Skrautfjöður í hatt SKJÁSEINS

Sjónvarpsstöðin SKJÁREINN bætti enn einni skrautfjöðrinni í hatt sinn um helgina er hún sýndi beint frá Heimsmótinu í skák, sem haldið var í Salnum í Kópavogi. Mótið og útsendingin frá því tókst í alla staði mjög vel en að auki hafði DEIGLAN ákaflega gaman af viðtali Egils Helgasonar við sjálfan heimsmeistarann, Gary Kasparov.

Sjónvarpsstöðin SKJÁREINN bætti enn einni skrautfjöðrinni í hatt sinn um helgina er hún sýndi beint frá Heimsmótinu í skák, sem haldið var í Salnum í Kópavogi. Mótið og útsendingin frá því tókst í alla staði mjög vel en að auki hafði DEIGLAN ákaflega gaman af viðtali Egils Helgasonar við sjálfan heimsmeistarann, Gary Kasparov. Þar fer maður sem hvorki liggur á liði sínu né skoðunum þegar honum finnst eitthvað skipta máli. Í viðtalinu lýsti Kasparov sjálfum sér sem frjálslyndum og framsýnum kapítalista, og líklega er það hverju orði sannara. Af mörgum góðum gestum Egils, vegur Kasparov líklega einna þyngst á metunum.

En því miður hafði einungis hluti landsmanna tækifæri til að fylgjast með þessu frábæra sjónvarpsefni. Meginástæðan fyrir því er sú, að SKJÁREINN hefur ekki aðgang að s.k. VHF-rásum, heldur er hann bundinn við útsendingar á örbylgju. VHF-rásirnar fjórar eru í höndum tveggja bergrisa, sem slegið hafa eign sinni á þær á mismunandi forsendum. Annars vegar er RÚV-báknið, sem á meira að segja eina VHF-rás aukalega (svona ef RÚV II verður að veruleika) og hins vegar er það Jón Ólafsson og Íslenska útvarpsfélagið. Síðarnefndi risinn er greinilega banginn við uppgang SKJÁSEINS, eins og fréttir af frystingu auglýsinga stöðvarinnar hjá ÍÚ bera vitni um.

Til að skilja þennan ótta ÍÚ verða menn að gera sér grein fyrir því, að tilvera ríkisbáknsins á fjölmiðlamarkaði hefur verið Jóni Ólafssyni og félögum til mikilla hagsbóta, andstætt því sem ýmsir kynnu að halda. Brölt báknsins á þessum tiltölulega litla markaði hefur nefnilega haldið, og gerir að verulegu leyti enn, öðrum frá því að ógna veldi ÍÚ. Plássið hefur einfaldlega ekki verið til staðar og það kemur hvað áþreifanlegast fram í dæminu um UHF-rásirnar. Eina leiðin til að tryggja alvöru samkeppni og frumlega íslenska dagskrárgerð, er að ríkið dragi sig út af fjölmiðlamarkaðnum. Þá gætu aðilar eins og SKJÁREINN fengið að blómstra til hagsbóta fyrir alla, nema kannski einstaka hljómplötuútgefanda.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.