Vinstrimeirihlutinn sem eyðilagði ímynd Strætó

Ímynd skiptir máli. Vinur minn hann Gísli Marteinn sagði að þegar Reykjavíkurborg hafi farið að prófa sig áfram með „frítt í strætó fyrir námsmenn“ verkefnið fyrir allmörgum árum var það gert til að bæta ímynd. Þá höfðu ekki birst nema neikvæðar fréttir um Strætó, svo árum skipti.

Nú er sama upp í teningnum. Lúxusjeppi forstjórans, endalaust klúður með yfirtöku á ferðaþjónustu fatlaðra umræða um gjaldskrárhækkanir allt þetta telur. Nú um helgina birtist svo grein í Fréttatímanum um erlenda konu sem bílstjórar Strætó koma illa fram við.

Þetta er auðvitað ekki fjölmiðlum að kenna. Klúður munu gerast og fjölmiðlar munu segja frá þeim. Svona er lífið. En það sem er ömurlegt að sjá er að sökum pólitískt skeytingarleysis er Strætó komið í endalausa vörn í hinum og þessum málum og hvorki byggðasamlagið þess né hinir kjörnu fulltrúar sem eiga að stýra eru að gera nokkuð til að snúa þessari þróun við.

Tökum dæmi: Nýlega var strætó að hækka gjaldskrá sína. Í fyrsta skipti í 3 ár. Þetta er algerlega sjálfsagt mál í raun ætti þetta að gerast árlega. Borgarstjóri hefði átt að segja: „Já, við erum að hækka en við ætlum að reka hérna besta almenningsamgöngukerfi norðan Alpafjalla og það bara kostar. Við erum að hækka núna og munum hækka aftur. Hvað annað? Eigum við frekar að skerða þjónustuna? Eruð þið klikkuð?“

Annað: Samhliða þessari hækkun var verið að koma á árskortum fyrir börn. Þetta er stórkostleg breyting. Hana er hægt að spinna sem gríðarlega lífskjarabót fyrir foreldra, baráttu gegn skutlinu eða bara sem frelsismáli fyrir börn og unglinga. En hún fór lágt í fréttum samanborið við þá frétt að túristafargjaldið í vagnanna hækki um fimmtíukall.

Hér er einhver sem er að fokka upp. Hér vantar mannlífssögu af einhverjum virtum eða trendý borgara sem er illa glaður vegna þess að nú þarf hann ekki að keyra barnið upp í Egilshöll heldur getur bara troðið því í sexuna þar sem það hamrar á snjallsímann þangað til að kýrnar koma heim. Hvað fáum við í staðinn? Neyðarstjórn um ferðaþjónustu fatlaðra. Erlend kona áreitt af bílstjóra. Random farþegar ósáttir við hækkun.

Meðalvinstrimanni er annt um almenningsamgöngur. Svona sem hugmynd. Hugsanlega jafnvel meira en meðalhægrimanni. En til að láta þetta ganga upp þá verður að líta svo á Strætó sé fyrirtæki sem sé að selja þjónustu en ekki stofnun sem eigi bara að veita hana. Þessu er vinstrimeirihlutinn í Reykjavík að klúðra massíft.

Ef fólk á að kaupa þjónustu í stórum stíl þá verður það að hafa það á tilfinningunni að þjónustan sé flott. Að það sé kúl að kaupa þessa þjónustu. En ekki að maður sé svo mikill aumingi að maður verði að versla við aðila sem urrar á útlendinga og gleymir fötluðu fólki. Ímynd Strætó hrakar hratt. Borgarstjórnin verður að grípa í taumanna. Og sýna smá frumkvæði. Ekki bara bregðast við hverju klúðrinu á fætur öðru.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.