Uppgangur hacktivista

Í seinasta pistli mínum skrifað ég um hversu auðvelt það getur verið að brjótast inn í tölvukerfi. Þótt ekki sé alveg víst að það hafi verið innbrot inn á vef Mossack Fonseca, þá sýndu athuganir sérfræðinga frammá það hversu auðvelt það hefði verið. Jafnvel aðili með gríðarlega litla þekkingu hefði getað gert það.

Ekkert bendir til annars en þessum innbrotum muni fjölga til muna á næstunni eða að minnsta kosti tilraunum til innbrota. Innbrotin geta verið margskonar og af ólíkum ástæðum t.d. hefur verið gríðarleg aukning hjá stjórnvöldum t.d. kynnti íslenska lögreglan sér kosti þess að kaupa forrit til að brjótast inn í tölvur (kaldhæðnin í því er að það komst upp í gagnastuldi). Stórir hópar starfa fyrir skipulögð glæpasamtök dæmi um slík innbrot eru t.d. stór innbrot hjá Target og Home Depot þar sem yfir 100 milljónum kortanúmera var stolið. Í dag geisar faraldur þar sem tölvur eru dulkóðaðar og eingöngu opnaðar þegar rausnarlegt lausnargjald er greitt. Nú seinast hefur þessi hópur beint árásum á spítala og sjúkrastofnanir, þar sem tæki tengd netinu hafa verið tekin yfir af hökkurum sem hafa svo krafist þess að fá lausnargjald. Einhver dæmi hafa verið um slíkar árásir á bíla.

Sá hópur sem hefur fengið mesta athygli hafa verið svokallaðir hacktivistar. Orðið er sett saman úr orðunum hacker (eða tölvurefur) og activism (eða aðgerðarstefna). Þetta á því að vera einhvers konar sambland þar sem aðgerðarsinnar nota tölvur og tækni til brjótast inn í pólitískum tilgangi eða fyrir ákveðinn málstað. Þessir hópar eru oft hjúpaðir ákveðinni dulúð, jafnvel þótt það sé enginn munur á því hvort vefur er hakkaður í nafni einhvers málstaðar eða brotist inn í fjárhagslegum tilgangi. Bæði er lögbrot. Þökk sé umfjöllun fjölmiðla hefur það þótt flott að vera meðlimur í slíkum hóp. Þessi hópar hafa verið starfandi nánast svo lengi sem netið hefur verið til (þótt nafnið sé mun nýrra) og tólin hafa þróast með tímanum, allt frá því að flæða pósthólf með tölvupóstum, leggja niður heimasíður til víðtækra og alvarlegra innbrota. Hóparnir telja þúsundir og eru jafn ólíkir og þeir eru margir.

Þekkasti hópurinn er Anonymous, lauslega tengdur hópur sem hefur enga miðlæga stjórnun. Þótt hópurinn hafi upphaflega tekið til starfa í kringum ákveðið málefni hafa málefnin orðið svo gríðarlega fjölbreytt að nánast hver sem er getir gert árás og sagt að hún sé í nafni hópsins. Þannig hafa fórnarlömb hópsins verið allt frá ISIS, Donald Trump og að ógleymdu litlum veitingastöðum á Íslandi vegna hvalveiða. Eins og aðra hryðjuverka hópa miða árásirnar oft ekki endilega á að valda sem mestum skaða heldur að ná sem mestri fjölmiðlaathygli og algengt er að sýna auðkenni hópsins jafnvel fyrir alls óskyld mál en það er Guy Fawkes-gríma.

Á sama tíma hafa tól til að gera árásir orðið aðgengilegri, áður þurftu menn að vera sérfræðingar og búa til eigin tól að miklu leiti og hafa sérstaka þekkingu. Í dag er hægt að sækja jafnvel sérhæfð stýrikerfi sem koma með öllum hugbúnaði sem til þarf. Eina sem þarf að gera er að læra á hugbúnaðinn og fara af stað. Þökk sé stefnu stjórnvalda gegn ólöglegu niðurhali þarf fólk ekki einu sinni að læra hvernig á að hylja slóð sína.

Uppgangur hacktivista er tvíeggja sverð, þar sem mörkin geta oft verið mjög óljós. Það er t.d. frekar hæpinn málstaður að brjótast inn á vef Vodafone á Íslandi í þessu nafni þegar ljóst var að tilgangurinn var eingöngu að valda skaða. Engar málefnalegar ástæður voru fyrir innbrotinu. Á íslensku heitir þetta að taka lögin í eigin hendur. Lögreglan á að rannsaka og dómstólar að dæma. Eðli málsins samkvæmt erum við oft ekki sátt við niðurstöður slíkra aðila, þó getum við ekki tekið lögin í eigin hendur á þennan hátt, frekar en t.d. með öðru ofbeldi. Þegar fólk ætlar sjálft að brjóta lög og reglur þá endar það með ósköpum.

Það er því rétt að hafa áhyggjur af vexti þessar hópa. Það hefur verið gríðarlegur vöxtur hjá þessum hópum og þrátt fyrir nokkrar handtökur á lykilmönnum ákveðinna samtaka, hefur það engu breytt. Í ljósi árangurs síðasta innbrots má búast við gríðarlegum vexti og fjölgun í hópi þeirra sem vilja koma upp um leyndarmál og birta á netinu. Fátt er líklegra til árangurs en sú fjölmiðlaumfjöllun sem hefur verið undanfarna daga, uppljóstranir um spillingu og fall stjórnmálamanna. Þetta er því bara upphafið. Við eigum eftir að sjá miklu, miklu meira.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.