Sjúkrahús eru ekki bönnuð

“Einungis má stunda þá atvinnu sem heimil er samkvæmt lögum. Þó getur ráðherra veitt tímabundna heimild til að stunda atvinnu sem ekki hefur verið sérstaklega leyfð með lögum, séu ríkir almannahagsmunir eru fyrir hendi.”

Svona hljómar atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar EKKI. En sumir halda að það hljómi þannig, eða myndu vilja að það gerði það.

Þegar einhver ætlar að opna einkasjúkrahús spyr fólk: “Viljum við þetta í samfélaginu okkar? Er búið að ræða þetta? Hvað finnst ráðherranum?”

Við spyrjum þessara spurninga ekki þegar einhver stofnar trúfélag. Við spyrjum þeirra ekki þegar rithöfundur gefur út bók. Við vitum vonandi að tilgangslítið er að spyrja þeirra. Það er tilgangslítið vegna þess að við búum við trúfrelsi og málfrelsi.

En á sama hátt búum við atvinnufrelsi. Svona er stjórnarskráin okkar:

“Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.”

Það þýðir að ef einhver vill gera dót sem ekki hefur verið bannað þá má það. Ef einhver ætlar að reisa vatnsleikjagarð þá þurfum við sem samfélag ekki að setjast niður og spyrja hvort “við viljum sjá svona á Íslandi” eða hvort “ráðherra styðji þetta” áður en einhver byrjar að grafa. Því þótt engin “lög um vatnsleikjagarða” eru í gildi eru vatnleikjagarðar ekki bannaðir.

Í tilfelli heilbrigðisreksturs er BÚIÐ að setja lögin. Lögin eru ekki sérlega flókin. Samkvæmt þeim að tilkynna landlækni um nýjan heilbrigðisrekstur. Landlæknir hefur eftirlit með starfseminni. Ákvarðanir hans eru faglegar ekki pólitískar. Hvorki ráðherra eða Alþingi þurfa ekki að veita neitt sérstakt leyfi fyrir nýrri heilbrigðisstofnun, sama hvort hún sé stór eða lítil.

Þeir sem vilja ekki einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hafa þann eina kost að banna hann með lögum. Ég get skilið gagnrýnina á ýmsa þætti þeirrar framkvæmdar sem nú er kynnt og jafnvel skilið þær áhyggjur að hliðarkerfi grafi undan því almenna heilbrigðiskerfi sem við höfum. En stjórnarskráin okkar leyfir okkur ekki að tækla málin á forsendum einstakra tilfella heldur þurfum við að setja reglurnar fyrirfram, og með almannahag að leiðarljósi.

Og lög sem myndu banna einkaaðilum að lækna fólk væru vond lög.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.