Það verður bráðum ótrúlega langt síðan í dag

Ég var staddur á heimili æskuvinar míns þann 9. nóvember árið 1989 þegar við kveiktum á sjónvarpinu og horfðum á Berlínarmúrinn falla. Heimsmynd fjórtán ára pilts var skýr; góða liðið hafði unnið, frelsið sigraði helsið.

Síðan eru liðin rétt rúmlega þrjátíu ár. Manni finnst þetta í raun ekki svo langur tími. Einhvern finnst manni að þessir atburðir ættu að hafa meiri áhrif á samfélög okkar en þeir gera. Manni finnst þessi lærdómur hafa glatast ótrúlega hratt.

Það er sérstakt að hugsa til þess að þegar Deiglan hóf göngu sína 3. febrúar 1998 voru bara rétt rúmlega átta ár liðin frá falli Berlínarmúrsins.

Allt er þetta jú afstætt. Þegar ég fæddist í maí árið 1975 voru einmitt 30 ár liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Ég er ekki viss um að þá hafi sérstaklega verið horft til lexíu seinni heimsstyrjar, mesta heildarleiks mannkynssögunnar, í dagsins önn. Þetta var jú mjög langt síðan, eins og fall Berlínarmúrsins er í dag.

Í dag stöndum við í alvörunni frammi fyrir því að lýðræðið er dregið í efa og kostir einræðis eru metnir á pari við kosti þess samfélags sem tókst að reisa úr rústum síðari heimsstyrjaldar og verja allt kalda stríðið. Hið sama gildir um réttarríkið. Það virkar bara ekki nægilega vel fyrir þá heimatilbúnu réttlætiskennd sem ríður röftum hvert sem litið er í samfélaginu í dag.

Frelsið sem þá var barist fyrir var ekki síst hugmyndin um réttarríkið þar sem enginn er sekur fyrr en sekt sannast. Í þeirri hugmynd felst hin eina raunverulega vörn gegn fasískum stjórnarháttum eða fasískum öflum.

Heimsmyndin, jafnvel í túnfætinum heima, getur breyst hratt og við skulum muna að eftir þrjátíu ár verður ótrúlega langt síðan í dag.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.