Framsóknarmenn vilja ýta á „snooze”

Í ágætum pistli hér á Deiglunni síðastliðin föstudag var bent á það hvernig „snooze” takkinn er einkennandi fyrir margt í okkar þjóðfélagi. Þegar erfið mál koma upp er þeim oftar en ekki slegið á frest eins og maður slær því gjarnan á frest að vakna þegar maður ýtir á snooze takkann.

Í ágætum pistli hér á Deiglunni síðastliðin föstudag var bent á það hvernig „snooze” takkinn er einkennandi fyrir margt í okkar þjóðfélagi. Þegar erfið mál koma upp er þeim oftar en ekki slegið á frest eins og maður slær því gjarnan á frest að vakna þegar maður ýtir á snooze takkann.

Að öðrum ólöstuðum þá held ég að ég megi fullyrða að framsóknarmenn hafi náð allra manna lengst í þessari iðju. Og nú er enn eitt slíkt málið komið upp. Nú vilja þingmenn Framsóknarflokksins fresta því að setja kvóta á veiðar smábáta á ýsu, steinbít og ufsa. Rökin fyrir frestuninni eru að endurskoðun á lögum um veiðar smábáta utan kvóta eigi að haldast í hendur við heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Þessi rök eru náttúrulega ekkert annað en yfirskin. Svei mér þá ef rökin sem ég nota til þess að sannfæra sjálfan mig um að skynsamlegt sé að ýta á snooze á morgnana séu ekki innihaldsríkari en þessi rök framsóknarmanna.

Það er auðvitað forkastanlegt að ákveðinn hópur báta megi veiða utan kvóta tegundir sem aðrir þurfa að kaupa sér kvóta til þess að mega veiða. Í þessu felst argasta mismunun. Og þar að auki grefur slíkt undan kvótakerfinu í heild. Sérákvæði um veiðar smábáta voru settar í inn á tímum þegar veiðar smábáta voru óverulegar. Síðan þá hafa slíkar veiðar mjög færst í vöxt. Í dag er einfaldlega engan vegin hægt að horfa fram hjá áhrifum þeirra á fiskveiðistjórnunarkerfið í heild.

Auðvitað skilur maður að það er erfitt fyrir stjórnmálamenn að setja lög af þessu tagi. Allir vilja gera vel við trillukarla. En ég vil minna stjórnmálamenn á það að ef þessu máli er slegið á frest eru þeir í raun að þókknast sérhagsmunahópi á kostnað þjóðarinnar. Þessi staðreynd bítur reyndar væntanlega ekki á framsóknarmenn þar sem tilvist þeirra er sífellt undir því komin að þeir taki þrönga hagsmuni sérhagsmunahópa fram fyrir hagsmuni þjóðarinnar. En þingmenn Sjálfstæðisflokksins skyldu vara sig á því að láta undan þrýstingi framsóknarmanna hvað þetta varðar.

Hagsmunagæslumenn smábáta halda því í sífellu fram að lög af þessu tagi þýði stórfellt byggðahrun. Slíkt er byggt á þeirri forsendu að smábátar séu miklu mun óhagkvæmari einingar þegar kemur að sjósókn en stærri skip. Ég veit ekki til þess að sýnt hafi verið fram á að þetta eigi við rök að styðjast. Er ekki allt eins líklegt að smábátar muni geta staðist samkeppnina við stærri skipin þegar þeir eru farin að keppast við þau á jafnréttisgrundvelli, a.m.k. ef nauðsynlegar lagfæringar verða gerðar á kvótamarkaði þannig að verðið á kvóta endurspegli betur raunverulegt virði hans? Á hinn bóginn, ef þetta er rétt, þ.e. ef það er rétt að kvóti á smábáta muni leiða til hruns í sjósókn smábáta, þá hlýtur maður að spyrja sig hvort það sé réttlætanlegt að sjósókn slíkra báta sé haldið á floti með dulbúnum niðurgreiðslum núverandi kerfis.

Í fyrra ýtti ríkisstjórnin á snooze í þessu máli. Nú er komið að því að vakna.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.