Skrifað í stjörnurnar

„Kysstu mig“ sagði hún og horfði djúpt í augu hans. Hjartað sló örar undir stjörnubjörtum himninum og tíminn stóð í stað. Eftir nokkra stund litu þau upp. Stjörnuhrap lýsti upp veröldina. Þau tóku bæði andköf.

Kysstu mig“ sagði hún og horfði djúpt í augu hans. Hjartað sló örar undir stjörnubjörtum himninum og tíminn stóð í stað. Eftir nokkra stund litu þau upp. Stjörnuhrap lýsti upp veröldina. Þau tóku bæði andköf. Svo gerðist hið ótrúlega. Annað stjörnuhrap dró bjarta línu í Vetrarbrautina. Líkt og staðfesting á að framtíðin væri þeirra. Að biðin endalausa eftir þessari stundu hafi verið rétt. Fast á eftir fylgdi hins vegar þriðja hrapið og stuttu seinna virtist glitta í það fjórða.

Þar með varð ljóst að elskhugarnir í þessari sögu störðu ekki á stjörnurnar, heldur á markaðsvæðingu geimsins (e. commercialization of space). Hér var um að ræða dansandi gervitungl Elon Musk og Amazon um himinhvolfið, aðilum sem fjárfest hafa milljörðum í geimnum. Þegar eru 2800 gervitungl á sveimi, flest sem tilheyra Bandaríkjunum, og er mikilli fjölgun á vegum einkageirans spáð. Það er einnig töluvert algengt að þau séu tekin í misgripum fyrir stjörnur og stjörnuhröp ef marka má vefmiðla hið ytra.

Þessi þróun hefur margs konar kosti í för með sér. Myndir úr gervitunglum eru ómetanlegur þáttur í vísindamælingum t.d. til að skilja betur áhrif loftslagsbreytinga og hegðun skógarelda. Gervitungl eru einnig mikilvægur þáttur í góðum fjarskiptum, bæði á sjó og landi, og auka lífsgæði fólks sem býr utan alfaraleiðar. Þau hjálpa einnig til í eftirliti, s.s. að farið sé eftir reglum við veiðar og að vopnalöggjöf sé fylgt. Svo er geimtengd ferðaþjónusta í pípunum. Gervitungl hafa og geta semsagt bætt skilning okkar og tækifæri á margan hátt.

Markaðsvæðingunni fylgja þó ýmsar áskoranir þrátt fyrir gildandi samkomulög. Geta fyrirtæki eignað sér svæði til afnota í geimnum? Hvað með skipulagsmál í geim-innviðauppbyggingu? Hver stýrir eiginlega umferðarreglum geimsins? Er stofnun geim-lögreglu jafnvel framtíðin? Mengun og geimrusl er annað vaxandi vandamál. Þarf nú að fara að taka til í geimnum? Margar af þessum spurningum eru þegar á borði stofnana eins og NASA og Evrópsku Geimvísindastofnunarinnar og regluverkið er sífellt í mótun. Líkt og á plánetunni Jörð, þá skiptir náið samstarf einkageirans og hins opinbera, þvert á ríki, miklu máli fyrir niðurstöðuna.

Um leið og við leysum áskoranir og metum tækifærin má hins vegar velta því fyrir sér hvort rómantík komandi kynslóða felist í því að kaupa gervitungl til afnota? Að panta jafnvel „stjörnuhrap“ á Amazon prime, helst á svörtum föstudegi, fyrir tilsettan tíma? Í stað þess að bíða, vona og þrá, eins og parið hér að ofan, að ástin sé skrifuð í stjörnurnar.

Latest posts by Halla Hrund Logadóttir (see all)

Halla Hrund Logadóttir skrifar

Halla hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2020.