17. júní

17. júníÍ dag er því fagnað á Íslandi að fyrir 59 árum varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Dagurinn sem valinn var til hátíðarhaldanna er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar sem oft er kallaður frelsishetja Íslendinga. Nú í byrjun 21. aldarinnar er viðhorf fólks til þjóðernis og fullveldis ríkja breytt frá því sem áður var.

17. júníTil eru margar og mismunandi skilgreiningar á því hvað hugtakið þjóð merkir. Einhvers konar tilfinning um sameiginlega menningu, tungumál og erfðafræðilega einsleitni hafa þó löngum verið meðal þess sem mannkynið hefur notað til þess að hólfa sig niður á bása og skipta sér upp í þjóðir.

Út frá erfðafræðinni má sjá að líffræðilegur munur á hinum ólíkustu þjóðum er sama og enginn. Hins vegar hefur ólík menning og viðhorf þróast, oftast nær vegna þeirra ytri aðstæðna sem einstaklingarnir hafa búið við. Að sama skapi kennir sagan okkur að þeim þjóðum. sem eru opnastar fyrir viðskiptum og öðrum samskiptum við aðrar þjóðir, vegnar betur en þeim sem byggja þjóðerniskennd sína á tortryggni gagnvart útlendingum.

Segja má að hið stóra stökk í siðvæðingu mannkyns sé að við séum smám saman að þróast af því frumstæða stigi að telja að allir þeir sem ekki tilheyra okkar eigin þjóð eða fjölskyldu séu hugsanlegir óvinir. Á þeim tímum þegar mannkynið vafraði um jörðina í safnara- og veiðimannahópum var vitað að þegar tveir hópar mættust endaði það með því að karlmenn annarrar fjölskyldunar myrtu karlmenn og börn hinnar og tóku sér eiginkonur þeirra. Þetta er í raun sama hegðun og hægt er að sjá í dýralífsmyndum um t.d. ljón.

Sem betur fer hefur mannkynið tekið miklum framförum frá þessum dögum og í dag þykir það víðast hvar óheilbrigt viðhorf að telja einhverjar þjóðir eða kynstofna óæðri öðrum. Rétt eins og sú skoðun að jörðin sé flöt er ekki lengur talin viðurkennd.

Hins vegar eru í flestum okkar ennþá þræðir sem tengja okkur við þá tíma þegar mannkynið hafði svipaðan félagslegan þroska og villt ljón. Enn eru til smásálir sem sækja sér huggun í þjóðernisstolt og lifa í þeirri trú að þeir séu á einhvern hátt fremri öðrum vegna þess að húðin þeirra er öðruvísi á litinn eða að þeir tali annað tungumál. Smásálir af svipuðum toga ala á því að ekki sé hægt að treysta útlendingum og að í útlöndum sé til fólk sem vilji þjóðinni allt illt.

Óvönduðum mönnum tekst gjarnan að höfða til óöryggis smásálanna með því að byggja málflutning sinn á þeim forna þræði þjóðernishyggju sem unnið hefur mannkyninu svo mikinn miska í gegnum söguna. Það er auðveld leið til þess að höfða til þeirrar tilhneigingar mannsins að vilja firra sig ábyrgð á eigin lífi og varpa sökinni á “illviljað og öðruvísi” fólk.

Á 17. júní blossar þjóðernsikenndin upp á Íslandi og fólk fyllist stolti yfir þjóðerni sínu og uppruna. Þrátt fyrir að dagurinn bjóði upp á skemmtileg hátíðarhöld og áhugaverð mannamót ætti hugsandi fólk ekki að gleyma því að þrátt fyrir allt höfum við sem einstaklingar ekkert til þess unnið að njóta þeirrar miklu gæfu að hafa fæðst í samfélagi þar sem friður og velsæld ríkir. Í stað þess að fyllast stolti yfir þjóðerni sínu er eðlilegra að við fyllumst þakklæti fyrir það glópalán sem forlögin blessuðu okkur með þegar þau ákváðu að við skyldum fæðast inn í einmitt þetta góða samfélag.

Lesendum óska ég gleðilegs þjóðhátíðardags.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.