Í skötulíki á Þorláksmessu!

Í fréttum í vikunni kom það í ljós að Benedikt páfi XVI hefði skrýðst jólahúfu páfagarðs-eða svokallaðri camauro, og hefði síðan látið aka sér um Péturstorgið með húfuna. Minnti höfuðfat þetta-sem var rautt á lit með hvítri bryddingu-á húfur sem jólasveinar nota öðrum fremur.

Í fréttum í vikunni kom það í ljós að Benedikt páfi XVI hefði skrýðst jólahúfu páfagarðs-eða svokallaðri camauro, og hefði síðan látið aka sér um Péturstorgið með húfuna. Minnti höfuðfat þetta-sem var rautt á lit með hvítri bryddingu-á húfur sem jólasveinar nota öðrum fremur. ERGO: Páfinn klæddi sig í jólasveinahúfu í tilefni jólanna. Höfuðfat þetta varð til á 13. öld og notuðu páfar þetta gjarnan á jólaföstunni. Síðasti páfi sem gekk um með húfuna var hins vegar Jóhannes XXIII sem lést 1963.

Greinarhöfundur telur að því beri að fagna að Benedikt páfi endurveki þennan sið að ganga um með jólaveinahúfu. Enda eru siðir og ósiðir merkilegt fyrirbæri og afar skemmtilegir.

Í dag á Þorláksmessu tíðkast nefnilega einn mesti ósiður-samanlagður-sem Íslendingar ástunda á almanaksárinu. Sumir myndu halda að greinarhöfundur eigi hér við jólagjafakaupkapphlaup sem ístöðulitlir og óskipulagðir Íslendingar ástunda gjarnan seinnipart og að kveldi þessa síðasta dags fyrir jól, en það er hinn mesti misskilningur. Hér á greinarhöfundur að sjálfsögðu við skötu og mörflotsát landans á jólaföstunni.

Skata er einfaldlega vondur matur. Vondur skemmdur matur.

Gróflega má skipta þeim niður í fimm flokka sem borða skötu. Fyrsta flokkinn fylla þeir sem eru með skemmda bragðlauka; skiptir þá væntanlega engu máli hvað þeir leggja sér til munns.

Annan flokkinn fylla þeir sem finnst skata einfaldlega góður matur og telja það sérvalið og gott delicatessen-væntanlega fyrir einhvern stórkostlegan misskilning!

Þriðja flokkinn fylla þeir sem fylgja siðvenju og beygja sig undir ok siðferðislegrar skyldu-ólust til dæmis upp við að pína í sig skötu-og borða því skötu af eintómri skyldurækni; eins konar þýsk misskilin skyldurækni!

Fjórða flokkinn fylla síðan þeir sem finnst þetta vondur matur en telja það eftirsóknarvert og svalt og félagslegt atriði að fylla þann hóp sem borðar skötu. Einstaklingar sem eru í þessum hóp eru afar mótækilegir fyrir félagsþrýstingi hvers konar og reykja til dæmis iðulega.

Í sjálfu sér er ekkert að því að menn graðki í sig mismunandi úldinni fisktegund, hamsatólg, kartöflum og brennivíni og finnist gott. Ef til vill ber að fagna þessu, enda væri heimurinn harla leiðinlegur ef allir væru eins.

Í fimmta flokknum eru síðan Vestfirðingar.

Skötuát telst til siðvenju hér og telur greinarhöfundur að mönnum sé almennt skylt að hafa siði í hávegum og taka þátt í þeim af fullum krafti. Að því sögðu er ekki loku fyrir það skotið að hægt sé að breyta siðum og þróa þá í átt að mismunandi smekk og mismunandi viðkvæmum bragðlaukum.

Því mun greinarhöfundur snæða skötulíki í hádeginu í samræmi við siðvenju. Skötulíkið samanstendur af kjúklingi, frönskum kartöflum og hrásalati. Þessu verður síðan skolað niður með íslensku brennivíni, allt í samræmi við skötuát og siði á heilögum Þorláki.

Verði ykkur að góðu!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.