Þá hefði hún örugglega fengið kreppuna

Þegar öllu er á botninn hvolft snúast efnahagsmál um hið daglega líf fólks.

Flest eigum við erfiðar minningar úr hruninu 2008, en meira að segja á erfiðum stundum verða stundum til fallegar minningar. Þann vetur man ég eftir því að hafa átt samtal við unga dóttur mína sem sýndi mér annars vegar skynjun barns á því sem þá var að gerast og opnaði um leið augu mín fyrir því að lítil börn skynja það auðvitað og finna þegar áföll verða. Á þeim heimilum þar sem nú eru áhyggjur eftir atvinnumissi eða tekjumissi þá fara þær ekki fram hjá börnunum. Það undirstrikar mikilvægi þess að ræða áföll eins og þessi við börn.

Samtalið við litlu dóttur mína varð eftir að við höfðum farið í bankann einn daginn. Þar hittum starfsmann bankans sem var mamma leikfélaga hennar. Við spjölluðum við konuna stutta stund en eftir að hafa kvatt konuna sagði dóttir mín: „Það er gott að Íslandsbanki fór ekki á hausinn og að mamma hans Arnars missti ekki vinnuna.“ Dóttir mín virtist fanga alvöru þess að missa vinnuna. Ég fann um leið að ég átti erfitt með að segja henni frá því að þessi banki hefði alls ekki sloppið alveg við það að fara á hausinn. Ég brást við þess í stað við með því að taka undir með henni, að það væri gott að mamma hans Arnars hefði ekki misst vinnuna. Það gerðu jú svo margir því miður á þessum tíma. 

Dóttir mín svaraði hugsi: „Já, því þá hefði hún örugglega fengið kreppuna“.

Í huga barnsins var samhengi hlutanna að þeir sem misstu vinnuna fengu kreppuna. Það er reyndar ekki alveg galið samhengi. Mér fannst það góð hugsun hjá litlu barni.

Árið 2020 var eðli kreppunnar einmitt á þessa leið. Þetta er nefnilega atvinnuleysiskreppa. Kostnaður við efnahagsáfallið vegna kórónuveirunnar hefur lagst mjög ójafnt á samfélagið. Fyrri kreppur hér innanlands hafa oftast birst í veikingu krónu og verðbólgu, sem hefur í för með sér að kaupmáttur okkar flestra rýrnar. Nú kemur efnahagslegt áfall hins vegar fram með ójafnari hætti. Eftirspurnin hvarf auðvitað nánast alfarið á ákveðnum sviðum með þungum og dramatískum  áhrifum á fyrirtæki og fólk í þeim atvinnugreinum. Á meðan eru aðrir í samfélaginu sem finna minna og jafnvel lítið fyrir efnahagslega áfallinu. Kaupmáttur þeirra sem ekki hafa áhyggjur af atvinnumálum hefur í mörgum tilvikum batnað og kostnaður vegna húsnæðislána lækkað.

Í upphafi nýs árs eru atvinnuleysistölur hærri en íslenskt samfélag á að venjast og ljóst að nokkuð er í land. Bóluefni sem er forsenda þess að samfélagið nái bata er að farið að berast, en hægar en væntingar voru um. Bóluefni er forsenda þess að fólk fari að ferðast að nýju, að fólki verji tíma sínum og tómstundum eins og það er vant, með þeim venjum og neysluháttum sem eru nauðsynlegir til að eftirspurn myndist að nýju og hjóllin fari að snúast.

Þegar öllu er á botninn hvolft snúast efnahagsmál um hið daglega líf fólks. Í upphafi þessa ástands þá einkenndi samkennd og samhugur viðbrögð samfélagsins. Saman ætluðum við að fara í gegnum þetta. Það sama á að gilda um efnahagslegar afleiðingar áfallsins, að við ætlum sem samfélag að fara saman í gegnum erfitt tímabundið ástand. Við eigum að veita þeim sem fá kreppuna svigrúm til að standa ástandið og þungt högg af sér. Verkefni ársins 2021 er enn hið sama og ársins 2020; að veita fólki, fyrirtækjum og raunar ákveðnum greinum svigrúm til að lifa af efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs. Með því verður viðspyrna samfélagsins bæði möguleg og kraftmeiri þegar hjólin fara að snúast að nýju. Verkefni ársins 2021 um leið að vera það að leggja grunn að því að næsti kafli í sögu þjóðarinnar verði annar og betri. Á næstu árum verður lykilspurning stjórnmálanna svo hvernig auka á verðmætasköpun og hver framtíðarsýnin er fyrir Ísland.

Hvernig viljum við sjá Ísland dafna og vaxa sem samfélag?

Latest posts by Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (see all)

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Obba hóf að skrifa á Deigluna sumarið 2001.