Árangurstengjum greiðslur til sjúkrahúsa

Nú er búið að kostnaðargreina alla starfsemi Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Þetta er mikið fagnaðarefni. Þetta opnar fyrir skynsamlegra kostnaðaraðhalda af hálfu stjórvalda, aukna samkeppni í sjúkrahúsareksti og aukna hvata til sparnaðar í rekstri.

Í Morgunblaðinu á mánudaginn var sagt frá því að búið væri að kostnaðargreina alla starfsemi Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH). Þetta er mikið fagnaðarefni. Eins og stjórnendur LSH bentu á gerir þetta það að verkum að unnt er breyta fjármögnun LSH úr föstum fjárlögum í afkastatengdar greiðslur.

En kostnaðargreiningin hefur einnig aðra kosti. Hún opnar í raun á möguleika á samkeppni í sjúkrahúsarekstri á Íslandi. Fram að þessu hefur ein helsta hindrunin í veginum fyrir því að einkaaðilar gætu tekið að sér að veita sjúkrahúsþjónustu verið sú að erfitt var að átta sig á því hvernig ætti að greiða þeim fyrir þá þjónustu sem þeir veittu. Nú er hins vegar orðið þekkt hvað hin ýmsu verk kosta á LSH. Þá liggur beinast við að einkaaðilum séu boðnar sömu greiðslur fyrir unnin verk og LSH.

Ef opnað væri fyrir þennan möguleika myndi það leiða til samkeppni í sjúkrahúsaþjónustu sem kæmi sjúklingum vel í formi betri þjónustu. Afkastatengdar greiðslur myndu þar að auki veita rekstraraðilum sterka hvata til þess að lækka kostnaðinn hjá sér. Þegar reynsla væri komin á nýtt kerfi væri ríkinu ef til vill unnt að sækja hluta af þessari hagræðingu með því að láta mismunandi rekstraraðila bjóða í læknaverk.

Stjórnendur LSH sögðu í Morgunblaðinu að stjórnvöld væru treg til þess að breyta fjármögnun LSH. Þeir segjast halda að ástæða tregðunar sé að stjórnvöld telji að árangurtengdar greiðslur muni leiða til óheftrar framleiðslu og aukins kostnaðar. Stjórnendurnir benda réttilega á að þetta sé ekki rétt. Þvert á móti væri unnt að stjórna kostnaðinum með mun skilvirkari og hagkvæmari hætti ef afkastatengingin væri tekin upp.

Í dag skammta stjórnvöld LSH einfaldlega ákveðið heildarfjármagn. Ef stjórnendur LSH hafa rétt fyrir sér virðast stjórvöld ekki vilja óhreinka hendur sínar við að taka ákvarðanir um einstök atriði sem lúta að kostnaðaraðhaldi í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöld fela sig á bak við föstu fjárlögin.

Þetta er vitaskuld afleitt kerfi sem leiðir til afleitra aðferða við kostnaðaraðhald. Í ljósi þess gríðarlega fjármagns sem við Íslendingar verjum til heilbrigðismála er bráðnauðsynlegt að kjörnir fulltrúar okkar hafi pólitískan kjark til þess að taka af skarið og byrja að taka ákvarðanir um hvaða læknaverk ríkið vill greiða fyrir og hvaða læknaverk ríkið vill ekki greiða fyrir. Þetta er vitaskuld mikið verk sem er bæði viðkvæmt og flókið. En hagsmunirnir eru ofsalegir. Og nú er ekki lengur hægt að fela sig á bak við það að ekki sé búið að kostnaðargreina og því sé ekki hægt að forgangsraða. Nú hafa stjórnmálamenn engar afsakanir lengur.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.