Konfektmolaspeki

„Lífið sjálft er eins og konfektkassi, þar sem allir molarnir eru nákvæmlega eins, gæðin tryggð og ekkert óþægilegt eða erfitt kemur upp á.“

Mjúklega liðast niður úr loftinu lítil fjöður sem flýgur yfir götu, lendir á bíl, fýkur upp og niður, líður áfram með loftstraumum og vindi en lendir að lokum við fætur góðlegs manns sem situr á bekk og bíður eftir strætó. Hann tekur fjöðrina upp, opnar tösku, setur inn í barnabók um Georg forvitna, hallar aftur bókinni og lokar töskunni. Hann er með konfektkassa í kjöltunni. Kona sest við hlið hans á bekknum. Hún er líka að bíða eftir strætó. Ekki númer 9 eins og hann heldur númer 4.

Góðlegi maðurinn réttir fram konfektkassann og býður með sér. „Má bjóða þér konfektmola?“ spyr hann. Konan afþakkar og hann segir frá speki móður sinnar. „Mamma sagði alltaf að lífið sjálft væri eins og og konfektkassi. Maður veit aldrei hvernig mola maður fær.“ Handahófskennt svif laufblaðsins og æðruleysisspeki móður góðlega mannsins ramma í upphafi myndarinnar inn hið ævintýralega og algjörlega skipulagslausa lífshlaup sem myndin fjallar um. Forrest Gump er með gott hjarta, og góð lungu og fætur til að hlaupa bæði langt og hratt. Hann er kannski ekki með frábæran heila, en hann fylgir sannleika sem þarf ekki að vera flókinn og lifir innihaldsríku, viðburðaríku og ákaflega handahófskenndu lífi.

Í dag var vinsælasta fréttin á vef Morgunblaðsins ekki um kórónaveiruna, kalóríubruna eða kynlífsstellingar—heldur um Quality Street konfektið frá Jórvík. Mackintosh-ið er fastur liður í jólahaldi margra fjölskyldna á Íslandi og ýmis konar skoðanir á gæðum molanna og kurteisireglum um hvort velja megi bitana eða sætta sig við það sem lendir í lófanum. Nú hefur svissneska stórfyrirtækinu Nestlé (sem á vörumerkið) tekist að ráða bót á því hvimleiða vandamáli að ólíku fólki fannst mismunandi bitar í kassanum bestir; sem gatt leitt til þess að sumir gátu þurft að sætta sig við að fá mola sem var ekki í uppáhaldi. Frá og með deginum í dag er nefnilega hægt að panta sína eigin útgáfu af Mackintosh dollum, þar sem búið er að prenta manns eigið nafn á lokið og hafa einungis þær tegundir af molum sem manni finnst sjálfum bestir. Jafnvel ekkert nema þann eina sem manni þykir bestur. Nútímalegt persónusniðmát hefur komið í veg fyrir öll konfekt-tengd vonbrigði og málamiðlanir um bitaval. Nú geta allir fengið eingöngu þá bita sem þá langar helst í og þurfa ekki einu sinni að prófa þá sem eru með heslihnetubragðinu.

Þetta er kannski mjög jákvæð þróun og huganlega nauðsynleg. Víða bregðast börn og unglingar við því að heyra leiðinleg lög í bílaútvarpi eins og þau hafi verið stungin í lærið með glóandi teini. Að þurfa að horfa á bíómynd sem ekki er vitað fyrirfram að sé skemmtileg þykir jaðra við brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og með tilkomu Facebook og Fox News er ekki hægt að segja að fullorðna fólkið sé mikið öðruvísi. Þegar algóriþminn er búinn að fatta hvað manni finnst um tónlist, pólitík, sóttvarnir og töskutísku þá spýr netið yfir mann stanslausum staðfestingum á því að maður hafi bæði rétt fyrir sér og frábæran smekk. Meira að segja fjölmiðlar sem hafa margra áratuga orðspor að verja sem óhlutdrægir og vandaðir, hrekjast stöðugt lengra í þá átt að færa lesendum og áhorfendum einungis staðfestingu á því sem þeim finnst fyrir. Það hlutverk að vera broddfluga í samfélaginu, ögra hugsun og skoðunum er álíka þakklátt nú til dags eins og að vera raunveruleg býfluga í bjórglasi—eða óvinsæll biti í Mackintosh dollu.

Sagan af Forrest Gump, lýsir vel hversu innihaldsríkt og spennandi lífið getur verið þegar maður sættir sig við að það er hlykkjótt og óútreiknanlegt. Tilveran er auðvitað langt frá því að vera sú beina, örugga og átakalausa vegferð sem samt er sífellt verið að halda að fólki að sé eftirsóknarvert. Samfélagið, fjölmiðlar og stjórnmál eru uppfull af alls konar umræðum sem gefa til kynna að best sé fyrir manneskjuna að skipuleggja líf sitt, forðast átök og áhættu, fara troðnu slóðirnar og það muni einhvern veginn leiða til árangursríks og hamingjusams lífs. Og nú er hægt að komast hjá vondum konfektmolum líka.

Hin leiðin er að þora að bíta í fleiri mola en bara þá sem maður veit fyrirfram að eru góðir. Stundum lendir maður á vondum bita sem maður skilar snyrtilega í servíettuna og vill ekki aftur. En það er aldrei að vita nema konfektmolinn sem maður dregur óvart upp úr kassanum reynist vera ómótstæðilegur. Og svo breytist líka smekkurinn og tískan. En það er ekki bara í konfektmolunum þar sem tilbreyting og fjölbreytni getur reynst vel. Til þess að þroskast þarf fólk líka að þora að hlusta vandlega á andstæðar skoðanir og endurmeta sínar eigin; jafnvel skipta þeim út fyrir skynsamlegri skoðanir. Það er allt gott og blessað, en gríðargögnin og gervigreindin eru fyrir löngu búin að fatta að okkur líður flestum langbest þegar við erum í skjóli frá gagnstæðum skoðunum og keppumst bara við að klappa fyrir gáfum og góðmennsku þeirra sem eru hvort sem er algjörlega sammála manni í einu og öllu.

Og nú er líka hægt að komast hjá því að smakka nýja konfektmola. Í Forrest Gump 2 væri því hægt að segja: „Lífið sjálft er eins og konfektkassi, þar sem allir molarnir eru nákvæmlega eins, gæðin tryggð og ekkert óþægilegt eða erfitt kemur upp á.“ En ég leyfi mér að efast um að sú mynd yrði sérlega skemmtileg.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.