Skuldaleiðréttingin nýtt

Rafræn skilríki hafa verið mikið í umræðunni undanfarið þar sem ætlast er til að einstaklingar noti þau til að samþykkja eða synja skuldaleiðréttinguna. Mikil óánægja var vegna kostnaðarins við skilríkin og fannst mörgum einkennilegt að ríkið skildi skuldbinda fólk til að eiga viðskipti við fyrirtækið Auðkenni sem er í eigu einkaaðila til að sækja sér opinbera þjónustu.

Sjálf vann ég við að undirbúa innleiðingu rafrænna skilríkja á debitkortum fyrir fjármálastofnun og verður að viðurkennast að sú lausn var engann veginn einfaldari en þær lausnir sem bankarnir höfðu komið sér upp með t.d. innskráningu í einkabanka með sms-i eða skatturinn sem sendir manni aðgangsorðið í netbankann en þau voru kannski betri útfærsla en Auðkennislykillinn en það má deila um það. Vandræðin við rafrænu skilríkin á debitkortum voru þau að ferlið var of flókið og lausnin var ekki betri en sú sem fyrir var. Fólk þurfti að fara í bankann og láta virkja skilríkin ásamt því skrifa undir yfirlýsingu að það gerði sér grein fyrir því að það væri rafrænt skilríki á debitkortinu sínu. Í kjölfarið þurfti það að leggja á minnið eitt stykki pinn númer og annað stykki puk númer sem viðkomandi fékk á blaði sem hann mátti alls ekki týna. Í þriðja lagi þurfti viðkomandi að kaupa kortalesara og tengja við tölvuna sína. Þetta var fullkomlega óraunhæft og of flókið. Í fyrsta lagi gengur enginn með kortalesara á sér og í öðru lagi er óraunhæft að vera með tvö leyninúmer, fyrir utan að enginn skildi tilgang PUKsins.

Breytt samskipti 

Öðru máli gegnir um rafræn skilríki í símanum. Sjálf er ég búin að sækja mér þau og finnst þetta vera frábær lausn. Ég trúi því að þetta eigi eftir að breyta því á svo margan hátt um hvernig við eigum samskipti við opinberar stofnanir og einkafyrirtæki.

Þau leysa raunverulegt vandamál með mjög einföldum hætti. Notast er við nútímatækni til að leysa flókin öryggismál sem tengist auðkenningu einstaklinga. Ferlið virkar þannig að þegar búið er að virkja skilríkin í símanum í bankastofnun er eftirleikurinn auðveldur, aðeins þarf að slá inn símanúmer og fjögurra stafa lykilorð sem einstaklingurinn velur sjálfur til að auðkenna sig gagnvart á annað hundrað stofnunum og fyrirtækjum s.s. fjármálafyrirtækjum, sveitarfélögum, fyrirtækjum, ríkisstofnunum o.s.frv. Jafnframt þurfa einstaklingar ekki að greiða fyrir rafræn skilríki í símanum.

Ég tel að þeim fyrirtækjum og stofnunum sem taka við rafrænum skilríkjum muni fjölga ört á næstu árum og að þessi aðferðafræði muni hafa mikla hagræðingu í för með sér. Með rafrænum skilríkjum geta einstaklingar undirritað samninga á netinu sem sparar bæði tíma og peninga og fyrir utan að vera umhverfisvænna. Það þarf t.d. ekki þarf að prenta út pappír í mörgum eintökum. Jafnframt gæti þetta lágmarkað mönnun á skrifstofum og opnunartíma líkt og gerst hefur við netvæðingu bankasamskipta.

Skuldaleiðréttingin nýtt til innleiðingar rafrænna skilríkja

Þetta var auðvitað spurning um hænuna og eggið en nú hefur ríkisstjórnin tekið forystu með þetta mál með því að nýta skuldaleiðréttinguna við innleiðingu rafrænna skilríkja sem mun væntanlega leiða til almennrar notkunar einstaklinga á skilríkjunum og þá er bara að sjá hvort að aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki innleiði móttöku rafrænna skilríkja.

*Auðkenni var stofnað árið 2000 og er í eigu bankanna þriggja Arion, Íslandsbanka, Landsbankans ásamt Símans og Teris.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.