Blogg eða ekki blogg

Undanfarið hefur verið gríðarleg umræða um blog og ekki blogg, eftir að Egill Helgason skrifaði að hann væri ekki bloggari, þar sem hann byrjaði að skrifa áður en bloggið varð til. Það er því rétt að velta því aðeins fyrir sér hvenær bloggið varð til.

Egill Helgason kom af stað ótrúlega mikilli umræðu um blogg og ekki blogg eftir að hann skrifaði grein undir fyrirsögninni “Ekki blogg”. Þar byrjar hann á að fullyrða að hann sé ekki bloggari, þar sem sögu hans á internetinu má rekja til 1. febrúar árið 2000. Egill fullyrðir að þetta sé 5 árum áður en bloggið var fundið upp.

Hérna var auðvitað komið nokkurt vandamál í mínum huga, fyrir utan að ég hef bloggað með hléum frá árinu 1998, þá er Egill einn af mínum uppáhalds bloggurum. Það er í raun erfitt að sjá hvernig jafn klár maður og Egill hefur ekki tekið eftir bloggi fyrr en áratug eftir að það var fundið upp!

Samkvæmt wikipedia var hugtakið blogg fundið upp árið 1994, hins vegar stunduðu menn að setja hugsanir sínar á netið eða halda netdagbækur á undan því. En hugtakið á hins vegar rætur sínar að rekja til þessa tímabils.

Blogger.com, tólið sem flestir notuðu á upphafsárum bloggsins var fyrst settur á netið haustið 1999, en fyrstu Íslendingarnir byrjuðu að nota hann stuttu síðar. Bloggerinn var mjög fljótur að ná vinsældum hér heima, sérstaklega í Háskólanum þar sem tækni sinnaðir stúdentar höfðu skrifað á netið án þess að nota blogger.

Bæði fyrir og eftir þennan tíma voru ýmis tól í boði, en það má segja að það hafi ekki verið fyrr en með komu blogger.com að fólk hafi haft einfalt aðgengi til þess að blogga. Blogger var mjög einfaldur í virkni, og ekki þurfti mikla tæknikunnáttu til að koma upp bloggi.

Um sumarið 2000 var komið nokkuð gott vefsamfélag og var meira að segja haldið sérstakt bloggpartý. Bloggurum af tólinu nagportal.com (nu .net) var boðið heim til eins bloggara og málin voru rædd. Bloggerar sem höfðu deilt gerðu sögulegar sættir eins og má sjá hérna.

Í kjölfarið óx mjög hratt notkun bloggers og þurftu menn (sérstaklega í Háskólanum) svona nánast að taka það fram að þeir blogguðu ekki. Það er í raun mjög erftitt að átt sig á því hvernig þróunin hefur verið. Þó er alveg ljóst að það hafa verið búnir til tugir þúsunda blogga á Íslandi og þeim er en að fjölga. Það er ljóst að ótrúlega margir blogga á Íslandi, það kæmi því verulega á óvart ef Íslendingar væru ekki nálægt því að vera með heimsmet í fjölda blogga.

Um þessar mundir hefur verið gríðarlegur kraftur í innlenda blogginu, ekki síst með tilkomu hins svokallaða moggabloggs. Margir þjóðþekktir einstaklingar hafa tekið upp á því að blogga á meðan aðrir hafa ákveðið að sniðganga það algjörlega. Það getur vel verið að þetta sé að rugla menn í rýminu, en það er öruggt að aldrei áður hafa blogg verið lesin jafn mikið og nú. Stærstu bloggin væru á topp 10 vinsældarlistanum á teljari.is ef þau væru þar inni!

Menn velta fyrir sér hvort bloggið sé komið til að vera og hvort það komi til með að ryðja burtu hefðbundnum fjölmiðlum. Svarið við þessu er að við eigum alltaf eftir að sjá einhverskonar blogg, eins og menn halda dagbækur. Hins vegar mun þetta ekki hafa nokkur áhrif á hefbundna fjölmiðla, nema kannski að auðvelda að finna efni til að fylla síðurnar eða fréttatímann.

Undirritaður hefur undanfarið skrifað á moggabloggið, en í næsta pistli verður fjallað betur um vöxt og viðgang innan þess.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.