Tilvistarkreppa embættismanna

Embættismenn ríkisins eru margir hverjir afar sárir þessa dagana, einkum forstöðumenn hinna ýmsu ríkisstofnana. Ástæðan er gagnrýni sem þeir hafa að undanförnu orðið fyrir frá stjórnmálamönnum, m.a. úr ræðustóli Alþingis. Það er auðvitað ótækt að menn úti í bæ þurfi að sitja undir árásum þingmanna með þessum hætti.

Embættismenn ríkisins eru margir hverjir afar sárir þessa dagana, einkum forstöðumenn hinna ýmsu ríkisstofnana. Ástæðan er gagnrýni sem þeir hafa að undanförnu orðið fyrir frá stjórnmálamönnum, m.a. úr ræðustóli Alþingis. Það er auðvitað ótækt að menn úti í bæ þurfi að sitja undir árásum þingmanna með þessum hætti. Deigluna rekur þó ekki minni til harðra viðbragða þessarar embættismanna við linnulitlum árásum sem framkvæmdastjóri Sjónvarpsins mátti þola úr ræðustóli Alþingis fyrir nokkrum árum. Enda var þar um að ræða aðra stjórnmálamenn og allt annan embættismann, nefnilega Hrafn Gunnlaugsson.

En í lok síðustu viku tók þessi umræða nokkuð athyglisverða stefnu er Magnús Jónsson, veðurstofustjóri og Alþýðuflokksmaður, gekk fram fyrir skjöldu embættismanna. Var á Magnúsi að skilja að stigið hefði verið óheillaspor er æviráðning embættismanna var aflögð og fimm ára ráðningartími tekinn upp. Með þessu væru embættismenn settir undir hæl stjórnmálamanna, þyrftu að haga embættisfærslu sinni eftir pólitískum vindum hverjum sinni.

En ekki hvað?? Veðurstofustjóra skal til upplýsingar bent á, að hér á landi búum við við þjóðfélagsfyrirkomulag sem nefnist lýðræði. Í því felst að málum er stjórnað af kjörnum fulltrúum sem sækja umboð sitt til þegnanna á fjögurra ára fresti. Þessi fulltrúar eru í daglegu tali kallaðir stjórnmálamenn. Varla er hægt að skilja orð veðurstofustjóra á annan veg en þann, að embættismenn eigi að geta farið sínu fram, fylgt þeirri stefnu sem þeim sýnist, burtséð frá öllum straumum og stefnum þjóðfélagsins.

Til eru dæmi um embættismenn sem ekki hafa þurft að lúta vilja stjórnmálamanna um eitt eða neitt, verið sínir eigin herrar – jafnvel ríki í ríkinu. Eitt hið þekktasta er J. Edger Hoover, sem sat í forstjórastól FBI nokkra áratugi, ósnertanlegur á meðan einn forseti Bandaríkjanna þurfti að segja af sér og annar var myrtur.

Annars er mjög skiljanlegt að Alþýðuflokksmaðurinn Magnús Jónsson vilji að embættismenn séu æviráðnir. Kratar komast tiltölulega sjaldan að í ríkisstjórn en nota þá gjarnan tækifærið og raða vinum, ættingjum og flokksgæðingum í feit embætti. Það er auðvitað ömurlegt fyrir þessa menn að geta ekki setið að þeirri skipan til æviloka eða þurfa að breyta starfsháttum sínum þegar Alþýðuflokkurinn hverfur úr ríkisstjórn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.