Sígur fold í mar?

Í einu ævintýra hinna fjögurra fræknu var verkefnið að flytja risastóran borgarísjaka frá heimsskautinu til einshvers Arabalands vegna vatnsskorts. Ekki tókst betur til en svo að þegar á leiðarenda var komið dugði jakinn sem klaki í eitt [gin] glas. Þetta litla ævintýri rifjast upp fyrir mér þegar lesið er um og horft á fréttir af atburðum fyrir botni Miðjarðarhafs. Allir eru að vilja gerðir til að reyna gera eitthvað í málunum en þegar á hólminn er komið þá gerist ekki neitt í þá veru, þvert á móti. Hvernig stendur á því?

Sól tér sortna og vesen

Svarið er í raun einfalt. Rétta meðalinu er ekki beitt á sjúkdóminn sem þarna grasserar. Um er að ræða deilur um landssvæði, átök um náttúruauðlindir, árekstra ólíka trúarbragða sem og átök milli einstakra trúarhópa innan sömu trúarbragða. Ofan á þessa elda bætast svo olíuhagsmunir hvers konar, árekstur menningaheima milli vesturs og austurs og mikil fátækt á sama svæði og gríðarleg auðlegð er til staðar. En verst af öllu eru þeir öfgar sem seytla innan um allt þetta og birtast í harðsnúnum einræðisstjórnum og ofstækis í trúariðkun sem er í augum kristilegra guðleysingja á Vesturlöndum ekkert annað en hrein geðsýki. Svart verður svo svartara þegar Vesturlönd með Bandaríkin í broddi fylkinga pota í sárið með alls kyns hagsmunabrölti.

Það getur hjálpað til að gera sér grein fyrir að vandamálið er af ólýsanlegri stærðargráðu. Það auðveldar leitina að einfaldri lausn. Alexander nokkur leysti Gordíans hnútinn á snilldarhátt, hann hjó hann í sundur. Lausnin á vandamálum Mið-Austurlanda blasir líka við öllum sem vilja sjá hana. Hún felst einfaldlega í ákveðnu afskiptaleysi Vesturlanda af svæðinu og frjálsum viðskiptum. Þó að lausnin sé einföld þá þýðir það ekki að leiðin að henni sé það líka. Skoðum þetta nánar

Frjáls viðskipti ríkja og manna á milli leiða af sér hagsmuni. Hagsmuni þess efnis að verðmæti skapast og velmegun ríkja og manna eykst. Út frá aldarlöngum styrjöldum og suðurpotti ólíkra hugmynda og kenninga varð til í Evrópu miðalda grundvöllur fyrir viðskipti. Hvernig það gerðist nákvæmlega er erfitt að svara en sem betur fer mótaðist skýr eignaréttur og frá honum skapaðist hvati til að þróa og nýta tækniframfarir hvers konar til að efla framleiðslu og auka þar með viðskipti. Með nokkurri einföldun má svo halda því fram að hagsmunir borgarastéttarinnar hafi leyst úr læðingi tiltölulega hófsama stjórnarfarsbyltingu sem tók á sig hægt og rólega mynd þess lýðræðisfyrirkomulags sem til staðar er í dag. Þetta er mikil einföldun á margbrotinni atburðarrás en megin þráðurinn er sá að menn fór að stunda viðskipti í stað þess að heyja endalaus stríð.

Ef viðskipti eru töfralausnin hvernig er þá best að koma þeim á í Mið-Austurlöndum? Því er ekki hægt að svara með góðu móti. Leiðin að því marki verður því miður ekki einfaldari en sú leið sem Evrópa þurfti að fara. En Vesturlönd geta lagt sitt af mörkum til að kynda undir ákveðna hvata í þá áttina. Eitt stórt atriði er að hætta pólitískum afskiptum af Arabalöndunum og bjóða þeim í staðin fríverslunarsamninga. Olía er mögulegt vandamál hvað þetta varðar en er einhver raunveruleg hætta á því að Arabaríkin hætti að framleiða olíu, hvað þá selja hana þeim sem hæst bjóða? Ef þeir kjósa það og þar með lifa í fátækt og án viðskipta með þau verðmæti sem þeir búa nú þegar yfir, þá verður það að vera þeirra mál. Vesturlönd verða að gjöra svo vel að leysa orkuþörf sína á annan hátt. Óbreytt ástand, hvað þá versnandi staða, í dag á þessu svæði er líka góð ástæða fyrir Vesturlönd og fleiri að finna aðra hagkvæmari orkugjafa.

Með því að bjóða Arabaheiminum fríverslunarsamninga og frjáls viðskipti felst ekki, og má ekki á neinn hátt fela í sér, að hinn vestræni heimur slaki á kröfum sínum um þau gildi samfélags sem þar eru við lýði. Lýðræði, eignaréttur og önnur mannréttindi eins og tjáningarfrelsi, trúfrelsi eru þau gildi sem standa verður vörð um og fyrir þeim verður áfram barist. En jafnframt þýðir ekki að „þröngva“ þeim gildum upp á aðra menningarheima enda erfitt að sjá að til einhvers sé að þröngva frelsi eða mannréttindum upp á einhvern. Frelsi og mannréttindi eru áunninn af þeim sem vilja fyrir þeim berjast.

En stærsti kosturinn sem þessi leið hefur upp á að bjóða er að gegn eldinum er barist með vatni en ekki eldi, ef svo má að orði komast. Bjóði Vesturlönd íbúum Mið-Austurlanda upp á raunhæfan kost á frjálsum viðskiptum og samskiptum við frjálst og opið samfélag, þar sem mannréttindi eru virt og hver einstaklingur metinn að eigin verðleikum, eru helstu vopn sleginn úr höndum öfgasinnaðra harðstjóra og trúarofstækismanna hverju nafni þeir nefnast eða trúar þeir aðhyllast. Það er því miður hreinn tvískinnungur af hálfu Vesturlanda að ætla sér að berjast gegn hvers kyns öfgum og hatri með sams konar hatri og öfgum á sama tíma og innleiða á mannréttindi og lýðræði meðal íbúa sama landa. Það hefur ekki gefist vel og mun ekki gera það.

Í nýlegri og hástemmdri kvikmynd um krossferðir kristinna manna til fyrirheitna landsins var boðskapurinn sá að guðs ríki væri að finna hjá hverjum einum friðelskandi manni. Það er vel að slíkt ríki, eða hvað það nú gæti verið, sé að finna hjá einstaklingum en ekki í ofstæki og yfirgangi annarra manna. Frjáls viðskipi manna á milli hjálpa til við að finna slíkt ríki. Ef það finnst ekki munu kristnir, múslímar og bræður halda áfram að berjast þar til mold sígur í mar.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.