Ríkisvaldið er ekki handhafi sannleikans

Það er fullt tilefni til að vera á varðbergi gagnvart upplýsingaóreiðu, þar reynir fyrst og fremst á upplýsingu hvers og eins. Enn meira tilefni er þó til þess að vera á varðbergi gagnvart sjálfskipuðum handhöfum sannleikans og aldrei meiri ástæða en þegar ríkisvaldið á í hlut.

Upplýsingaóreiða er hugtak sem skotist hefur upp á stjörnuhiminn pólitískrar umræðu síðustu misseri. Það þykir til marks um mikla ábyrgðartilfinningu að tala um upplýsingaóreiðu. Raunar skiptir engu máli hvaða málstað menn hafa að verja, alltaf virðast þeir sem fylgja öndverðum málstað ástunda það að koma óreiðu á upplýsingar.

Í nýlegri skýrslu vinnuhóps þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19 segir að hugtakið upplýsingaóreiða taki til þess þegar röngum eða villandi upplýsingum er dreift viljandi eða óviljandi. Þá segir að skipta megi upplýsingaóreiðu í þrennt:

  1. Í fyrsta lagi tekur hugtakið til þess þegar röngum upplýsingum er deilt án ásetnings og er ekki ætlað að valda skaða (e. mis-information).
  2. Í öðru lagi á það við um rangar upplýsingar sem deilt er af ásetningi og er ætlað að valda skaða (e. dis-information).
  3. Í þriðja lagi getur upplýsingaóreiða tekið til þess að réttum upplýsingum sé deilt og þeim ætlað að valda skaða (e. mal-information).

Ekkert er nýtt undir sólinni og svo sannarlega ekki það sem að ofan er lýst. Líklega hefur upplýsingaóreiða verið til staðar frá því að menn fóru að skiptast á skoðunum og reyndu að styðja mál sitt með einhverju því sem þeir héldu eða vildu láta viðmælandann halda að væru staðreyndir.

Í samfélagi sem byggir að meginstefnu til á upplifun en ekki staðreyndum þá er kannski erfitt að útskýra það en ágreiningsmál og önnur skoðanaskipti verða ekki til lykta leidd nema á grundvelli staðreynda. Menn geta auðvitað endlaust argaþrasað um það sem þeim finnst, og jafnvel fengið viðmælandann til að skipta um skoðun, en eigi samtal eða skoðanaskipti að leiða til einhvers konar efnislegrar niðurstöðu þurfa staðreyndir að koma við sögu.

Það sem er nýtt, og ástæðan fyrir því mörg ríki beina nú sjónum sínum að hinu forna fyrirbæri upplýsingaóreiðu, eru þeir möguleikar sem felast í nútímatækni við að valda slíkri óreiðu. Það má halda því fram að með upplýsingunni hafi í raun myndast til skamms tíma ákveðið hjarðónæmi fyrir staðhæfulausu bulli. Nógu margir vissu nógu mikið til að ekki var hægt að plata allt fólkið allan tímann, þótt hægt væri að plata alla stundum og suma alltaf. Með nútímatækni hefur þetta breyst. Ofgnótt upplýsinga hefur dregið úr almennri upplýsingu og gert hjörðina viðkvæmari fyrir þeirri veiru sem ber með sér staðhæfulaust bull.

Það er því eðlilegt að reynt sé að bregðast við því. Það sem hins vegar er hættulegt í þessari stöðu – og miklu hættulegra en upplýsingaóreiðan – eru þeir tilburðir að ríkisvaldið þurfi með einhverjum hætti að stíga inn í þessa mynd og koma skikki á upplýsingaóreiðuna.

Ríkisvaldið er ekki og má aldrei verða handhafi sannleikans, frekar en nokkur annar. Sannleikurinn er res communis, hann er almenningur, hann er sameiginleg niðurstaða í óreiðukenndum heimi, þekking sem flyst milli kynslóða og sætir gagnrýni og endurskoðun þeirrar næstu, þar til við nálgumst sannleikann án þess að geta nokkurn tímann hampað honum sem þinglýstri eign.

Það er fullt tilefni til að vera á varðbergi gagnvart upplýsingaóreiðu, þar reynir fyrst og fremst á upplýsingu hvers og eins. Enn meira tilefni er þó til þess að vera á varðbergi gagnvart sjálfskipuðum handhöfum sannleikans og aldrei meiri ástæða en þegar ríkisvaldið á í hlut.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.