Regla án hönnunar

Ég lauk nýverið við bókina “Order without Design” eftir borgarskipulagsfræðinginn Alain Bertaud. Bókin er með fróðlegri skrifum um borgarmál þótt svo hún lofsyngi ekki endilega allt sem maður hefur trúað og barist fyrir seinustu ár.

Megininntak höfundar er að líta skuli á borgir sem vinnumarkaði. Þannig hjálpar til ef þær eru sveigjanlegar og skilvirkar. Fólk þarf að geta flutt til borganna, sest þar að, fyrirtæki þurfa að geta opnað skrifstofur þar og fólk þarf að geta ferðast milli heimilis og vinnu, helst innan hálftíma.

Bertaud er þannig enginn sérstakur áhugamaður um það að tempra vöxt borgarsvæða með rauðum línum og grænum treflu. Hann gagnrýnir borgarhönnuði sem vilja þetta byggð á stærri skala en setja svo þak á hæð bygginga þegar á hólminn er komið, og hindra þannig þá þéttingu sem markaðurinn sjálfur kallar eftir. Hann tekur dæmi um hvernig landnotkunarskilnmálar hindra oft eðlilegar breytingar, til dæmis að heimili verði að gistiheimilum og öfugt, að gamall iðnaður víki fyrir nýrri byggð, að landbúnaðarhéruð breytist í úthverfi og svo framvegis.

Allt þetta telst líklegast frekar hægrisinnuð nálgun á borgarskipulag, í það minnsta markaðssinnuð. Þannig má reyndar nefna að höfundurinn er hrifinn af bílastæðagjöldum og veggjöldum, helst markaðstengdum. Enda eru gjöld skynsamlegasta leiðin til að stýra aðgangi að takmarkaðri auðlind. Ef veitingastaður er vinsæll, hækkar verðið frekar en að fólk sitji kjöltu annarra gesta.

Fróðlegasti lærdómurinn snýr að því hvernig góður vel meinandi boðskapur getur stundum haft ófyrirséðar afleiðingar og hve tamt mönnum er að vantreysta mörkuðum og bregðast við markaðsbresti eða óæskilegri hegðun á markaði með því að setja fleiri bönn, frekar en að beina sjónum að hinu undirliggjandi gangverki.

Dæmi um það er til dæmis þegar fólk framleigir félagslegt húsnæði. Það er eðlilegt að mörgum misbjóði slík hegðun og vilja banna hana, sérstaklega meðan aðrir bíða á biðlista. En hins gæti þetta líka verið til merkis um að fólkið hefði frekar nota fyrir annars konar aðstoð, heldur en þá sem það fær, til dæmis hærri beina fjárhagslega aðstoð.

Annað dæmi, sem ég las um um daginn, er að í San Francisco urðu til öpp sem gerðu fólk mögulegt að hanga í ókeypis bílastæðum og “selja” þau síðan áfram til annarra vegfarenda. Niðurstaðan var auðvitað að reyna að banna viðkomandi öpp, meðan tilvist þeirra var fyrst og fremst vísbending um að bílastæðin sjálf hefðu átt að kosta. Ef bærinn myndi rukka eðlilegt markaðsverð fyrir þau væri enginn grundvöllur fyrir milliliðann. Svona dæmum er gott að vera vakandi fyrir, allar borgir heimsins eru fullar af þeim!

Í formálanum lýsir höfundur því yfir að hann vilji með bókinni koma meiri hagfræðiþekkingu inn í skipulagsdeildir borga. Það má segja að þar sé á ferðinni frekar hóstillt lýsing á hugsanlegum markhóp bókarinnar. Ég held að margir sem hafa áhuga á hagfræði og borgarmálum almennt gætu haft gaman að því að glugga í Order without Design eftir Alain Bertaud.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.