Sviðsmyndin sem enginn bjóst við

Það er óvíst hvernig heimsfaraldurinn þróast og hvenær hægt verður að taka á móti erlendum gestum aftur í þeim mæli sem við gátum. Við sem hér búum höfum þó tækifæri á að leggja okkar lóð á vogaskálarnar.

Ef einhver hefði sagt okkur að ferðafrelsi okkar yrði skert árið 2020 þá hefðum við hugsað um hryðjuverk eða jafnvel eldgos. Ekki að megnið að árinu yrði undirlagt af ósýnilegum skaðvaldi sem færi um heiminn eins og eldur í sinu og drægi yfir milljón manns til dauða. Það varð nú samt raunin. Hvað þá að við þyrftum að spritta oft á dag og vera með andlitsgrímur. Það varð líka raunin.

Á þeim rúma áratug sem liðinn er frá Eyjafjallagosinu nýttu Íslendingar tímann vel og byggðu upp öfluga ferðaþjónustu eftir bankahrunið. Allt í einu vissi öll heimsbyggðin af eyju norður í Atlantshafi og við gátum nýtt okkur það. Lán í óláni þetta eldgos.

Árið 2016 var kynnt skýrsla á vegum KPMG um sviðsmyndir ferðaþjónustunnar og framtíðarstarfsumhverfi hennar árið 2030. Skýrslan var unnin fyrir Stjórnstöð ferðamála enda íslensk ferðaþjónusta orðin ein helsta atvinnugrein þjóðarinnar ásamt sjávarútvegi á þessum tíma. Framlag ferðaþjónustunnar til þjóðarbúsins vó þungt. Markmiðið var að ná tökum á atburðarrásinni og leggja traustan grunn svo þróunin yrði bæði farsæl og sjálfbær.

Í áðurnefndri skýrslu KPMG voru dregnar upp fjórar sviðsmyndir um þróun ferðaþjónustunnar til ársins 2030. Þessar sviðsmyndir sýndu að íslensk ferðaþjónusta gæti þróast í ólíkar áttir. Þar var tekið fram að bæði ákvarðanir og aðgerðir gætu haft áhrif og einnig að ófyrirséðir atburðir gætu vissulega haft áhrif – „hver væri þó sinnar gæfu smiður“.

Það skal tekið fram að sviðsmyndir eru ekki framtíðarsýn, spá, stefna eða framreikningur. Heldur eru þær aðferð til að skilja umhverfið og skapa sameiginlegan skilning á því hvað rétt sé að gera í dag til að undirbúa framtíðina.

Þær fjórar sviðsmyndir sem dregnar voru upp í skýrslunni og lýstu framtíðarumhverfi ferðaþjónustunnar með mismunandi þróun óvissuþátta.

  1. „Niceland“: Besta mögulega sviðsmyndin. Svigrúm í þolmörkum og Ísland samkeppnishæft. Í þessari sviðsmynd eru allir innviðir samfélagsins vel í stakk búnir til að taka á móti og standa undir aukningu ferðamanna. Aðgangsstýring er eins og best verður á kosið og ímynd Íslands er jákvæð.
  2. Ferðamenn  – nei takk: Hér er spennan í þolmörkum en landið ennþá samkeppnishæft. Fjöldi ferðamanna hefur þó sprengt af sér veikar grunnstoðir ferðaþjónustunnar en landið er enn um sinn vinsæll áfangastaður.
  3. Laus herbergi: Svigrúm er í þolmörkum og Ísland ekki lengur samkeppnishæft. Nýjabrumið er farið af Íslandi og ferðamönnum fer fækkandi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað en horfur eru á því að afkastagetan sé langt umfram eftirspurn.
  4. Fram af bjargbrúninni: Spennan er í þolmörkum og landið ekki lengur samkeppnishæft. Orðspor Íslands sem áfangastaðar fer versnandi og innviður samfélagsins eru að hruni komnir eftir mikla ásókn ferðamanna.

Fimmta sviðsmyndin

Engan hefði órað fyrir því fyrir fjórum árum að sú sviðsmynd sem við blasir núna yrði raunin.

Seinnihluti skýrslunnar er áhættugreining þar sem þættirnir voru skilgreindir og metnir með könnunum og viðtölum við hagsmunaaðila. Þessir þættir fengu svo stig eftir því hversu miklar líkur voru á að þeir hefðu áhrif. Niðurstöðurnar voru þær að mestu áhyggjurnar voru af neikvæðu viðhorfi heimamanna, of margt fólk á vinsælum stöðum og lág gæðaviðmið. Langfæst stig fengu þættirnir; náttúruhamfarir, ótti við ferðalög og hertar reglur um ferðafrelsi.

21.750 eru atvinnulausir í dag. Þetta eru tölur frá því í lok september. Búast má við að þessi tala hækki enn frekar við næstu samantekt Vinnumálastofnunar þegar hún verður birt í lok október. Þetta er hryggileg staða. Í raun skelfileg.

Langflestir sem misst hafa vinnuna unnu í ferðaþjónustu. Það er verðugt verkefni næstu misseri að koma hjólunum aftur af stað. Nú þegar hefur verið unnið markaðsátak eins og Ísland – saman í sókn og var árangur þokkalegur að mati þeirra sem að verkefninu stóðu. Þetta var þó aðeins hluti af víðtækum efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn Covid-19. Það er mikilvægt að byggja upp ferðaþjónustuna á nýjan leik og eru næstu aðgerðir stjórnvalda í fullum gangi.

Þau eru verðug verkefnin næsta áratug að koma megin atvinnugrein þjóðarinnar aftur af stað. Það er mikið undir, ekki aðeins störf og rekstur ferðaþjónustuaðila heldur afkoma heillar þjóðar. Við tilheyrum hringrás sem knýr hagkerfið okkar. Þetta á í raun við um alla þjónustu. Nú dugar skammt að „hver sé sinnar gæfu smiður“ fyrir aðila ferðaþjónustunnar.

Það er óvíst hvernig heimsfaraldurinn þróast og hvenær hægt  verður að taka á móti erlendum gestum aftur í þeim mæli sem við gátum. Við sem hér búum höfum þó tækifæri á að leggja okkar lóð á vogaskálarnar og haldið hjólunum áfram gangandi.

Það er ekki ólíklegt að við næstu sviðsmyndavinnu í ferðaþjónustu munu þættir eins og náttúruhamfarir, ótti við ferðalög og hertar reglur um ferðafrelsi örugglega vega töluvert þyngra.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.