Það er dýrt að vera Íslendingur

„Ísland er lítil og harðbýl eyja“ heyrði ég eitt sinn sagt á pólitískum vettvangi. Samt furðar fólk sig æ ofan í æ hve vörur og þjónusta kosta mikið hér. Þótt við þurfum ekki á svartsýnisrausi að halda er lágmarkskrafa að fólk reyni að átta sig á raunveruleikanum.

Á sama hátt og sumir virðast halda að sú þjónusta sem ríkið veitir sé ókeypis eru alltaf einhverjir sem skilja ekki hvers vegna vörur og þjónusta einkaaðila er yfirleitt dýrari hér en í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu.

Fyrir þessu eru einkum þrjár ástæður. Í fyrsta lagi er sums staðar um að kenna tollum og öðrum innflutningshöftum ríkisvaldsins. Undanfarið hafa tollar á grænmeti verið mest í umræðunni.

Í öðru lagi er um að kenna hærri flutningskostnaði vegna þess hve langt Ísland er frá helstu markaðssvæðum heimsins. Það er ljóst að heildsalar og smásalar hvorki geta né vilja taka á sig allan þennan kostnað og því leggst hann við útsöluverðið.

Þriðja aðalástæðan er hve fá við erum. Í 270.000 manna þéttbýliskjörnum erlendis er á mörkunum að mönnum finnist taka því að reka eitt kvikmyndahús. Það er því augljóst að það er erfiðara að reka fyrirtæki á svöna litlum markaði.

Það eina af þessu sem við getum haft einhver veruleg áhrif á er fyrsti liðurinn. Við getum þrýst á yfirvöld að lækka eða afnema tolla. Það er fullkomlega órökrétt að hinn almenni neytandi þurfi að súpa af því seyðið þegar einhverjum dettur í hug að rækta paprikur hér á Íslandi. Hvað ætli fólki fyndist um það ef ég færi að smíða bíla og ríkið leggði tolla á innflutta bíla til að neyða fólk til að kaupa mína bíla?

Varðandi hina tvo þættina getum við litlu breytt. Það er og verður dýrara að lifa hér en á helstu markaðssvæðum í Evrópu og Bandaríkjunum á sama hátt og í erlendum stórborgum. Ef þið viljið ekki greiða aukalega fyrir að búa á Íslandi er best að fara bara eitthvert annað.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)