Páskadagur árið 2021

Í augum samtímafólks Jesú hafði þessi samfélagstilraun, sem hann boðaði, mistekist þegar hann var krossfestur á Golgatahæð. Lýðurinn sem fagnaði honum á Pálmasunnudegi og veifaði pálmagreinum hrópaði síðan krossfestu, krossfestu. Það gekk eftir á föstudeginum langa.

Ágætu lesendur. Gleðilega páska. Ef allt væri eins og það á að vera myndi sálmurinn: Sigurhátíð sæl og blíð/ ljómar nú og gleði gefur, eftir sr. Páll Jónsson verða sunginn í kirkjum landsins á Páskadag.  Sálmurinn er í huga margra mikilvægur til að slá réttan tón og kalla fram þau hughrif sem boðskapur páskanna hefur í samfélagi trúaðra. Boðskapinn um að lífið hefur sigrað dauðann. Vonin lifir – þrátt fyrir allt. “Nú vor blómgast náðarhagur, / nú sér trúin eilíft ljós.”

Það er ekkert nýtt að fólk stundi þá hugarleikfimi að velta fyrir sér hvernig Jesús frá Nazaret myndi bregðast við ef hann stígi inn í veröldina í dag. Allt væri með öðrum brag. Sú veröld sem var þegar Jesús var á dögum var skammt komin í mörgu því sem þykir eðlilegt og sjálfsagt í dag. Þá er sama hvar við stígum niður fæti. Framfarir hafa verið stórkostlegar á flestum sviðum.

En í öðru myndi veröldin ekki vera mikið frábrugðin því sem mætti Jesú á hérvistardögum hans. Heimurinn var grimmur þá og er það enn. Misskipting ávaxta jarðarinnar, miskunnarleysi og valdníðsla. Fólk er jaðarsett og valdhafar ganga fram með ofbeldi og sá sterki kúgar þann veika.

En líkt og áður í sögunni myndi hann líka sjá fólk sem vill rétta þeim hjálparhönd sem eiga erfitt. Hann myndi sjá viðleitni til að skapa samfélög þar sem fólk hefur frelsi til að vera það sjálft. Stefnur og strauma þar sem hlúð er að velferð fólks, frelsi og mannréttindum.

Í augum samtímafólks Jesú hafði þessi samfélagstilraun, sem hann boðaði, mistekist þegar hann var krossfestur á Golgatahæð. Lýðurinn sem fagnaði honum á Pálmasunnudegi og veifaði pálmagreinum hrópaði síðan krossfestu, krossfestu. Það gekk eftir á föstudeginum langa.

En síðan kom sunnudagur. Og konurnar komu að gröfinni og hún var tóm. Þær  urðu eðlilega hræddar en fóru og hittu lærisveinana með þau skilaboð að Hann væri upprisinn.

Dymbilvikan er mikið drama og er vendipunktur sögunnar. Stór hluti guðspjallanna fjallar um atburði þessara daga og það er greinilegt að þegar í frumkristni skiptu þessir atburðir öllu í trúarlífi þeirra sem játuðu að Jesús væri Kristur. Hann væri Messías, sem Guð hafði gefið fyrirheit um í spádómum gamlatestamentisins. Hann var og er ljós fyrir þjóðirnar.

Í Davíðssálmi segir: Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini. Fagnaðarerindið um líf Jesú og boðskap hans hljómar enn og hefur áhrif í veröldinni. Boðskapurinn um miskunnarverkin sjö er enn í fullu gildi: að metta hungraða, gefa þyrstum að drekka, hýsa heimilislausa, klæða klæðlausa, vitja sjúkra og fanga. Og samtíminn hefur síðan bætt við og lagt áherslu á áttunda miskunnarverkið sem felst í því að hlúa að náttúrunni.

Jesús lifir og erindið sem hann stóð fyrir um samfélag mennsku, og kærleika var sannarlega ekki mistök og verður ekki þagað í hel. Guðspjöllin vitna um að Guð reisti Jesú upp frá dauðum. Hann birtist lærisveinunum eftir dauða á krossinum og þeir trúðu því að vinur þeirra og meistari væri áfram með þeim á göngunni. Páskarnir undirstrika þá trú að Jesús Kristur sé einnig með okkur og færir mannkyni von og vopn í baráttunni fyrir betri heimi og trúin á hann viðheldur voninni um betra samfélag, fyrirgefningu, og eilíft líf.

Þannig eru páskarnir sigur í bráð og lengd og vitnisburður um að lífið lifir og sömuleiðis trú, von og kærleikur.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)