Sá syndlausi retweetar fyrstur

Hetjur ársins er fólk sem lætur hafa sig út í storm til að bjarga fólki sem er lent í ógöngum. Ég er að sjálfsögðu að tala um fólk sem kemur fávitum, glæpamönnum og fúskurum til varnar á netinu.

Það er ekki öfundsvert hlutverk. Þeir sem lenda í stormi, hvort sem er á hálendinu eða á netinu, geta oft að einhverju leyti sjálfir sér um kennt. Þeir fyrstu hefðu getað skoðað veðurspána betur. Þeir síðarnefndu hefðu kannski átt að sleppa því að sparka í hund í beinni útsendingu, mætt í vinnuna, eða sleppt þessu vanhugsaða tweeti.

Fólk sem kemur fávitum, glæpamönnum og fúskurum til varnar upplifir mjög mikla reiði samborgara sinna. “Ég trúi því ekki að þú sért að verja þennan viðbjóð!” “Ef þú tekur ekki út þessa færslu þá hætti ég að vera vinur þinn!”

Þessi reiði er skiljanleg. Glæpir og fúsk kalla fram reiði og ef glæpamennirnir og fúskararnir láta ekki ná í sig þá má alveg hella sig yfir sjálfskipaða staðgengla þeirra. En það er líka annað. Netið, samfélagsmiðlarnir gefa öllum ákveðið vald. Fólk verður reitt þegar einhver dregur það vald í efa. „Auðvitað má ég kasta steininum! Veistu ekki hvað þessi gaur gerði?“

En liðið sem skítur upp á bak þarf líka ást og hjálp. Segjum það nú einu sinni saman: „Fólk sem kemur fávitum, glæpamönnum og fúskurum til varnar er ekki sjálfkrafa að leggja blessun sína yfir gjörðir þeirra.” Stundum snýst þetta einfaldlega um vörn mennskunnar. Þegar þúsundir manna búnir að henda litlum netsteinum eitt stykki særða mannveru er kannski bara komið gott í bili.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.