Stúlkan sem starir á hafið

Undirstöður velmegunar á Ísland eru hin gjöfulu fiskimið í kringum landið. Aldir liðu, raunar heilt árþúsund, áður en við bárum gæfum til að búa til alvöru verðmæti úr þessari miklu auðlind. Öflug sjósókn, lengra og dýpra, skipti þar sköpum en hún var ekki án fórna.

Til allrar mildi eru sjóslys og mannskaðar fátíðir á Íslandsmiðum nú um stundir. En það er í raun ótrúlega stutt síðan sjóslys voru tíð og mannslífin sem töpuðust talin í tugum ár hvert. Á árunum 1959-1968 fórust 264 í sjóslysum hér við land. Frá 1969 til 1978 var fjöldi þeirra sem drukknuðu eða fórust með öðrum hætti í sjóslysum við Íslandsstrendur 173 og næsta áratuginn þar á eftir voru þeir 122.

Á níunda áratugnum verða kaflaskil og fækkar sjóslysum jafnt og þétt fram á okkar daga. Helstu ástæður fyrir þessari fækkun sem nefndar hafa verið eru betri skip og eftirlit, betri þjálfun sjómanna með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna, tilkoma vaktstöðvar siglinga, efling Landhelgisgæslunnar, tilkynningaskylda íslenskra skipa sjómanna, árangur af öryggisáætlun sjófarenda og aukin öryggisvitund meðal sjómanna og útgerða.

Eitt atriði er ótalið en það hefur ekki síst stuðlað að fækkun slysa. Árið 1983 var tekið upp kvótakerfi hér á landi. Með því fyrirkomulagi dró mjög úr sjósókn í vondum veðrum, enda afkastageta flotans svo mikil að ekki þurfti að róa stöðugt til að ná leyfilegum heildarafla. Þannig var hægt að sækja aflann þegar betur viðraði og draga úr hinum sára fórnarkostnaði við fiskveiðar.

Flest okkar sem alin eru upp í sjávarplássum þekkjum einhvern eða erum skyld einhverjum sem farist hefur á sjó, drukknað og jafnvel ekki fundist. Það er eflaust erfitt að gera sér í hugarlund þá tilfinningu að vita af ástvinum úti á sjó á vonskuveðri, að bíða milli vonar og ótta, og standa svo frammi fyrir því að það sem maður óttaðist dag gæti gerst er veruleikinn.

Blessunarlega er á ný farið að tala um Sjómannadaginn og vonandi aflagt hugtaksskrípið Hátíð hafsins. Sjómannadaginn á að halda hátíðlegan á hverju ári, ekki síst til heiðurs þeim sem aldrei snéru aftur og ástvinum þeirra.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.