Páskahret á tilsettum tíma

Það er margt í heiminum hverfult, flest ef út í það er farið, en sumt má stóla á og eitt af því er páskahretið. Nú þegar líður að miðnætti aðfararnótt páskadags er hann þegar farinn að snúa sér í orðanátt og á morgun mun ískalt heimskautaloftið steypa sér yfir landið.

Það vekur raunar furðu að ekki sé búið að kalla út björgunarsveitir og loka helstu útivistarsvæðum og almenningssvæðum, því erfitt er að sjá fyrir sér að fólk endist lengi í svona kulda, jafnvel illa búið og áttavillt.

Á ótrúlega skömmum tíma hefur íslenska þjóðin breyst úr samfélagi einstaklinga sem standa saman en bera fyrst og fremst ábyrgð hver á sjálfum sér, heildinni til heilla, í að vera eins konar mannhjörð sem bíður grandalaus og dómgreindarlaus, skroppin sjálfstrausti og sjálfstæði, eftir fyrirmælum að ofan um allar ákvarðanir í lífinu, frá hinum smæstu til hinna stærstu.

Kuldinn og nauðið í vindinum er áminning um að við getum einungis treyst á okkur sjálf, að réttar ákvarðanir, dómgreind og þekking kynslóðanna er það sem skilur á milli feigs og ófeigs í lífinu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.