Þernur og ambáttir

Venjulegt er bara það sem þið hafið vanist. Þetta virðist ekki venjulegt í ykkar augum akkúrat núna, en eftir því sem tíminn líður þá verður það svo. Þetta verður ósköp venjulegt.

„Venjulegt er bara það sem þið hafið vanist. Þetta virðist ekki venjulegt í ykkar augum akkúrat núna, en eftir því sem tíminn líður þá verður það svo. Þetta verður ósköp venjulegt.“

Fyrir þá sem ekki hafa nú þegar látið verða af því, þá eru þessi misseri ekki verri en hver önnur til þess að horfa á þáttaröðina Handmaid’s Tale. Tilvitnunin er höfð eftir hinni ógnvænlegu Lydíu í bókinni þar sem nokkrar af barneignaþernunum horfa upp á líflausa líkama meðborgara sinna hanga ofan af háum vegg. Í sjónvarpsseríunni þylur hún þessa ískyggilegu möntru yfir „stúlkunum sínum“ þar sem hún útskýrir fyrir þeim hið „blessunarlega“ hlutverk sem þeim er ætlað í fyrirmyndarríkinu Gilead—að bera og ala börn fyrir höfðingjastéttina.

Skáldskapurinn er auðvitað fjarstæðukenndur. Valdagírugum og vel skipulögðum hópi tekst að magna upp ótta við utanaðkomandi ógn og tekst að kveða einstaklingsréttindi í kútinn til þess að vernda samfélagið. Hið nýja fyrirkomulag byggist ekki á mannréttindum eða einstaklingsfrelsi. Þar er ekki lögð áhersla á „frelsi til“ að gera hluti, heldur „frelsi frá“ ýmis konar hættum og freistingum.

Samfélagið í sögunni byggist á strangri túlkun á vel völdum textum Biblíunnar. Og á aðeins örfáum misserum er öllu samfélaginu umbylt í þágu þess sannleika sem hentar þeim sterku. Öll samskipti manna stirðna og byggjast á tortryggni og ótta. Mannlegar kenndir og þrár, lestir og lífsnautnir, eru gerðar að skömm og glæpum; og verða að lokum einungis á færi þeirra sem hafa náð að tylla sér allra hæst í metorðastiga hins nýja samfélags.

Og rökin fyrir öllum þeim fórnum sem þurfti til að koma á nýju þjóðskipulagi útskýrir Waterford herforingi. „Við vildum gera heiminn betri,“ segir hann við ambáttina sína. „Betri?“ hváir hún spyrjandi. „Betri þýðir aldrei betri fyrir alla, og það þýðir alltaf verri fyrir suma,“ bætir hann þá við.

Og það má vissulega til sanns vegar færa. Í skálduðum heimi sögunnar reyndust þó „sumir“ verða ansi margir, og „verri“ reyndist fullkomin skelfing. Þetta er því miður algeng niðurstaða þegar borgaralegum mannréttindum er fórnað í þágu þess sem þeim gáfuðustu kunna að þykja augljósir hagsmunir heildarinnar.

Stjórnvöld í Póllandi gera nú aðför að rétti konunnar til að rjúfa þungun—eða láta eyða fóstri. Svipuð pólitísk umræða vofir sífellt yfir Bandaríkjunum líka. Í gegnum tíðina hef ég haft skilning á ýmsum sjónarmiðum í þessum efnum, og hef með semingi hallast undir frjálslyndi þótt hjarta mitt hafi slegið með íhaldsseminni. Það var ekki fyrr en ég horfði á þessa óhugnanlegu þætti sem mér fannst ég fá raunverulega innsýn í það hvað málið snýst um. Fyrir margar konur er þetta óyndisúrræði líklega ein mikilvægasta stoð raunverulegs frelsis þeirra og valds í aðstæðum þar sem þeim getur ætíð staðið ógn af ofurefli í kringum sig. Það er því ekki skrýtið að tugþúsundir taki áhættuna á því að smitast af covid og safnist á götur og torg í Póllandi til að reyna að verja þessi réttindi. Ég stend við hlið þeirra í anda og myndi glaður taka þá stöðu með eða án grímu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.