Skynsamleg skref til glötunar

Helsið er fljótt á litið skynsamlegri kostur en frelsið. En vandinn við helsið umfram frelsið er sá – ólíkt því sem flestir halda – að það kann sér ekki hóf.

Lögreglan er á því að minna sé um al­var­leg lög­reglu­mál í miðbæn­um eft­ir að opn­un­ar­tími veit­inga- og skemmti­staða var stytt­ur vegna Covid-19. Þessu verður ekki á móti mælt. Frelsið er vandmeðfarið og margvísleg tölfræði er líkleg til vera mun jákvæðari ef helsi væri meginreglan.

Mér varð það orði á dögunum þegar ég sætti útgöngubanni á hóteli erlendis, einmitt vegna Covid-19, að margt hefði líklega farið á betri veg ef manni hefði verið meinuð útganga eftir klukkan 22 á kvöldin. Þessi tilgáta tekur reyndar mið af svona vísitölugildismati sem almennt setur gildi þess að lenda í ævintýrum neðar á kvarðann en gildi þess að forðast vesen og vandræði.

Út frá allri almennri skynsemi er alveg ótrúlega heimskulegt hjá fólki að fara í bæinn seint á föstudagskvöldi, örþreytt eftir langa vinnuviku, hella í sig af kappi fram undir morgun og búast við því að ekkert fari úrskeiðis. Að þessu leyti hefur lögreglan rétt fyrir sér, best væri að þessu leyti að fólk skemmti sér með öðrum hætti og meira í ætt við það sem við höfum vanist í kófinu.

Helsið er ólíkt frelsinu að því leyti að það venst og vinnur á. Frelsið minnir á vorið, við tökum því opnum örmum, hlaupum út og áður við vitum er okkur orðið kalt og viljum fara aftur inn. Helsið er sófinn heima og rigningin úti, heimsendur matur og smám saman engin ástæða til að taka áhættuna á því að fara út.

Helsið er fljótt á litið skynsamlegri kostur en frelsið. En vandinn við helsið umfram frelsið er sá – ólíkt því sem flestir halda – að það kann sér ekki hóf. Það vindur upp á sig og teygir sig sífellt lengra. Hömlur á opnunartíma verða fljótt að annars konar stýringu. Hvert einasta skref er „skynsamlegt“ og erfitt að andmæla. Þannig tapast frelsið smám saman, í ótalmörgum skynsamlegum skrefum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.