Þjóðarsuss á Þingvöllum

Þá er blessaður þjóðhátíðardagurinn að baki. Ég veit ekki hvað veldur en mér þykir afskaplega vænt um 17. júní. Alveg sama þótt skýjað sé og það hellirigni þá er alltaf sól í öllum minningum mínum um þennan dag. Í æsku klæddi mamma okkur bræðurna í ný sumarföt og við örkuðum öll fjölskyldan í Skrúðgarðinn í Keflavík þar sem landsins stærsti fáni blaktir við hún á þjóðhátíðardaginn. Árið 1999 útskrifaðist ég sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og er mér sá þjóðhátíðardagur því sérstaklega minnistæður. Undir miðnætti marseruðum við nýstúdentarnir hönd í hönd í gegnum miðbæinn, samkvæmt gamalli hefð, og dönsuðum Hókí Pókí á Ráðhústorginu.  

Ef marka má óformlega könnun á samfélagsmiðlum virtist fólk gera sér mjög glaðan dag heima fyrir í ár þar sem íslenski fáninn var í öndvegi og litríkar kökur bornar á borð fyrir vini og ættingja. Sums staðar voru götuveislur og garðpartý og ósvikin þjóðhátíðarstemning sveif yfir vötnum. Kannski er 17. júní að komast aftur í tísku? Vonandi. Við Íslendingar getum annars verið svolítið viðkvæm fyrir því að halda upp á okkur. Það er svo stutt í vanmáttarkenndina og heimóttarskapinn að við verðum stundum feimin við að vera sjálfstæð þjóð í samfélagi þjóða.

Dæmi. Fyrir fáeinum vikum fór ég í sunnudagsbíltúr austur á Þingvelli. Gekk Almannagjá og drakk í mig stórbrotið landslagið sem flekaskilin miklu mynda. Söguna. Lýðræðið. Lýðveldið. Svo gekk ég niður að Þingvallakirkju sem er eins íslensk og nokkur bygging getur orðið því hún er stór og smá í senn. Við kirkjuna er það sem átti að vera þjóðargrafreiturinn á Þingvöllum. Þar sofa svefninum langa undir stærðar legsteinum tvö stórmenni í Íslandssögunni, sjálf höfuðskáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson.

Nema hvað. Umgengni þarna og umhirða er fyrir neðan allar hellur. Jörðin hefur sigið svo mikið við legstein Jónasar að steypuklumpurinn undir honum blasir við. Gæsaskítur var um allan grafreitinn og umgjörðin öll með allra slappasta móti. Malarstígur liggur á milli leiðanna sem eru þó bara tvö. Ekkert á staðnum bendir til þess að þarna eigi að vera heiðursgrafreitur þjóðarinnar.

Upphaf þjóðargrafreits á Þingvöllum má rekja til Jónasar Jónssonar frá Hriflu sem var formaður Þingvallanefndar og átti hugmyndina. Hann sá fyrir sér að þessi staður yrði eitthvað í líkingu við Westminister Abbey í Lundúnum þar sem stórmenni breskrar sögu hvíla saman á einum stað sem gefur andagift og hátíðleika í helgidómnum. Einar Benediktsson var fyrst jarðsettur í þjóðargrafreit Íslendinga árið 1940 og sex árum síðar voru bein Jónasar Hallgrímssonar flutt heim frá Danmörku og sett niður á sama stað. Mikill vandræðagangur skapaðist í kringum beinaflutninginn (raunar er deilt um hvort beinin séu í raun Jónasar) og vildu margir að Jónas fengi að hvíla á sínu heimasetri að Hrauni í Öxnadal. Þessi uppákoma öll og það að Jónas frá Hriflu var mjög umdeildur maður á sinni tíð virðist hafa orðið til þess að fólk varð afhuga hugmynd hans um þjóðargrafreit, þrátt fyrir að hún væri komin í framkvæmd.

Orðrómur hefur af og til komist á kreik í gegnum tíðina að einhver eigi að fá þriðju gröfina í þjóðargrafreitnum en aldrei orðið neitt úr því. Síðast komu slíkar hugmyndir fram opinberlega þegar skákmeistarinn Bobby Fischer lést en þá skrifaði Björn Bjarnason formaður Þingvallanefndar á heimasíðu sína að frá því hann „varð formaður Þingvallanefndar árið 1992 hefur ekki verið rætt, hvort taka eigi nýja gröf í þjóðargrafreitnum. Ríkir þegjandi samkomulag um, að grafreiturinn fái að hvíla í friði.”

Þjóðargrafreiturinn er því eitt stórt þjóðarsuss. Opinbert leyndarmál, suss suss. Ruglingur virðist þó vera til staðar um hvort þetta sé helgur staður eða falinn staður fyrir allra augum. Árið 2006 varð nokkuð fár þegar fréttastofa Ríkissjónvarpsins greindi frá því í umvöndunartón að þyrla á vegum fréttastofu Stöðvar 2, sem þá hét NFS, hefði lent ofan á þjóðargrafreitnum en ekki á sérstökum þyrlulendingarstað skammt frá. Var þyrlan send til að sækja myndefni frá blaðamannafundi forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum en greinilegt var af umræðunni að athæfið þótti óvirðing við staðinn.

Því er spurt, hvað svo? Sem fyrr segir er staðurinn í hæsta máta óspennandi og allt umhverfi í miklu ósamræmi við það mikla ástfóstur sem þjóðin hefur tekið við sín höfuðskáld. Nú er Jónas frá Hriflu löngu horfinn á braut og sjálfsagt vandfundin sú manneskja sem hefur heitar tilfinningar til hans eða þá beinamálsins. Má þá ekki ákveða hvers konar staður þjóðargrafreiturinn eigi að vera?

Það er gott að hugleiða söguna á Þingvöllum og setja í samhengi við samtímann. Sagan er hins vegar ekki bara vettvangur atburða heldur mótast hún af fólki og verkum þess. Getum við ekki haldið upp á okkur sjálf eins og staðina sem við snertum? Það ætti ekki að vera feimnismál að sýna okkar besta fólki heiður og þakklæti þjóðar við hinstu kveðju með hvíldarstað á Þingvöllum. Þangað getur svo þjóðin, kynslóð fram af kynslóð, minnst þeirra sem markað hafa djúp spor í samfélag og sögu og fræðst um ævi þeirra og störf á helgasta stað þjóðarinnar. Auðvitað þarf þá umgjörðin að vera boðleg og þannig úr garði gerð að það gefi gestum bæði ánægju og innblástur. Umgjörð sem sýnir fyrst og síðast minningu hinna látnu fullan sóma.

Ella væri réttast að viðurkenna að tilraunin um þjóðargrafreit hafi misheppnast og lofa Jónasi loks að fara aftur heim að Hrauni og Einari þangað sem ættingjar hans kjósa.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.