Deiglan á páskum 2011

Í páskahugvekju fjallar Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson um viðleitni Evrópumanna til að byggja betra samfélag upp úr rústum síðari heimsstyrjaldar og þá eilífu von sem boðskapur páskanna ber með sér.

Þegar seinni heimstyrjöldinni lauk var Evrópa í rúst. Eyðilegginginn var óskapleg og tugir miljóna manna höfðu látið lífið. Hörmungar, óvissa og hungur var hlutskipti þeirra sem lifðu stríðið af.

Styrjöldin hafði verið einn samfeldur föstudagurinn langi og árin á undan voru píslarsaga mannkynsins eina ferðina enn þar sem við sjáum allt það versta í mannlegu eðli. Samningar voru sviknir, ruddar í pólitísku lífi gengu fram með lýðskrumi og sá sem var sterkari níddist á þeim sem var veikari.

En það sorglegasta var að meirihluti fólks sem var vel meinandi og hugsandi það sat með hendur í skauti og hafðist ekki að. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það var óþægilegt og gat komið fólki í vandræði. Þá var betra að fylgja straumnum. Myrkraöflin kunna sitt fag.

En tíminn nemur ekki staðar. Um það fjalla páskarnir. Þeir fjalla um hugrekkið og vonina. Umfram allt vonina sem sem gefur okkur þrek til að halda áfram þó syrti í álinn. Gefur okkur styrk til að andæfa og vona það besta.

Fólk í Evrópu gafst ekki upp. Eftir stríð vildi það byggja upp heilbrigt samfélag úr rústum seinni heimstyrjaldar og fræðimenn lögðu saman krafta sína og gáfu út yfirlýsingu um hvert ætti að stefna, hvernig stjórnvöld ættu að vinna – að mannréttindum, – betra samfélagi og friði i Evrópu.

Þessir vísu og velþenkjandi menn sögðu að stjórnvöld ættu að haga allri lagasetningu þannig að þau ynnu gegn fordómum, gegn óréttlæti, mismunun, fáfræði og fátækt.

Öll lagasetning í þjóðþingum ætti að vinna að því að upplýsa, bæta og leggja áherslu á að allir væru jafnir fyrir lögunum, löggjafinn ætti með starfi sínu að draga úr mismunun, jafna kjör fólks- auka menntun og treysta atvinnu og sjálfshjálp.

Menn sáu í hyllingum að upp úr rústum Evrópu kæmi heilbrigðara og mannvænna samfélag þar sem lögð væri áhersla á frelsi, frið, jafnrétti og réttlæti.

Þau góðu áform sem gott fólk lagði upp með eftir heimstyrjöldina hafa í sumu gengið eftir. En við erum alltaf á leiðinni og ekki dugar að gefast upp þó bakslag komi í seglinn. Það er guði þóknanlegt og það er í anda Jesú Krists að vinna að betra og fegurra mannlífi.

Það eru margir sem eiga sína persónulegu píslarsögu. Fólk, sem að brotið er á og finnst það svikið – fólk sem verður fyrir óréttlæti og vonirnar bregðast. Fólk sem verður fyrir ofbeldi og fordómum. Þannig er lífið oft langur og erfiður föstudagur.

Páskarnir eiga alveg sérstaklega erindi við fólk sem er statt á þeim degi. Páskarnir eiga sérstaklega erindi við fólk sem er uppgefið á sál og líkama.

Þegar Jesús var svikinn og handtekinn þá yfirgáfu lærisveinarnir hann allir með tölu og Pétur afneitaði meistara sínum þrisvar.

Eftir að Jesús hafði verið krossfestur var myrkur í huga vina hans og vonirnar rústir einar. Þeir földu sig á bak við luktar dyr af ótta við það sem biði þeirra fyrir utan. Þeir sáu enga glætu í því sem hafði gerst. Þetta stórkostlega ævintýri hafði ekki endað vel.

Við þekkjum síðan hvað gerðist. Þeir sem áður voru hvekktir og niðurbrotnir og hræddir fengu kjark, áræði og gleði til að ganga út á stræti og torg með með það erindi að Jesús lifir.

Hvernig það má vera er leyndardómur en við vitum að Jesús lifir í huga, hjarta og höndum allra þeirra sem játa trú á Jesú og vilja ganga erinda hans í lífinu.

Það er erindið sem lifir. Boðskapurinn um frið og frelsi og nægtir handa öllum og virðing fyrir fólki og lífinu. Að elska Guð og elska náungann.

Þegar myrkrið hellist yfir okkur er mikilvægt að sjá lengra og missa ekki vonina.

Stundum getur okkur liðið þannig að okkur finnst lífið vera í rúst. En boðskapur páskana er í grunninn sá að hið góða muni sigra – að ljósið sigri myrkrið. Að úr sprekum og rústum er mögulegt að byggja upp á ný og halda áfram. Stundum gegn öllum líkum.

Páskarnir eru vitnisburður um að lífið er sterkara en dauðinn.

Guð gefi okkur öllum og fólkinu okkar gleðilega páska.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)