Samkynhneigðir í eina sæng á Spáni

Í síðustu viku voru Kanadamenn og Spánverjar þriðja og fjórða ríkið í heiminum til að samþykkja lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra. Enn er langt í land að Íslendingar séu til fyrirmyndar í málefnum samkynhneigðra þó að við séum framar flestum öðrum ríkjum.

Í síðustu viku samþykktu Kanadamenn að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra og urðu þar með þriðja ríkið til að samþykkja ráðahaginn á eftir Hollendingum og Belgum. Fjórða ríkið til að samþykkja lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra urðu svo Spánverjar þann 30. júní sl. Með lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra fá samkynhneigð hjón öll þau réttindi sem gagnkynhneigð hjón hafa þ.m.t. rétt til að ættleiða börn og erfðarétt. Forsætisráðherra Spánar, Jose Luis Rodriguez Zapatero, lét hafa eftir sér í kjölfar samþykkta frumvarpsins að þó að samkynhneigðir væru í minnihluta í landinu þá væri sigur þeirra sigur allra og að sigur þeirra gerði okkur öll betri, gerði samfélag okkar betra. Jafnframt sagði Zapatero: Við erum ekki að setja þessi lög fyrir eitthvað óskilgreint ónafngreint fólk. Þessi auknu réttindi verða til að efla hamingju nágranna okkar, vinnufélaga, vina okkar og fjölskyldumeðlima.

Þessi orð leiddu hugann að stöðu okkar íslensku nágranna, vinnufélaga, vina og fjölskyldumeðlima. Hvernig er staðan á Íslandi í dag og hvað þarf til að samkynhneigðir Íslendingar standi jafnfætis gagnkynhneigðum Íslendingum?

Við Íslendingar vorum framarlega á merinni í málefnum samkynhneigðra þegar við samþykktum lögum um staðfesta samvist árið 1996. Þá var líkt og pólitíkin segði: “Jæja, nú erum við búin að gera fínt fyrir samkynhneigða og við erum fyrirmynd annarra þjóða. Nú þurfum við ekki að hugsa meira um það.” En nú 9 árum síðar höfum við dregist aftur úr og það þýðir ekki að þó að við höfum verið til fyrirmyndar fyrir 9 árum síðan að við séum fyrirmyndarþjóð í málefnum samkynhneigðra. Samkynhneigðir hafa ekki rétt til að ganga í hjónaband, vera í óvígðri sambúð, ættleiða barn né gangast undir tæknifrjóvgun.

En hvað stendur í vegi fyrir þessum breytingum? Framtaksleysi stjórnmálamanna. Haustið 2004 lauk nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra á vegum þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, störfum og lagði hún til m.a. að sett verði í lög bann við mismunun samkynhneigðra á vinnumarkaði. Hún lagði einnig til að samkynhneigðir, rétt eins og gagnkynhneigðir, gætu skráð sig í sambúð og þar með fengið sömu réttindi og gagnkynhneigðir í sambúð njóta. Einnig vildi nefndin afnema þá mismunun í hjúskaparlöggjöfinni að einungis borgarlegir vígslumenn gætu gefið samkynhneigða í staðfesta samvist. En þá þyrfti reyndar kirkjan að breyta afstöðu sinni til hjónabanda samkynnhneigðra.

Nefndin var sammála um að leyfa frumættleiðingar samkynhneigðra á íslenskum börnum. Nefndin klofnaði þó í afstöðu sinni um ættleiðingar samkynhneigðra á börnum erlendis frá og rétti lesbía að gangast undir tæknifrjóvgun. Þeir nefndarmenn sem voru á móti tæknifrjóvgun samkynhenigðra báru það fyrir sig að þegar um gjafasæði væri að ræða myndu börnin ekki þekkja uppruna sinn. En börn gagnkynhneigðra foreldra sem hafa fengið gjafasæði þekkja ekki faðerni sitt þannig að þessi ástæða er einungis fyrirsláttur í þeim nefndarmönnum sem voru á móti tæknifrjóvgun samkynhneigðra.

En nú er kominn tími til að hætta að ræða um hvað betur megi fara í réttindum samkynhneigðra og hefja aðgerðir. Aðgerðir sem ganga alla leið og gefa samkynhneigðum sömu réttindi og gagnkynhneigðir. Rannsóknir sýna að enginn marktækur munur sé á gagnkynhneigðum og samkynhneigðum sem uppalendum og reynsla Svía af fullum ættleiðingarrétti samkynhneigðra þar í landi er góð. Enginn erlend ríki hafa séð ástæðu til þess að útiloka samstarf um ættleiðingar við Svíþjóð til gagnkynhneigðra þrátt fyrir fullan ættleiðingarrétt samkynhneigðra í Svíþjóð. Við Íslendingar eigum að sýna áframhaldandi gott fordæmi og ganga alla leið og viðurkenna þau réttindi sem samkynhneigðir eiga líkt og gagnkynhneigðir.

Latest posts by Rúna Malmquist (see all)