Viðhorfsbreyting í Sjálfstæðisflokknum

Jafnréttisbaráttan snýst ekki lengur um lagalegt jafnrétti, því hafa kynslóðirnar á undan okkur náð fram og eiga skilið þakkir fyrir það. Jafnréttisbaráttan í dag er brátta um viðhorf, að litið sé á konur og karla sem jafningja á öllum sviðum, ekki bara í stjórnmálum, líka þegar kynin velja sér starfsvettvang, í foreldrahlutverkinu o.s.frv.

Með nýrri forystu koma nýjar áherslur. Forysta Sjálfstæðisflokksins áttar sig á mikilvægi þess að konur og karlar vinni saman að stjórnun landsins okkar.

Við setningu Landsfundar 2013 sagði Bjarni Benediktsson „Við höfum á að skipa öflugri framvarðasveit í Sjálfstæðisflokknum og sterkum listum. Það er valinn maður í hverju rúmi og að sjálfsögðu munum við gæta þess að hlutur karla og kvenna úr okkar röðum verði jafn þegar kemur að ríkisstjórnarmyndun.“

Það er fagnaðarefni að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hafi tekið forystu í að efla jafnrétti kynjanna innan sem utan Sjálfstæðisflokksins. Á flokksráðsfundi fyrr í mánuðinum var samþykkt að markvisst yrði unnið að því að efla hlut kvenna til jafns við karla í trúnaðarstöðum innan flokksins og í áhrifastöðum í umboði hans. Jafnframt var ákveðið að næsti Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verði tileinkaður konum, í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.

Það eru ákveðin tímamót í Sjálfstæðisflokknum þar sem viðhorfsbreyting er að eiga sér stað. Á Landsfundi flokksins 2011 bauð kona kona sig fram til formanns í fyrsta sinn. Á Landsfundinum þar á undan árið 2009 var fyrsta jafnréttisstefnan kynnt í rúmlega 80 ára sögu flokksins og samþykkt af landsfundarfulltrúum. Það var sigur út af fyrir sig.

Sjálfstæðisflokkurinn á að vera leiðandi afl þegar kemur að jafnrétti kynjanna, sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins hefur hann forystuhlutverki að gegna í jafnréttismálum.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.