Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn í mun stærri sögu?

Meðan báturinn lekur og gæti sokkið er mikilvægara að ausa úr honum og stöðva lekann heldur en að rífast um það hverjum það er að kenna að gatið kom á kjölinn. En nú er búið að stöðva lekann víðast á Vesturlöndum og uppgjörið fer að hefjast.

Þegar fram líða stundir og heimurinn gerir upp hinn ótrúlega covid tíma gæti verið að það sem standi upp úr sé ekki skaðinn sem veiran sjálf olli á heilsu fólks. Hugsanlega verða aðgerðirnar til að berjast gegn veirunni álitnar jafnvel ennþá sögulegri en veiran sjálf. Það sem væri afdrifaríkast af öllu væri þó ef heimsbyggðin færi í auknum mæli að trúa því að uppruni veirunnar hafi ekki verið í náttúrunni, heldur í hinni óhaganlega staðsettu rannsóknarmiðstöðu í Wuhan, þar sem vitað er að rannsóknir og tilraunir á kórónaveirum hafa farið fram, og veirunnar varð einmitt fyrst vart.

Bandaríski samfélagsrýnirinn Jon Stewart, sem klæðir athugasemdir sínar jafnan í búning gamanmála, heimsótti sinn gamla starfsbróður Stephen Colbert í sjónvarpsþætti í síðustu viku. Heimsóknin vakti mikla athygli því þar gerði Stewart það sem frjálslyndir Bandaríkjamenn hafa lagt sig í framkróka við að forðast. Hann benti á að það sé hreint ekki annað hægt en að vera uppfullur grunsemda yfir þeirri tilviljun að hin nýja kórónaveira sem valdið hefur heimsfaraldri hafi einmitt átt upptök sinni í borg þar sem heimþekkt rannsóknarstofa er staðsett. Framsetning hans var galsafull; en skilaboðin voru skýr og sannfærandi um að það væri verið að slá ryk í augu almennings með að halda því fram að það sé órökrétt að beina sjónum að rannsóknarstofukenningunni.

Um langa hríð hafa vísindamenn og framtíðarfræðingar bent á það sem raunverulega hættu að verið sé að gera tilraunir með erfðabreytingu á sjúkdómsvaldandi veirum og bakteríum. Hætta á einhvers konar slysi, þar sem veira sleppur út af tilraunastofu, hefur verið uppi á borðum og rætt fram og til baka. Af þessum sökum hefur verið dapurlegt að fylgjast með því hvernig stjórnvöld víða um heim hafa frá upphafi covid faraldursins lagt sig í framkróka við að útmála sem delludreifara og ruguldalla þá sem hafa velt upp þeirri kenningu að SARS-CoV-2 veiran kunni að hafa komist á kreik einmitt með þeim hætti.

Sannarlega má segja að kannski hafi ekki verið staður eða stund til að deila um uppruna veirunnar meðan faraldurinn geisaði sem skæðast. Meðan báturinn lekur og gæti sokkið er mikilvægara að ausa úr honum og stöðva lekann heldur en að rífast um það hverjum það er að kenna að gatið kom á kjölinn. En nú er búið að stöðva lekann víðast á Vesturlöndum og uppgjörið fer að hefjast.

Ef sú kenning verður ofan á, og henni trúað af valdhöfum á Vesturlöndum, að einhvers konar ólán eða misgáningur hafi orðið til þess að stjórnvöld um heim allan fóru út í einhverjar harkalegustu frelsisskerðingar síðustu alda með tilheyrandi samfélagslegu, heilsufarlegu og efnahagslegu tjóni—þá er hætt við að ýmsum þyki tilefni til þess að ræða málið við þá sem taldir verða eiga sök á. Og þótt þessi pistill sé ekki skrifaður af djúpri þekkingu á kínverskum stjórnmálum—þá virðist óhætt að fullyrða að þar á bæ sé frekar takmörkuð stemmning fyrir því að horfa í eigin barm og viðurkenna mistök ef svo bæri undir.

Næstu misseri gætu því skorið úr um hvort heimsfaraldurinn muni standa einn og sér í sögunni sem ótrúlegur viðburður, eða hugsanlega sem fyrsti kaflinn í ennþá stærri og hættulegri atburðarás.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.