Hver á að ráða hvern skal ráða?

Fréttir af áliti Umboðsmanns Alþingis á ráðningu í stöðu ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu hafa verið fyrirferðarmiklar undanfarna daga. Umboðsmaður var ekki sannfærður um rökstuðning ráðherra – en hversu langt má ganga á rétt ráðherra til að beita eigin dómgreind við val á nánum samstarfsmönnum?

Í nýju starfi sínu á einkamarkaði getur Árni ráðið sér fólk til starfa án þess að þurfa að standa í margra mánaða bréfaskriftum við Umboðsmann Alþingis.

Fyrsta frétt flestra fjölmiðla einn daginn í vikunni var að umboðsmaður Alþingis hafi ekki látið sannfærast fullkomlega af rökstuðningi félagsmálaráðherra fyrir vali sínu á nýjum ráðuneytisstjóra. Látið var sem svo í fjölmiðlum að Umboðsmaður hefði verið einkar harðorður í áliti sínu og enn einn „áfellisdómurinn“ hefði fallið á stjórnvöld.

Við lestur álits umboðsmanns Alþingis kemur fram að hann var ekki sannfærður um þá röksemdarfærslu sem félagsmálaráðherra gaf fyrir ákvörðun sinni. Það sem hins vegar skín sterkast í gegn við lesturinn er hversu ótrúlega miklar formkröfur Umboðsmaður telur eðlilegt að gera til þeirra sem ráða í embætti á vegum hins opinbera. Svo virðist sem að hann geri ráð fyrir að hægt sé að leggja hlutlægar mælistikur á alla mannkosti og leggja svo einfaldlega saman gildin og komast þannig að því hver sé hæfastur – svona eins og hægt er að leggja saman stigin sem menn fá í hverri grein tugþrautar og komast þannig að því hver sé bestur.

Öllum sem einhvern tímann hafa átt samskipti við annað fólk er þó líklega ljóst að engin leið er til þess að fella dóma um hæfni eða samstarfshæfni fólks á grundvelli ópersónulegra gagna. Fólk er sem betur fer flóknara en svo að hægt sé að nota tölfræðilega skyggnilýsingu til þess að taka endanlega afstöðu til þess. Í slíkum heimi, þar sem innsæi og einstaklingsbundnu mati væri vísað á dyr – og allar ákvarðanir teknar út frá fyrirframgefnum mælistikum, væri vitaskuld engin sérstök þörf á lýðræði, frjálsum markaði eða öðru þvi sem þvælist fyrir hinni optímalísku verkfræðilegu lausn á gátunni um hvernig skapa skuli hið besta samfélag af öllum samfélögum. Reynslan sögunnar segir okkur hins vegar að slíkar hugmyndir, allt frá frummyndakenningu Platóns og til kommúnisma 20. aldar, eru tálsýnir – og þótt mönnunum líði gjarnan vel þegar þeir trúa því að allt sé í röð og reglu þá komast flestir að því að Ríkið hans Platóns er ekki eftirsóknarverður heimur.

Ráðningar í störf á vinnumarkaði lúta sjaldnast áþekkum reglum og rökstuðningi og Umboðsmaður gerir kröfu um hjá hinu opinbera. Að hluta til er eðlilegt að munur sé þarna á – en þó hlýtur að vera óhætt að gera ráð fyrir því að ráðningar hjá einkaaðilum séu í ferli sem vinnuveitendur telji sæmilega vel lukkaðan. Og hjá einkaaðilum eru það einmitt huglægir mannkostir sem ráða meiru um ráðningu heldur en samanburður á ferilskrám eða einkunnum úr skóla.

Eða hvernig er þetta í fótboltanum? Í flestum stórliðum sitja á varamannabekk nokkkrir stórfenglegir framherjar sem eru betri alhliða leikmenn en miðverðirnir sem fá að spila hvern leik. Hins vegar tekur þjálfarinn ákvarðanir um hvaða þarfir hann telur liðið hafa hverju sinni og stundum er betra að setja stirðbusalegan fauta á miðjuna sem getur fátt annað en stuggað hressilega við andstæðingnum á meðan léttleikandi undrabarn er límt við tréverkið. Er einhver málefnleg sanngirni í því?

Vitaskuld er eðlilegt að gerðar séu ríkari kröfur til mannaráðninga hins opinbera og eðlilegt að rökstuðningur sé fyrir slíkum ákvörðunum. Það þýðir hins vegar ekki að ekkert tillit megi taka til persónulegs og huglægs mats þess sem veitir embættið. Meðal þess sem litið var til í mati félagsmálaráðherra á umsækjendum var að hversu miklu leyti umsækjendur væru líklegir til að sýna af sér forystuhæfileika. Um þetta segir Umboðsmaður Alþingis:

„Ég tel hins vegar að framangreind ummæli sem höfð eru eftir félagsmálaráðherra séu til marks um það hversu huglægt mat veitingarvaldshafans á efni og framgöngu umsækjenda í viðtali getur orðið og að gæta verði varfærni í að veita slíkum sjónarmiðum afgerandi vægi andspænis þeim opinberu hagsmunum sem ráðning í starf hjá hinu opinbera á að þjóna.“

Með þessum röksemdum vill Umboðsmaður í raun gera ráðherra ókleift að hafa sem mælikvarða þann þátt sem víðast hvar annnars staðar í samfélaginu ræður úrslitum þegar ráða þarf mann til þess að gegna forystustarfi. Óhjákvæmilegt er að ráðherra myndi sér persónulegar skoðanir á fólki sem hann hittir í starfsviðtali eða þekkir af fyrri reynslu. Spyrja má hvort það sé óeðlilegt að ráðherra taki tillit til þeirra þátta þegar hann velur sér einn nánasta samstarfsmann sinn í ráðuneyti sínu. Er líklegt að það sé ráðuneyti til heilla ef ráðherra og ráðuneytisstjóri eru ósammála í grundvallaratriðum eða geti ekki starfað saman þar sem þeim gengur illa að lynda saman? Og er þá ekki ósköp eðlilegt – og í þágu heildarhagsmuna – að valinn sé til starfa annar maður?

Staðreyndin er auðvitað sú að allir hafa nokkuð til síns ágætis og það er hlutverk stjórnenda, kjörinna eða ráðinna, að velja fólk til starfa sem hentar hverju sinni og ómögulegt er að stinga mannkostum fólks inn í formúlu til að komast að réttri niðurstöðu. Þegar um er að ræða einn nánasta samstarfsmann ráðherra, manneskju sem þarf að framfylgja pólitískum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar, þá hlýtur það sjónarmið að koma til álita að ráðningin eigi sér stað algjörlega á pólitískum forsendum – og að viðkomandi hafi þá sama starfsöryggi og ráðherrann sjálfur.

Árni Magnússon valdi þá manneskju til starfa sem honum leist best á til að gegna valdamiklu embætti í ráðuneyti sínu. Væri það ekki í raun heimskulegra fyrirkomulag ef ráðherrar væru neyddir til þess að velja frekar fólk sem þeim líst illa á? Eða er það ekki lágmarkskrafa til stjórnmálamanna í ábyrgðarstöðum að þeir beiti eigin dómgreind? Eða finnst okkur eðlilegra að ráðherrar framselji þá dómgreind sína til annarra? Væri þá ekki einfaldlega best að láta Umboðsmann velja embættismenn ríkisins beint – eða skipa til þess nefnd – til dæmis með fulltrúum frá hugvísindadeild Háskóla Íslands, Alþýðusambandinu, Borgarfræðasetri, Reykjavíkurakademíunni og öðrum fullkomlega óháðum, málefnalegum og faglegum stofnunum í samfélaginu, stofnunum sem vita hvernig samfélagið á í raun að vera? – en eru of fínar til þess að afla sér lýðræðislegs umboðs til að koma breytingum sínum í framkvæmd.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.