framganga forstöðumanns, ásamt bókhaldi og fjármálum, væru gagnrýnisverð

og í ólagi, en að meðferðarstarf hefði hins vegar skilað einhverjum árangri og hefði mikilvægu hlutverki að gegna.

Hvernig mátti úr slíku böli bæta?

Niðurstaða: Byrgið var gert að sjálfseignarstofnun og keypt undir hana húsnæði. Hin nýja stofnun naut síðan fjárframlaga úr ríkissjóði og sami forstöðumaður var ráðinn til þess að veita starfinu áfram forstöðu. Með þessu skyldi skikki komið á starfsemina. Ekki var hins vegar gerð krafa um að fulltrúi hins opinbera sæti í stjórn hinnar nýju stofnunar og ekki var ákveðið að setja á fót neins konar eftirlitskerfi vegna starfseminnar. Endurskoðun ársreikninga fór ekki fram, eða var gerð að skilyrði fyrir áframhaldandi framlagi úr ríkissjóði.

Árið 2006 felur nýskipaður félagsmálaráðherra Ríkisendurskoðun að gera úttekt á fjárreiðum Byrgisins. Í úttekt kemur í ljós að tugur milljóna hefur horfið af fjárreiðum sjálfseignarstofnunarinnar. Í kjölfarið ákveður félagsmálaráðherra að stöðva fjárframlög úr ríkissjóði til Byrgisins.

Kemur þetta nokkrum á óvart?

Meint fjármálaóreiða og misferli forsvarsmanna Byrgisins er áfellishnekkir fyrir stjórnvöld. Sú ákvörðun er áfellishnekkir, í ljósi úttektarinnar 2002, að halda starfseminni áfram, án þess að samhliða væri gengið frá skilvirku og gegnsæju eftirlitskerfi með fjárreiðum hinnar nýju sjálfseignarstofnunar. Og enn fremur er það áfellisdómur að starfsemin hafi notið athugasemdalausra fjárframlaga úr ríkissjóði, án þess að nokkurs konar úttekt á fjárreiðum færi fram. Rannsaka þarf sérstaklega af hverju var ekki talin ástæða til þess að skipuleggja eftirlit með Byrginu og hvaða röksemdir stóðu til þess að gera slíkt ekki árið 2002.

Viðbrögð núverandi félagsmálaráðherra eru til fyrirmyndar, ásamt þeirri yfirlýsingu hans um að innra eftirlit með fjárveitingum verði eflt, enda málefni Byrgisins klassískt dæmi um hrikalega slælegt eftirlit með fjárreiðum almennings og samansúrrað klúður af verstu sort.

Viðbrögð fyrrverandi aðstoðarmanns félagsmálaráðherra og formanns fjárlaganefndar Birkis Jóns Jónssonar eru hins vegar ekki til fyrirmyndar, þar sem hann reynir að skella skuldinni á ríkisendurskoðun, í stað þess að axla sinn hlut í dómgreindarbresti og fyrirhyggjuleysi félagsmálaráðuneytis varðandi framtíðarskipan Byrgisins á árinu 2002.

Freistandi er að minna á máltakið að betra sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Um fjárframlög til Byrgisins frá árinu 2002 má hins vegar segja að barninu, í ofangreindum málshætti, hafi verið spyrnt ofan í brunninn og brunnlokið verið síðan kirfilega fest á eftir.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.