Sóttkví, hvar ertu?

Fyrir ári síðan, í heimavinnu, með börnin sem lifandi bakgrunn á Teams fundum, var ég uppfull af baráttuþreki gagnvart veirunni eins og flestir landsmenn á þeim tíma. Allt snerist um að þrauka fram á sumar, vernda viðkvæma hópa, fletja út kúrfuna og verja heilbrigðiskerfið. Við horfðum fram á betri tíð með blóm í haga.

Síminn minn er sífellt að minna mig á skemmtilegri tíma en þá sem ég lifi núna, þökk sé Google Photos. Ferðalög, samvera með fjölskyldu og djamm með vinum og allt annað skemmtilegt sem ekki má gera núna. Í mars minnti hann mig á að þá var eitt ár síðan ég tók rúmlega 10 daga sóttkví ein með börnin mín tvö. Sú minning var því ofarlega í huga mér þegar ég horfði á stuttmyndina Sóttkví á RÚV um páskana.

Myndin segir frá þremur vinkonum sem eru allar í sóttkví eftir að hafa mætt í Hot Yoga tíma á Seltjarnarnesi. Ein af þeim er með börnin sín heima í sóttkví, önnur er nýskilin og á fullu að spjalla við karlmenn á stefnumótaforritum og sú þriðja er með nýjum kærasta að njóta lífsins í sóttkví. Með hverjum deginum minnkar svo gleðin í sóttkvínni svo úr verða sprenghlægilegar senur. Mæli mjög með þessari skemmtilegu mynd sem fangar vel lífið í sóttkví.

Fyrir ári síðan, í heimavinnu, með börnin sem lifandi bakgrunn á Teams fundum, var ég uppfull af baráttuþreki gagnvart veirunni eins og flestir landsmenn á þeim tíma. Allt snerist um að þrauka fram á sumar, vernda viðkvæma hópa, fletja út kúrfuna og verja heilbrigðiskerfið. Við horfðum fram á betri tíð með blóm í haga.

Ég tók þessa sóttkví fyrir ári síðan því algjörlega með trompi og hver dagur var settur upp með góðu skipulagi sem börnin þekktu frá skóla og leikskóla. Skipulag dagsins var hengt upp á vegg þannig að öll vissu hvað var næst á dagskránni. Út um alla íbúð voru sett upp valsvæði sem voru afmörkuð með hvítu málningarlímbandi. Þar var að finna kubbakrók, föndurkrók, skólakrók, perlukrók, sullukrók og ýmislegt fleira. Reglulega yfir daginn voru haldnir valfundir þar sem börnin völdu leiksvæði og léku þar í 30-40 mín í einu. Þess á milli voru matartímar, íþróttatímar og útivera einu sinni á dag. Uppáhaldstími dagsins hjá mér var svo „háttatími“. Mér fannst ég vera hetja þegar sóttkvínni lauk og vera búin að leggja mitt af mörkum í baráttunni við veiruna.

Upplifun barnanna af sóttkvínni var talsvert öðruvísi en mín en í stuttu máli þá fannst þeim þetta geggjað og voru því hæstánægð þegar nokkrum mánuðum síðar við þurftum aftur að fara í sóttkví. Baráttuþrekið hjá mér var þó talsvert minna. Við settum upp sama skipulag og fylgdum því eftir bestu getu en krafturinn til að fylgja því eftir var minni hjá mér og einnig hjá börnunum, þrátt fyrir spennu í upphafi. Sem betur var sóttkvíin í það skipti bara fimm dagar þannig að við náðum að halda skipulagið út. Minningar barnanna um þennan tíma eru samt þannig að þau rifja reglulega upp hvað var gaman í sóttkví og spyrja hvenær við getum nú farið aftur í sóttkví.

Ári síðar er baráttuþrekið á þrotum. Ef ég yrði skikkuð í sóttkví núna, myndi ég örugglega bara leggjast undir sæng með snakkpoka og rétta börnunum snjalltæki. Flest finnum við fyrir þessari endalausu þreytu gagnvart veirunni og að lífið sé hreinlega „á bið“. Ég, líkt og fleiri, sit enn og aftur á heimaskrifstofunni en fagna því að börnin mín geti mætt í leikskóla og skóla og að við séum þrátt fyrir allt, ekki í sóttkví. Litlu sigrarnir.

Um daginn var sonur minn að leika mömmu sína, eins og börn gera gjarnan. Hann settist við fartölvuna á borðstofuborðinu og pikkaði á hana, setti á sig heyrnartólin og sagði „Uss, ég er á fundi“. Þetta verða minningar barnanna frá þessu furðulega ári sem stefnir í að vera lengsta ár í manna minnum.

En eins og við þekkjum þá gerir fjarlægðin gjarnan fjöllin blá og við það að rifja upp þennan tíma í sóttkví í fyrra með börnin mín, er hann byrjaður að sveipast ákveðnum fortíðarljóma. Þetta var nú ansi gott skipulag sem ég var með. Það var nú nokkuð gaman að rölta með þeim í útiverunni og telja bangsa í gluggum. Ég var líka ansi góð í að stýra valfundum og búa til ný leiksvæði. Var ekki þreytan sem ég fann fyrir á kvöldin bara ánægjuþreyta eftir vel heppnaðan dag? Var þetta ekki bara yndislegur tími eftir allt saman?

Er þetta kannski það sem ég þarf núna?

Bara ein góð sóttkví til að keyra upp baráttuþrekið fyrir síðustu mánuðina af baráttunni áður en bólusetningar eru í höfn?

Eða ætti ég að fara varlega í hvers ég óska mér?

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.