Norrænt velferðarkerfi fyrir Evrópu?

Svo virðist sem meginland Evrópu sé að kljást við viðvarandi erfiðleika, sérstaklega hvað varðar atvinnuleysi ungs fólks. En er norræna velferðarkerfið endilega besti kosturinn til að leysa slík vandamál?

Ég fór nýlega á fyrirlestur hjá ónafngreindum norskum prófessor þar sem hann talaði um kosti norræna velferðarkerfisins. Eyddi hann drjúgum tíma í að bera saman Bandaríkin og þjóðirnar í Norður-Evrópu. Ekki var laust við að hægt væri að greina stolt í þessum fyrirlestri yfir því að Evrópusambandið íhugaði að nota norræna kerfið sem fyrirmynd fyrir aðrar Evrópuþjóðir í baráttu sinni fyrir auknum hagvexti og minna atvinnuleysi.

Stoltið sem ég þóttist finna fyrir hjá prófessornum er algengt hjá þeim sem búa bæði í Skandinavíu og á Íslandi og ætla má að flestir íbúar þessara svæða séu nokkuð sáttir með núverandi stöðu mála í heimalöndum sínum, sérstaklega í samanburði við aðrar þjóðir.

Svo virðist sem meginland Evrópu sé að kljást við viðvarandi erfiðleika, sérstaklega hvað varðar atvinnuleysi ungs fólks. En er norræna velferðarkerfið endilega besti kosturinn til að leysa þessi vandamál?

Norræna velferðarkerfið byggist að miklu leyti á ákveðinni hugmyndafræði. Hugmyndinni um að þeir sem eru betur stæðir hjálpi þeim sem minna mega sín. Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi sættum við okkur við háa skatta og treystum ríkinu til að dreifa þeim hluta tekna okkar betur en við gætum sjálf. Ein af stoðum kerfisins er það sem við köllum sjálfsögð réttindi. Að öll mannslíf séu jafn mikils metin og þar með sé fólki hjálpað í erfiðum aðstæðum, allir séu jafnir fyrir lögum og allir hafi sama rétt til grunnmenntunar.

Ég held að hægt sé að fullyrða að flestir sem standa í pólitísku þrasi á Íslandi skrifi undir að þetta sé sú undirstaða sem við viljum byggja okkar þjóðfélag á, þó að fólk geti verið ósammála um hversu langt skuli ganga.

Þó að samhjálpin sé vissulega ein af undirstöðum norræna velferðarkerfisins er ekki hægt að ganga svo langt að flokka hvert það þjóðskipulag sem byggir á þessum hugmyndum undir sama hatt. Norræna kerfið gengur mun lengra í útfærslu þessara markmiða með ofursköttum og fyrirhyggju sem getur komið niður á nýsköpun og einkaframtaki.

Í þessari umræðu gleymist oft að þjóðirnar sem um er að ræða búa flestar við mjög góð skilyrði, oft vegna náttúruauðlinda, svo sem á við um Norðmenn og Íslendinga, en einnig vegna smæðar sinnar. Því miður eru engin dæmi um að norræna kerfið virki fyrir stærri þjóðfélög.

Líklega skiptir stærð þessara þjóðfélaga einmitt höfuðmáli í þessu sambandi. Að aukið gagnsæi, betra aðhald, meiri nánd og minna flækjustig sem fylgir því að búa í litlu þjóðfélagi sem einmitt grundvallaratriði í árangri norræna velferðarkerfisins – að auðveldara sé að að halda úti öflugu velferðarkerfi við slíkar aðstæður.

Einnig hefur reynsla síðustu ára sýnt að það eru ekki endilega Skandinavar sem hafa aukið hagsæld sína mest enda hefur t.d. verið meiri hagvöxtur á Írlandi en hjá Norðurlandaþjóðunum að Norðmönnum undanskildum.

Þó að við séum flest sammála um að viðhalda sanngjörnu og réttlátu þjóðfélagi þar sem fólki er hjálpað, má ekki gleyma því að einnig verður að hlúa að uppsprettu þeirra tekna sem gera okkur kleift að lifa því lífi sem við óskum okkur. Frumkvæði og einkaframtak mega ekki verða undir í viðleitni okkar til að ná þessum markmiðum.

Auðvitað megum við við vera stolt af því þjóðfélagi sem við höfum skapað okkur. En það er ekki síður mikilvægt að líta hlutlægt á þær aðstæður sem gerðu okkur kleift að auka velferð okkar og halda atvinnustigi háu. Getur verið að aðgangur að gjöfulum náttúruauðlindum eða einfaldlega sú staðreynd að tiltölulega fáir íbúar búa í þessum löndum séu stærstu þættirnir í hagsæld Norðurlandanna? Í það minnsta er vert að skoða hvort svo sé áður en fullyrt er að kerfið henti stærri þjóðum.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.