Svikalogn krónunnar

Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað hratt á síðustu dögum. Óveðurský hrannast upp og versnandi horfur hafa veikt útflutningsgreinar okkar og þar með undirstöður íslenska hagkerfisins. Við Íslendingar erum nokkuð vanir þessum sveiflum. Krónan hefur verið eins og lauf í vindi í þeim aðstæðum sem upp hafa komið hverju sinni undanfarna áratugi.

Gengi íslensku krónunnar hefur lækkað hratt á síðustu dögum. Óveðurský hrannast upp og versnandi horfur hafa veikt útflutningsgreinar okkar og þar með undirstöður íslenska hagkerfisins.

Við Íslendingar erum nokkuð vanir þessum sveiflum. Krónan hefur verið eins og lauf í vindi í þeim aðstæðum sem upp hafa komið hverju sinni undanfarna áratugi.

Síðasta ár skar sig þó úr. Þó að krónan veiktist um 3%, meðal annars vegna falls WOW og aflabrests, hreyfðist gengi hennar sögulega lítið. Við Íslendingar fengum því nasasjón af því hvernig það er að búa við stöðugan gjaldmiðil. 

Sterk staða þjóðarbúsins í sögulegu samhengi ásamt almennt lægri skuldum áttu sinn í þátt í þessum stöðugleika. Þó skipti einnig miklu máli að Seðlabankinn greip nokkrum sinnum til þess ráðs að koma í veg fyrir veikingu krónunnar með því að taka beinan þátt í gjaldeyrismarkaðnum. 

Gjaldeyrisforði og kaup á krónum til að koma í veg fyrir mikla veikingu var eitt af þeim ráðum sem Seðlabankinn beitti til að dempa stórar hreyfingar þegar íslenska hagkerfið stóð á brauðfótum eftir fall bankanna. 

Annar fylgifiskur hrunsins var bann á stöðutöku í krónunni. Komið var í veg fyrir að spákaupmenn gætu veðjað á gengið enda voru háværar raddir í þjóðfélaginu sem sögðu ótækt að hægt væri að veðja gegn íslensku atvinnulífi eins og það var orðað.  Jafnframt var talið að um væri að ræða kvikt fé sem gæti ýkt sveiflur og grafið undan stöðugu verðlagi. 

Þessar aðgerðir áttu það sameiginlegt að auka inngrip ríkisins í markað með krónur og minnka svigrúm og umsvif  einkaaðila í viðskiptum með gjaldmiðilinn.

Þó svo að kostir stöðugs verðlags séu ótvíræðir er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart ókostunum sem fylgja þessum auknu inngripum.

Slíkt fyrirkomulag byggir á mati embættismanna á hagstærðum í stað þess að leyfa kvikum opnum markaði að bregðast við nýjustu fréttum í rauntíma. Þessi staða getur leitt til þess að ójafnvægi myndast í verðlagningu sem getur haft slæm áhrif á alþjóðlega samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. 

Handstýring byggir að miklu leyti á því að Seðlabanki Íslands meti það rétt hvar gengi krónunnar eigi að liggja. Því gefur augaleið að sjálfstæði Seðlabankans er lykilatriði og mikil hætta á því að þrýst verði á kjörna fulltrúa að skipta sér af gengisþróun, t.d. til að styðja við útflutningsgreinarnar eða bregðast við meira atvinnuleysi. 

Eins hefur það sýnt sig að bann við spákaupmennsku hefur leitt til þess að lítil viðskipti eru á bak við hreyfingar gjaldmiðilsins sem takmarkar möguleika þeirra sem vilja eða þurfa að kaupa eða selja krónur í miklu magni. Lítil velta á millibankamarkaði allt síðasta ár er til marks um það. Jafnframt er komið í veg fyrir að markaðurinn gefi vísbendingar um þróun efnahagsmála og stuðli að eðlilegri verðmyndun vegna þeirra aðstæðna sem koma upp. 

Lítill seljanleiki ásamt takmarkaðri þátttöku fjárfesta í gjaldeyrismarkaðnum getur leitt til þess að erlendar fjárfestingar í íslensku hagkerfi verði minni en annars væri. Erfitt gæti reynst að taka stórar fjárhæðir út úr landinu  vegna þess hve takmörkuð þátttaka er á gjaldeyrismarkaði. 

Þó svo að vel hafi gengið að halda genginu stöðugu er lítil þátttaka fjárfesta vís til þess að auka sveiflur til lengri tíma, auka kostnað viðskipta og áhættuþóknun fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi.

Ígrip Seðlabankans minna jafnframt ískyggilega á að stutt er síðan að eignir erlendra fjárfesta voru læstir inn í landinu. Í stað þess trúa því að íslenskur gjaldeyrismarkaður byggi á gagnsæjum og sanngjörnum reglum, þurfa markaðsaðilar að taka tillit til þess að Seðlabankinn getur tekið gerræðisákvarðanir á hverri stundu.  

Því þarf ekki að koma á óvart að erlend fjárfesting hafi verið lítil á Íslandi. Hún hefur farið minnkandi undanfarna mánuði þrátt fyrir sterka erlenda stöðu þjóðarbúsins og batnandi stöðu ríkisins á lánamörkuðum. 

Þó svo að ágætlega hafi gengið að halda verðlagi stöðugu síðustu mánuði eru teikn á lofti um að viðvarandi veiking krónunnar sé í kortunum. Seðlabankinn hefur réttilega metið að raungengi hennar væri of sterkt í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í útflutningsgreinunum og leyft henni að veikjast.  Þó hefur hann gripið inn reglulega síðustu daga í viðleitni sinni til að minnka sveiflur í þeirri leiðréttingu sem þarf að eiga sér stað.

Þó svo að litlar sveiflur og stöðugt verðlag séu góð markmið í sjálfu sér helgar tilgangurinn ekki meðalið. 

Þessi inngrip og handstýring geta veikt hagkerfið til lengri tíma, komið í veg fyrir traust og gagnsæi sem heilbrigðir markaðir byggja á og skert samkeppnisstöðu okkar gagnvart þróaðri hagkerfum .

Því má segja að svikalogn hafi ríkt á markaði með íslenskar krónur.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.