Afsökun fyrir eyðslusemi

Lögbundið lágmarks útvars er ekki bara furðulegt inngrip í sjálfdæmi sveitarfélaga um eigin mál heldur dregur það mjög úr ábyrgð sveitarstjórnarmanna og svigrúmi þeirra til þess að bjóða upp á sem hagkvæmasta þjónustu. Það eru því mjög góð rök fyrir því að afnema lágmarksútsvarið, þótt lögbundið hámark útsvars eigi fullkomlega rétt á sér.

Í morgun mælti Erla Ósk Ásgeirsdóttir fyrir frumvarpi um afnám lágmarksútsvars. Erla Ósk flytur frumvarið ásamt fjórum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, en allir eru flutningsmennirnir þekktir baráttumenn fyrirlægri sköttum og aukinni ráðdeild og skynsemi í opinberum rekstri. Frumvarp þeirra er sáraeinfalt og ætti þingmönnum ekki að verða skotaskuld úr því að taka afstöðu til þess.

Þingmenn þeir, sem til máls tóku um frumvarp Erlu Óskar í morgun, nálguðust málið flestir á nokkuð sérstakan hátt. Í stað þess að líta til þess einfalda rökstuðnings sem færður er fyrir breytingunni í greinargerð kusu þeir frekar að nálgast málið út frá núverandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Þeir töldu að eins og málum sé nú háttað sé ólíklegt að mörg sveitarfélög hafi hug á því að lækka útsvar sitt niður fyrir lögbundið lágmark – þvert á móti gætu þeir trúað að sveitarfélögin vilji frekar hækka skatta umfram hámarkið. Töldu þeir því eðlilegt að velta fyrir sér því hvort ekki ætti einnig að afnema hámarksútvar.

Í tilefni þessar hugmynda er við hæfi að velta fyrir sér hvernig á því standi að nánast alls staðar á landinu berjist sveitarfélög í bökkum og eyði langt um efni fram. Að hluta til stafar þetta af því að verkefnum sveitarfélaga hefur fjölgað mjög á undanförnum árum en þar með er ekki öll sagan sögð. Staðreyndin er nefnilega sú að sveitarstjórnmál á Íslandi snúast nánast alfarið um yfirboð í þjónustu og hugmyndaauðgi í millifærslum kostnaðar frá notendum til skattgreiðenda. Þetta er þróun sem er mjög eðlileg – sérstaklega í því ljósi að sveitarstjórnarmenn hafa nánast ekkert svigrúm til þess að bjóða upp á þann valkost við útgjaldafylleríinu að lækka einfaldlega skatta á íbúana. Þegar sveitarstjórnarmenn geta ekki boðið kjósendum upp á að lækka skatta þá verða þeir einfaldlega að yfibjóða í þjónustu. Það er tímabært að löggjafinn geri sitt til þess að lagfæra þennan brenglaða veruleika sem sveitarstjórnarmenn búa við.

En burtséð frá ástæðum þess að sveitarfélagsanginn af hinum opinbera rekstri sé í stjórnlausum vexti – og því knýji sveitarfélög á rétt til hærri skattheimtu fremur en lægri – þá er eðlilegt að skoða ástæður þess að rökfræðilega gildir allt annað um hámarksútsvar heldur en lágmarksútsvar.

Fyrst ber að telja þau lagalegu rök að samkvæmt stjórnarskránni er ekki heimilt að leggja á skatta nema með lögum. Það væri, með öðrum orðum, óeðlilegt að löggjafinn hefði ekki ákveðin hemil á þeim íþyngjandi kvöðum sem sveitarfélögum er heimilt að leggja á íbúa sína. Um lágmark gildir þetta ekki, enda getur það tæpast talist vera íþyngjandi aðgerð að hálfu sveitarfélags að draga úr skattheimtu.

Önnur rök sem gæta má að felast í því fyrirkomulagi sem nú er í skattamálum að ríkissjóður bætir sveitarfélögum upp þær skatttekjur sem þau verða af vegna persónuafsláttar. Þetta þýðir að jafnvel þótt launþegi greiði ekki staðgreiðslu af öllum tekjum sínum þá fær sveitarfélagið greiddan skatt af hverri krónu. Mismunurinn er greiddur úr ríkissjóði. Hækkun útsvars, að óbreyttum persónuafslátti, hefur því í för með sér útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð og þess vegna er við núverandi fyrirkomulag eðlilegt að löggjafinn setji ákveðið hámark á útsvarsprósentu.

Af þessum rökum, þar sem hin fyrri vega miklum mun þyngra, má ljóst vera að alls ekki hið sama gildir um afnám lágmarksútsvars og hámarksútsvars. Að binda í lög lágmarksálögur sem sveitarfélagi er heimilt að leggja á borgarana sína er í raun fráleit hugmynd. Hún vegur að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og hvetur óþarfra útgjalda – þetta ákvæði getur því í raun verið ágætis afsökun fyrir eyðslusama sveitarstjórnarmenn. Og miðað við stöðuna í fjármálum sveitarfélaga ætti flestum að vera kappsmál að fjarlægja þessa afsökun.

Það er tímabært að Alþingi afnemi hana úr lögum. Málið er ekki flóknara heldur en þau örfáu orð sem lagafrumvarpið sjálft segir til um.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.