Hagkvæmar og óhagkvæmar leiðir til þess að bæta námsárangur íslenskra barna

námsárangurFlestir telja líklega að fækkun nemenda í hverri bekkjardeild sé góð leið til þess að bæta námsárangur í skólakerfinu. Fjöldi rannsókna bendir hins vegar til þess að svo sé ekki. Fækkun nemenda í hverri bekkjardeild niðurfyrir 25 virðist vera tóm peningaeyðsla.

námsárangurFækkun nemenda í hverri bekkjardeild er á meðal þess sem mest er fjallað um þegar umbætur í skólakerfinu eru til umræðu. Flestir virðast telja að slík fækkun leiði til betri námsárangurs þar sem nemendur fái meiri athygli kennara. Á Íslandi hefur fækkun nemenda í hverri bekkjardeild lengi verið eitt af markmiðum stjórnvalda.

Nýlegt eintak af vefriti menntamálaráðuneytisins (18. september 2003) bendir á það sem jákvæðan vitnisburð um íslenska menntakerfið að: „Þegar kemur að meðalfjölda nemenda í hverri bekkjardeild í grunnskóla standa Íslendingar í fremstu röð með um 17 nemendur en meðaltal OECD-ríkja er 22 nemendur á bekkjardeild.”

Síðasta áratuginn eða svo hefur hins vegar komið í ljós í fjölda rannsókna að fækkun nemenda í hverri bekkjardeild niður fyrir 25 hefur engin áhrif á námsárangur. Rannsóknir sýna að fækkun nemenda niður fyrir 40 hefur jákvæð áhrif á námsárangur en fækkun niður fyrir 25 hefur það ekki.

Þessar niðurstöður varpa mikilvægu ljósi á samband námsárangurs og útgjalda til menntamála. Margir hafa bent á það á undanförnum árum að lítið sem ekkert samband sé milli þessara stærða fyrir OECD ríki. Skýringin liggur líklega að stórum hluta í því að þau OECD ríki sem verja mestu fé til menntamála hafa verið að leggja áherslu á aðgerðir sem hafa engin áhrif á námsárangur, s.s. fækkun nemenda í hverri bekkjardeild.

Fækkun nemenda í hverri bekkjardeild er gríðarlega dýr stefna. Verulegur sparnaður myndi verða af því að fjölga nemendum í hverri bekkjardeild á Íslandi úr 17 í 25. Fjármagnið sem myndi sparast væri unnt að nota í annars konar aðgerðir til þess að ýta undir betri námsárangur.

Rannsóknir benda til þess að gæði kennara hafi veruleg áhrif á námsárangur. Íslensk stjórnvöld ættu því að stefna að því að fjölga nemendum í hverri bekkjardeild úr 17 í 25 og nota það fjármagn sem sparast til þess að hækka laun kennara. Slíkar aðgerðir eru líklega hagkvæm leið til þess að bæta námsárangur íslenskra barna.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.