Verstir í heimi?

Fyrir nokkrum dögum vorum við Íslendingar bestir í heimi í handbolta. Sigri á sjálfum heims- og ólympíumeisturum Dana var fylgt eftir með því að rassskella rússneska björninn með slíkum tilþrifum að nánast næsta dag var ríkisstjórn Rússlands leyst frá störfum í heild sinni. En það var brunagaddur á toppnum og við erum til allrar hamingju komnir í hið tempraða loftslag meðalmennskunnar á nýjan leik. Ekki lengur bestir en alls ekki, og langt í frá, verstir í heimi.

Flestar þjóðir heims leggja talsvert upp úr því að ná árangri í íþróttum. Á tímum kalda stríðsins var árangur íþróttamanna beggja vegna járntjaldsins jafnvel álitinn mælikvarði á gæði viðkomandi hugmyndakerfis. Kynslóðir ungra íþróttamanna í austantjaldsríkjunum, einkum í svonefndum ólympíugreinum, voru keyrðar áfram að endimörkum mannlegs máttar til að undirstrika yfirburði sósíalismans. Og þegar hinn mannlegur máttur hrökk ekki til var leitað til færustu vísindamanna til að bæta árangurinn. En jafnvel þótt ekki komi til sú þörf að sýna fram á yfirburði einnar hugmyndafræði gagnvart annarri, þá dugar þjóðarstoltið yfirleitt til að mönnum hlaupi kapp í kinn.

Það er í þessu ljósi áhugavert að velta fyrir sér árangri einstakra þjóða í íþróttum í sögulegu ljósi nútímans. Þetta er mælanlegur árangur og handhægt að líta til úrslita á Ólympíuleikum og í helstu íþróttamótum samtímans. Fyrir liggur að fjölmennar þjóðir ná almennt séð góðum árangri, sérstaklega ef þær þurfa að sýna fram á yfirburði síns þjóðskipulags umfram önnur. En svo eru aðrar þjóðir sem virðast bara einfaldlega góðar í íþróttum. Spánverjar eru dæmi um slíka þjóð, þeir eiga landslið í heimsmælikvarða í fótbolta, handbolta og körfubolta, auk þess að státa af ágætum árangri í öðrum íþróttum. Sama gildir til dæmis um Króata.

Efnhagslegur styrkur þjóða virðist ekki skipta sköpum. Dæmi um það eru knattspyrnuþjóðir Suður-Ameríku, Argentína og Brasilía, sem jafnvel á mestu hallæristímum stóðu með pálmann og gullstyttuna góðu í höndunum. Afríkuþjóðir hafa sankað að sér ólympíugulli og soltið heilu hungri nokkurn veginn á sama tíma. Þá er ekki hægt að segja að tilteknir líkamsburðir tryggi árangur í íþróttum heilt yfir. Meðalhæð þjóðir ræður auðvitað nokkru um árangur í sumum iþróttum, eins og körfubolta, en þjóðir sem eru lægri í loftinu ná á móti meiri árangri í annars konar íþróttum.

Í samfélagi þjóðanna er þó ein sem sker sig úr í öllum þessum samanburði. Þrátt fyrir að standa mjög framarlega í vísindum, menningu og því sem mætti kalla æðri íþróttagreinum, eins og skák, er árangur Indverja í íþróttum mjög eftirtektarverður í neikvæðum skilningi. Indverjar hafa á keppt á 34 ólympíuleikum og unnið á þeim til 28 verðlauna. Þar af eru 9 gullverðlaun, 8 gullverðlaun í landhokkí og 1 í skotfimi. Indverjar hafa aldrei komist á lokamót heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu og engum frægðarsögum fer af þátttöku þeirra í körfubolta eða handbolta. Raunar er fátt um frægðarsögur á íþróttasviðinu hjá þessari eitt þúsund milljóna manna þjóð. Það er ekkert hægt að orða það neitt öðruvísi en svo að þeir virðast ekki geta neitt í neinu þegar kemur að íþróttum.

Hvað veldur? Nú er það ekki svo að líkamsburðir Indverjar séu síðri en hjá ýmsum öðrum þjóðum og efnahagslegt ástand er ekki með því versta sem gerist, þótt víða á Indlandi sé mikil fátækt. Þá verður seint sagt að þeir séu áberandi metnaðarlausir, hafa brotist til frama í tækni, vísindum, viðskiptum og menningu, auk þess að vera kjarnorkuveldi, ef það er þá einhver mælikvarði á metnað þjóða.

Getuleysi Indverja í íþróttum er einfaldlega ráðgáta. En finnist trúverðug skýring, verður hún birt hér á Deiglunni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.