105 er nýi 101

Leigumarkaðurinn í 101 er að breytast mikið. Ég hef mikið fylgst með leigusíðunum og er sjálf nýflutt af Laugaveginum austur yfir Snorrabraut. Þegar verið er að leita að íbúð þá fylgist maður grannt með framboði og eftirspurn á leigumarkaðnum. Í dag er það þannig að mikið af fólki sem ég þekki hefur nýlega flutt sig um set viljugt eða tilneytt úr miðbænum, mikið til í nærliggjandi hverfi. Það er tvennt í þessu sem virðist ráða úrslitum, há leiga í miðbænum eða eigendurnir vilja leigja íbúðirnar til ferðamanna yfir sumartímann. Mikið af íbúðum sem auglýstar eru til leigu núna í miðbænum eru einmitt auglýstar til leigu frá október og fram í apríl eða maí.

 

Er vandamálið aukning ferðamanna og lausnin öll hótelin sem eru í byggingu núna? Það held ég ekki. Mikið af þeim ferðamönnum sem kjósa að leigja sér íbúð, nú eða herbergi í miðbænum eru annars konar ferðamenn en þeir sem endilega kjósa að gista á hótelum þegar þeir ferðast. Sumir vilja vera frjálsari og geta eldað sér sjálfir, aðrir vilja kynnast fólkinu sem býr á staðnum sem það ferðast til. Þetta kýs ég oft þegar ég ferðast og auðvitað er þetta í mörgum tilfellum ódýrari kostur.

Þekkt fyrirbrigði hér og erlendis er sófasamfélagið eins og ég kalla það (e. couchsurfing). Þá fær fólk fría gistingu á ‘sófa’ hjá ókunnugri manneskju þar sem það er að ferðast. Þetta hef ég einnig oft nýtt mér og boðið fólki einnig að gista hjá mér frítt. Þetta er í rauninni svipað og heimagisting án greiðslu. Fólk er að sækjast eftir því að kynnast fólki á staðnum og er þetta því miklu meira en gisting án greiðslu og á ég enn mikið af vinum í gegnum þetta samfélag erlendis. Heimagistingasíður eins og airbnb byggja mikið til á sama módeli nema með greiðslu. Fólk setur upp prófíl á heimasíðu með myndum ásamt upplýsingum um sig og fær umsagnir frá gestum þegar þeir hýsa og öfugt. Þannig myndast öflugt sjálfgagnrýnið samfélag þar sem byggir mikið til á trausti en einnig umsögnum annarra.

Hver er því lausnin? Í dag eru reglur um heimagistingu næstum jafn strangar og fyrir hótel og gistiheimili. Sækja þarf um mörg leyfi og er nánast ómögulegt að uppfylla mörg skilyrðanna fyrir þá sem vilja leigja út herbergi í þeirra eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Margir hafa brugðið á það ráð að leigja einungis út herbergi í átta nætur eða lengur því lögin kveða á um gistingu í sjö nætur eða styttra.

Að mínu mati er því augljóst að endurskoða þarf lögin um heimagistingar og rýmka þeim þannig til að auðvelda fólki að leigja út hjá sér eitt herbergi. Auðvitað þarf að tryggja öryggi fólks en ferðamaður sem gistir í fimm nætur á heimili þarf ekki meira öryggi en sá sem leigir herbergi á heimili í átta nætur plús hvort sem um er að ræða ferðamann eður ei. Með því að setja einfaldari lög um heimagistingar þá gerum við fleirum kleift að leigja út herbergi þar sem þeir búa. Fleiri íbúar gætu séð sér fært að búa í miðbænum og leigja út hjá sér herbergi. Þannig höldum við meiri tengslum milli ferðamanna og heimamanna og sköpum skemmtilegri miðbæ. Ferðamaðurinn vill jú koma og upplifa það sem við erum að gera en ekki það sem er sniðið að honum.

 

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)