Pomperipossa áhrifin

Í leiðara dagsins er rifjuð upp rúmlega þrjátíu ára gömul dæmisaga frá Svíþjóð sem dæmi þess hvernig ber ekki að standa að skattlagningu.

Í marsmánuði árið 1976 birtist grein í sænska dagblaðinu Expressen. Greinin sem var satýra bar heitið Pomperipossa in Monismania. Hún fjallaði um rithöfundinn Pomperipossu sem skrifaði bækur fyrir börn og bjó í landinu Monismaniu. Pomperipossa unni landi sínu, samlöndum sínum og einnig þeim ráðhollu mönnum sem stjórnuðu landinu. Þess vegna studdi hún þegar kom til kosninga. Hún dáði stjórnarfarið og þar sem hún taldi að enginn þyrfti að vera fátækur og öllum væri tryggð sneið af félagslegri öryggiskökunni greiddi hún skatta sína með glöðu geði. En í landinu var skattkerfið þannig að jaðarskattaáhrifa gætti nokkuð. Rithöfundurinn reiknaði út hvað hún þyrfti að greiða í skatt af tekjum sínum. Tekjurnar yfir tímabilið voru tvær milljónir. Hún komst að þeirri niðurstöðu að hún þyrfti að greiða 1.995.000 í skatt. Fyrst hélt hún að þetta væru mistök-hún hefði aldrei verið sterk í reikingi. Síðar kom í ljós að hún hefði reiknað skakkt og að þyrfti 102% skatt. Í stað þess að eiga eftir fimm þúsund skuldaði hún skattinum tuttugu þúsund, þegar allar tekjur ársins hefðu verið greiddar í skatta.

Höfundur greinarinnar var Astrid Lindgren. Sagan var ekki aðeins dæmisaga, heldur byggð á álagningu höfundarins sem gert hafði verið að greiða 102% skatta af tekjum sínum í Svíþjóð. Astrid Lindgren, sem þá var orðinn virtur barnabókahöfundur, hafði ekki fram að þessu blandað sér í umræðu um samfélagsmál eða stjórnmál og hafði aldrei kvartað undan hárri skattprósentu, sem lögð var á hátekjufólk í Svíþjóð. Aðeins hafði verið haft eftir henni að hún greiddi skatta sína með glöðu geði. En þegar yfirvöld tóku meira af henni en hún hafði í tekjur, var henni nóg boðið og skrifaði satýru.

Í kjölfarið hófst hörð umræða í Svíþjóð um skattkerfið, tilgang þess og jaðarskattaáhrif. Umræðan er talin síðarmeir hafa meðal annars haft þau áhrif að sósíaldemókratar sem setið höfðu óslitið í 40 ár í ríkisstjórn, töpuðu kosningum í kjölfarið. Áhrif greinar Lindgren, hafði þau áhrif, að síðar er farið að tala um pomperipossa áhrif til þess að lýsa slíkum jaðarskattaáhrifum.

Umræða skapaðist í ríkisþinginu sænska um grein Lindgren. Fjármálaráðherrann þáverandi, Gunnar Sträng, vísaði þessu harðlega til föðurhúsana og taldi að saga rithöfunadarins hefði verið ritað af mikilli íþrótt, en jafn framt af mikilli vanþekkingu á regluverki og framkvæmd sænskra skattayfirvalda, enda væri ekki hægt að ætlast til þess af barnabókahföundi að hann skildi slíkt.

Lindgren svaraði hins vegar fjármálaráðherranum á þann veg að hann virtist ekki vera betri í reikningi heldur en hún. Þær tölur, sem hann segði að hún hefði ranglega reiknað saman, væru þá á grundvelli reikningsskekkju skattayfirvalda, þar sem Lindgren hafði tölur sínar frá þeim. Síðar var haft eftir Lindgren að Sträng hefði talið að hún væri góð í að segja sögur, en léleg í reikningi. Í ljós hefði hins vegar komið að hann hefði verið ágætur sögumaður, en lélegur í reikningi. Ef til vill hefðu þau átt að skipta um starf bæði tvö.

Olof Palme, leiðtogi sósíaldemókrata, viðurkenndi síðar að mistök hefðu verið gerð, og Lindgren hefði haft rétt fyrir sér, og ekki aðeins það, heldur yrði skattareglum breytt í kjölfarið.

Í aðdraganda kosningabaráttu vegna kosninga til Alþingis í vor, hafa heyrst raddir um að breyta þurfi íslensku skattkerfi, og að hækka beri ákveðnar tegundir skatta.

Markmið hvers skattkerfis á að vera að það sé einfalt, fyrirsjáanlegt og sanngjarnt.

Er því ekki úr vegi að rifja upp fyrir breytingaglaða frambjóðendur rúmlega þrjátíu ára gamla dæmisögu frá Svíþjóð sem rakin hefur verið að ofan sem dæmi þess hvernig ber ekki að standa að skattlagningu.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.