Pólitík á áhorfendabekk

Þegar hætta steðjaði að Róm til forna gat öldungaráðið afhent svokölluðum alræðismanni öll völd til að takast á við hættuna, hvort sem um var að ræða óvinaher eða óstöðugleika innanlands. Rómverjar höfðu eðlilega áhyggjur af misbeitingu þessarar miklu valdheimildar og því var einungis hægt að virkja hana í sex mánuði í senn. Eftir það féllu valdheimildir alræðismannsins eða „dictator“ eins og hann var kallaður á latínu niður. Þetta kerfi nýttist Rómverjum vel í gegnum aldirnar þar til maður að nafni Júlíus Caesar tók við þessum valdheimildum árið 48 fyrir Krist og lét þær aldrei af hendi. En það er önnur saga.

Þvingaður veruleiki

Síðustu vikur hafa landsmenn fengið að kynnast afar þvinguðum veruleika sem þeir hafa áður ekki þekkt nema af afspurn. Aðgerðir íslenskra sóttvarnaryfirvalda til að stemma stigu við heimsfaraldrinum hafa falið í sér stórfelld inngrip og takmarkanir á mannréttindum okkar. Ferða- og fundafrelsi jafnt sem atvinnufrelsi hefur þurft að undirgangast verulegar takmarkanir og að auki friðhelgi einkalífs í kringum smitrakningar.

Hér á landi má líklega slá því föstu að yfirvöld, ríkisstjórnin, almannavarnir og sóttvarnarteymið, séu af heilum hug að leggja sig fram við að hefta framgang veirunnar og fletja hina margfrægu kúrfu út til að vernda heilbrigðiskerfið og þannig vernda líf og heilsu landsmanna. Í alþjóðlegu samhengi teljast aðgerðir sóttvarnaryfirvalda nokkuð hófsamar, útgöngubanni hefur ekki verið beitt, hvergi hefur landshlutum verið lokað og það var ekki fyrr en alþjóðasamfélagið fór víðast hvar að loka sínum dyrum fyrir komu fólks af öðru þjóðerni en sínu eigin, að Íslendingar fylgdu því fordæmi.

Stoðina fyrir þessum takmörkunum er að finna í sóttvarnarlögum nr. 19/1997 sem veita ráðherra meðal annars heimild, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, til að grípa til opinberra sóttvarnarráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Rétt er að geta að engar sérstakar takmarkanir, fyrirvarar eða hömlur virðast vera á þessum heimildum.

Hvernig hefur pólitíkin staðið sig?

Svo miklar og opnar valdheimildir eru sjaldgæfar í lýðræðisþjóðfélagi. Í ljósi þess að þær hafa nú verið virkjaðar er áhugavert að fylgjast með viðbrögðum í pólitíkinni. Þrátt fyrir að ráðherra taki hina endanlegu ákvörðun þá dylst engum að sóttvarnarteymið, með sóttvarnarlækni, landlækni og almannavarnir ríkislögreglustjóra fremst í flokki, hefur fengið að ráða nánast öllum aðgerðum á meðan hin þjóðkjörnu stjórnvöld hafa staðið til hliðar og de facto afsalað sér þessum miklu valdheimildum til sérfræðinganna.

Þessi staða, eins vel og hún hefur virkað, hingað til a.m.k, er samt sem áður varhugaverð. Hún er ekki varhugaverð að því leytinu til að aðgerðirnar hefðu átt að vera með allt öðrum hætti eða að þörf hafi verið á meiri pólitík inn í ákvarðanir sóttvarnateymisins. Alls ekki.

Það sem hefur vantað í allt ferlið og framferði stjórnvalda hingað til er umræðan. Lýðræðisleg umræða meðal kjörinna fulltrúa um þessar gríðarlegu afdrifamiklu aðgerðir hverju sinni og áhrif þeirra á land og þjóð. Hvers vegna þær leiðir sem valdar hafa verið eru farnar en ekki aðrar og hvort vægari eða harðari aðgerðir gætu mögulega skilað sömu niðurstöðum. Þingið virðist að mestu einbeita sér að efnahagslegum viðbrögðum við ákvörðunum sóttvarnarteymisins, ákvarðanirnar sem slíkar hafa ekki vakið mikinn áhuga þar innandyra hingað til.

Mögulega hefði ítarlegri umræða um alvarlegar efnahagslegar afleiðingar aðgerðanna eitthvað breytt áherslum eða útfærslum. Við sjáum til dæmis að nágrannnar okkar í Svíþjóð og Danmörku hafa lagt mikla áherslu á að vernda efnahagskerfið. Svíþjóð hefur farið í vægari sóttvarnaraðgerðir af þeim sökum á meðan Danmörk beitti meiri hörku og óvíst er hvernig sagan mun dæma viðbrögð ríkjanna. Hefði þingið getað rætt þessar aðferðir grannríkjanna og velt því fyrir sér hvað valdi því að
frændur okkar fari allt aðrar leiðir en við? Eru það mistök af þeirra hálfu eða getur verið að aðrar aðgerðir geti skilað sambærilegum sóttvörnum en betri niðurstöðum þegar kemur að fyrirsjáanlegri dýpstu efnahagslægð sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir í heila öld? Hefði þetta ekki í hið minnsta átt skilið svona eins og einn þingfund? Hefði ekki mátt ræða málið?

Það sama má til dæmis segja um skort á umræðu um hvort það væri forsvaranlegt að fá yfir 100 þúsund manns til að hlaða niður smitrakningarforriti sem heldur utan um ferðir viðkomandi þegar smitum er að fækka svo hratt að, um þremur vikum seinna, eru að koma dagar þar sem ekkert smit greinist hér á landi. Eða hvort það sé rétt í þeirri ánægjulegu þróun að kynna til leiks uppfærslu á títtnefndu smitrakningarforriti sem felur í sér miklu meira inngrip í friðhelgi einkalífs en í fyrri útgáfu. Er vernd friðhelgi einkalífs borgaranna orðið það léttvæg í seinni tíð að ekki þarf einu sinni að impra á því á þinginu? Hvar eru hugsjónirnar og hugmyndafræðin?

Lömuð á kantinum

Umræðan er nánast engin og því miður virðast kjörnir fulltrúar, stjórnarliðar jafnt sem stjórnarandstaða, vera í algjörri tilvistarkreppu og ekki vita í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Ráðleysi pólitíkurinnar var líklega hvergi eins sýnilegt og í uppákomu sem varð á þinginu í síðustu viku þegar þingfundi var slitið eftir innan við 5 mínútur þegar í ljós kom að yfir 20 manns voru í þingsal og þingheimur var því að brjóta samkomubannið. En í stað þess að takast á við vandamálið þá ákváðu allir að fara bara heim. Án þess að tala saman.

Núna sést bersýnilega hversu bagalegt það getur verið að hafa veika og tvístraða stjórnarandstöðu. Hún virðist ekki þora að skora stjórnvöld á hólm og neyða meirihlutann til að standa skil á þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar. Eflaust spilar það einhverja rullu að meirihluti þjóðarinnar er samþykkur aðgerðum embættismannanna en, eins leiðinlegt og það er fyrir stjórnarandstöðuna að vera hrópandinn í eyðimörkinni, þá er það nauðsynlegt til að lýðræðiskerfi okkar virki. Og það virkar svo sannarlega ekki þegar stjórnarandstaðan tekur auðveldu leiðina, fylgir fordæmi stjórnarliða og stendur lömuð á kantinum og fylgist úr fjarska með sóttvarnarteyminu að störfum.

Við megum ekki gleyma að ólíkt hinum ráðalausu og lömuðu þingmönnum þá var sóttvarnarteymið aldrei kjörið til að leiða þjóðina í gegnum erfiðleika og mun aldrei þurfa að sæta lýðræðislegri ábyrgð vegna ákvarðana sinna. Stefna þeirra í efnahagsmálum, afstaða gagnvart ferðaþjónustu, aðkomu ríkisins að rekstri fyrirtækja eða samfélagslegri uppbyggingu hefur aldrei verið borin undir þjóðina á kjördag.

Hvað viljum við?

Þess vegna verða kjörnir fulltrúar, stjórn jafnt sem stjórnarandstaða, að vakna úr dáinu og axla þá lýðræðislegu ábyrgð sem við fólum þeim í síðustu kosningum. Þetta er sérstaklega mikilvægt núna þegar verið er að ræða um að viðhalda hluta af þvingunum fram á næsta ár. Spurningar, umræða og jafnvel efasemdir kjörinna fulltrúa mega ekki vera metnar sem ónauðsynlegt andóf, veikleikamerki eða skortur á stuðningi. Slík viðbrögð ber miklu frekar að túlka sem nauðsynlegt súrefni fyrir lýðræðislega umræðu sem stendur svo höllum fæti víða um heim.

Í kjölfarið verðum við líka að ræða hvort þetta sé eðlilegt ástand. Hvort við viljum að stjórnmálamenn fari með þau lýðræðislegu völd sem þau sækja til kjósenda og sæti pólitískri ábyrgð vegna beitingar þeirra. Að öðrum kosti væri heiðarlegra að völdin færðust beint til embættismanna þegar neyðarástand skapast, eins og sóttvarnarlæknis núna. Þá yrði viðkomandi í reynd nokkurs konar tímabundinn einvaldur. Vissulega upplýstur en einvaldur engu að síður. Slíkt kerfi þjónaði Rómverjum vel í gegnum aldirnar. Alveg þangað til það gerði það ekki.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.