Við hittumst á ný

Í dag munu byssur hvíla hljóðar í Lundúnaborg og víðar um Bretland í fyrsta skipti í 68 ár. Það á að minnsta kosti við um byssur sem hafa frá árinu 1952 hljómað til að fagna afmælisdegi konu sem hefur ríkt sem drottning lengur en nokkur önnur í veraldarsögunni. Elísabet II Englandsdrottning fagnar í dag 94 ára afmæli.

Vegna Covid-19 heimsfaraldursins baðst drottningin undan tilstandi enda er Bretland nærri hápunkti faraldursins og harðar aðgerðir í gangi til að vinna bug á veirunni. Yfir 16.000 manns hafa látist vegna Covid-19 í Bretlandi sem er fimmta hæsta dánarhlutfallið á eftir Bandaríkjunum, Ítalíu, Spáni og Frakklandi.

Í byrjun apríl flutti drottningin sjónvarpsávarp til þjóðarinnar vegna Covid-19 og var þetta í fimmta skipti sem hún gerði slíkt fyrir utan reglubundið ávarp um jólin. Í ávarpinu blés hún þjóð sinni kraft og hugrekki í brjóst með sterkum skilaboðum sem hún umfram aðra er fær um að flytja enda sá einvaldur (e. monarch) sem hefur setið lengst á valdastóli í sögu Bretlands. Drottningin fór yfir erfiðleikana sem einkenna þessa tíma en setti þá um leið í stærra samhengi þegar hún bar þá kynslóð sem nú lifir Covid-19 saman við aðrar kynslóðir og brýndi fólk með orðunum: „I hope in the years to come everyone will be able to take pride in how they responded to this challenge, and those who come after us will say the Britons of this generation were as strong as any, that the attributes of self-discipline, of quiet, good-humored resolve, and of fellow feeling still characterize this country. The pride in who we are is not a part of our past, it defines our present and our future.“

Drottningin minntist svo fyrsta ávarpsins sem hún flutti árið 1940, fyrir 80 árum síðan. Þá var hún 14 ára og flutti, ásamt tíu ára systur sinni, ávarp til barna sem höfðu verið fjarlægð af heimilum sínum og send burtu til að gæta öryggis þeirra í seinni heimsstyrjöldinni. Að lokum klykkti hún út með orðum til hughreystingar; betri dagar munu snúa aftur og við munum hittast á ný. Síðustu orðin gætu verið tilvitnun í lag Very Lynn frá 1939, árinu sem seinni heimsstyrjöldin hófst og þótti lýsa vel andrúmslofti þegar ástvinir neyddust til að vera aðskildir vegna atburða sem það hafði ekki stjórn á.

Við erum að lifa tíma sem er ítrekað lýst sem fordæmalausum og margir glíma við ótta og vanmátt út af óvissu, veikindum og fjárhagslegum áhyggjum. Með fullri virðingu fyrir þjóðarleiðtogum heimsins og innblásnum ræðum þeirra á ögurstundu þá nær enginn að toppa þá vigt sem er fólgin í orðum og reynslu drottningarinnar sem hefur ríkt jafn lengi og 13 forsetar hafa setið á valdastóli í Bandaríkjunum. Árið sem hún var krýnd drottning fæddist maður sem hefur stýrt Rússlandi á einn eða annan hátt eins lengi og elstu hipsterar muna, Vladimir Pútín. Sama ár tók annar forseti íslenska lýðveldisins, Ásgeir Ásgeirsson, við af fyrsta forsetanum, Sveini Björnssyni.

Árið sem Elísabet II Englandsdrottning fæddist var elsti Bretinn 106 ára kona sem fæddist árið 1819. Nú, 201 ári síðar, óskar Deiglan drottningunni hjartanlega til hamingju með afmælið og lokaorð þessa pistils verða ekki orð heldur tónar, hér er lagið We´ll meet again.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.