Þegar stórt er spurt

Andspænis erfiðum spurningum, og raunar hvaða spurningum sem er, viljum við fæst standa á gati. Spurningar, einkum hinar erfiðari, eru þess eðlis að þær lýsa í gegnum okkur, opinbera alla okkar veikleika og gera okkur berskjölduð.

Við þessar aðstæður freistumst við til þess að svara með óræðum hætti. Við sem höfum tekið munnlegt próf í þýsku vitum að sjálfsbjargarviðleitnin gerir það verkum að fyrsta viðbragð að þæfa málin, spyrja á móti, reyna að drepa á dreif þegar við stöndum á gati.

Það er við akkúrat slíkt tilefni sem einhverjum hefur einhvern tímann dottið í hug að svara erfiðri spurningu á þann hátt að segja: Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Og sá sem spurði hefur vafalítið tekið tilsvarið gott og gilt endar hljómar það fáránlega vel. Það er eins konar qed tilsvaranna, þarf ekki ræða meira. Engar viðbótarspurningar, útrætt mál.

Tungumálið og blæbrigði þess verða seint ofmetin. Þeir sem valdi ná á þessu óstýriláta tryppi öðlast eins konar frípassa í mannlegum samskiptum. Fæstir vita hvað viðkomandi er að segja en hljómfallið og hrynjandin er slík að ekki þarf frekari vitnanna við.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.