Skapar fegurðin hamingjuna?

Það er stundum haft til marks um grunnhyggni að hafa dálæti á því sem fallegt er. Um þetta vitna margvísleg orðatiltæki og vísdómsorð. Engu að síður er manneskjan svona innréttuð. Við sækjumst eftir því sem er fallegt frekar en því sem er ljótt.

Við viljum auðvitað frekar eiga fallegt heimili en ljótt, frekar eiga fallegan bíl en ljótan, við viljum hafa garðinn fallegan en ekki ljótan og við reynum flest að sýna okkar betri hliðar út á við af því að við teljum það skipta máli.

Af hverju koma þessir fallegu marglitu fuglar hingað?

Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Allt sem er fallegt er ekki fagurt af neinni ástæðu heldur er fegurðin eðli þess.

Guðbergur Bergsson. Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar, bls. 41.

En auðvitað er ekki fegurðin ekki allt og það er ósanngjarnt gagnvart henni að gera þá kröfu. Manneskjur hafa kosti og galla sem koma fegurð ekkert við. Sama á við um bíla og húsbúnað. Fegurð er og á að vera eftirsóknarverður eiginleiki, það er ástæða fyrir því að við erum svona innréttuð og raun ber vitni.

Fegurðin að innan þykir best og oft er flagð undir fögru skinni. Allt er þetta rétt en við eigum ekki gera kröfu til fegurðarinnar, það sem er fallegt er ekki fallegt af einhverri sérstakri ástæðu heldur er fegurðin eðli þess. Fegurðin tekur sér líka bólfestu í eiginleikum. Að vera ljúfur, auðmjúkur og skemmtilegur – allt eru þetta fallegir eiginleikar og taka ríkidæmi og velgengni fram í flestu tilliti.

Hamingjan er flókið fyrirbæri og það er ekki sanngjarnt gagnvart fegurðinni að gera þá kröfu til hennar að hún færi manni hamingju. Skapar dugnaður hamingjuna? Skapar gjafmildi hamingjuna? Skapar meðaumkun hamingjuna? Skapar vinátta hamingjuna? Hamingjan er hugarástand og ákvörðun í sjálfri sér, samsett úr alls konar þáttum. Fegurðin er ekki fyrirferðaminnsti þátturinn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.